Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 242. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 574  —  242. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um fjárframlög til ÍSÍ og KSÍ.

     1.      Hver hafa fjárframlög úr ríkissjóði til ÍSÍ verið síðastliðin fimm ár? Hver hefur hlutdeild KSÍ í þeim verið?
    Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands nýtur stuðnings úr ríkissjóði sem æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu. Hlutverk sambandsins hefur verið að setja hinn almenna ramma utan um íþróttastarfið og móta stefnu um hin ýmsu málefni íþróttahreyfingarinnar. Auk þess sér íþróttahreyfingin um verkefni tengd almenningsíþróttum, lyfjaeftirliti, Ólympíuleikum, smáþjóðaleikum og fleira. Á fjárlögum er annars vegar skilgreint beint framlag til Íþrótta- og Ólympíusambandsins undir fjárlagalið 02-989-110 og hins vegar framlög af ýmsum liðum til verkefna sambandsins sem samningar hafa verið gerðir um, t.d. samningar um Ferðasjóð ÍSÍ á fjárlagalið 02-989-111, Afrekssjóð ÍSÍ á fjárlagalið 02-989-129 og lyfjaeftirlit á fjárlagalið 02-989-131. Fyrirspurnin lýtur einnig að fjárframlögum úr ríkissjóði til ÍSÍ síðastliðin fimm ár, eða 2005–2009, og hlutdeild KSÍ í þeim. Frá árinu 2006 hefur verið gert ráð fyrir framlagi til sérsambanda ÍSÍ í framlagi til ÍSÍ samkvæmt samningi sem ráðuneytið gerði við ÍSÍ um fjárframlög til sérsambanda ÍSÍ. Samningurinn rennur út í árslok 2009 og er gert ráð fyrir að hann verði endurnýjaður. Í eftirfarandi töflu má sjá framlög til ÍSÍ síðastliðin fimm ár og hlutdeild KSÍ í þeim:

Framlag til ÍSÍ samkvæmt fjárlögum á verðlagi hvers ár, millj. kr.

2005 2006 2007 2008 2009
Framlög ÍSÍ, Ólympíuleikar, fræðsluverkefni, rekstur o.fl. 74,7 78,7 82,5 102,9 107,9
Framlög til sérsambanda sem ÍSÍ sér um að úthluta 30 40 60 70
Framlög til Ferðasjóðs ÍSÍ (eingöngu ætlaður íþróttafélögum) 30 59 60
Framlög til Afrekssjóðs ÍSÍ 25 30 30 30 30
Framlög til lyfjaeftirlits sem ÍSÍ sér um 7 10 12 12
Framlög til sérverkefna, svo sem Lífshlaup, norræn verkefni o.fl. 0,5 0,92 0,6 0,75
Samtals framlög 100,2 146,62 192,5 264,5 280,65
Hlutdeild KSÍ í framlögum sem veitt eru ÍSÍ
Hlutdeild KSÍ af framlögum til sérsambanda 3,2 3,6 3,8
Hlutdeild KSÍ af framlögum til Afrekssjóðs 4 4 4 4 7
Samtals framlög 4 4 7,2 7,6 10,8

    Samkvæmt ársreikningi ÍSÍ 2008 námu tekjur sambandsins 515.840.318 kr. og gjöld 520.149.275 kr. Þessu til viðbótar er framlag ríkisins til sérsambanda sem nam 60 millj. kr. árið 2008 en ÍSÍ sér um að úthluta þeim fjármunum. Rekstrarniðurstaðan fyrir fjármagnsliði var því neikvæð um 4.308.957 kr. árið 2008. Með fjármagnstekjum var hagnaður ársins hins vegar 42.029.747 kr. Þess ber að geta inni í þessum tekjum er hlutdeild ÍSÍ í Íslenskri getspá en rekstrarárið 2008 nam sú upphæð 257.665.070 kr., þeirri fjárhæð var dreift á íþróttahreyfinguna og verkefni sérsambanda og héraðssambanda, auk þess sem hlutdeild ÍSÍ fór í verkefni sjóða ÍSÍ. Samtals var úthlutað úr þeim sjóðum 165.623.679 kr. Framlag ríkisins rekstrarárið 2008, 264,5 millj. kr. sem hlutfall heildartekna sambandsins námu því 46% af heildartekjum ÍSÍ og er þá 60 millj. kr. framlag til sérsambanda með í útreikningnum.
    Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu KSÍ voru heildartekjur sambandsins samkvæmt ársreikningi 2008 um það bil 871 millj. kr. og er rekstrarstyrkur ríkisins 7,6 millj. kr. af því.

     2.      Hver eru áætluð fjárframlög til ÍSÍ í fjárlagafrumvarpi 2010 og hver er áætluð hlutdeild KSÍ í þeim?
    Í frumvarpi til fjárlaga 2010 er lagt til að fjárveitingar til ÍSÍ verði 145,5 millj. kr. Af því er skilgreint framlag til sérsambanda 63,7 millj. kr. Reikna má með að hlutdeild KSÍ verði 3,4 millj. kr. Gert er ráð fyrir að Ferðasjóður ÍSÍ verði 57 millj. kr., að framlag til Afrekssjóðs ÍSÍ verði 25 millj. kr. og að framlag vegna lyfjaeftirlits verði 12 millj. kr. Sérsambönd sækja um styrki úr Afrekssjóði og því ekki hægt að áætla hlut KSÍ fyrir árið 2010.

     3.      Hefur KSÍ fengið önnur fjárframlög úr ríkissjóði síðastliðin fimm ár? Hver eru þau og um hvaða fjárhæðir er að ræða?
    KSÍ hefur nokkra sérstöðu meðal sérsambanda ÍSÍ með tilliti til umfangs starfseminnar. Iðkendur knattspyrnu samkvæmt starfsskýrslum ÍSÍ eru um 19.200. Á síðustu árum hafa verið veittir stofnstyrkir til verkefna sem KSÍ hefur staðið fyrir eitt sér eða í samstarfi við ríki og sveitarfélög af fjárlagaliðum 02-989-6.57, 02-989-6.58 og 02-999-690. Fjárframlög til sambandsins frá árinu 2005 eru eftirfarandi:

Stofnkostnaðarframlög til KSÍ samkvæmt fjárlögum á verðlagi hvers ár, millj. kr.

2005 2006 2007 2008 2009
Áhorfendaaðstaða á Laugardalsvelli í Reykjavík 50 50 47,5 50 0
Sparkvellir sem unnið var í samstarfi við sveitarfélög 25 25 25 25 0
Mannvirkjasjóður KSÍ 0 0 0 15 12
Stuðningur vegna kvennalandsliðsins 0 0 0 0 2
Samtals framlög 75 75 72,5 90 14