Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 140. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 575  —  140. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um nema í dreifnámi, fjarnámi og staðnámi.

     1.      Hver er fjöldi fjarnema annars vegar og dreifnema hins vegar? Hver er aldursdreifing þeirra, kyn og búseta?
    Í upplýsingaöflun um fjölda nemenda hefur ekki verið gerður greinarmunur á fjarnámi og dreifnámi. Dreifnemar eru því taldir með fjarnemum í upplýsingum frá Hagstofu Íslands sem ráðuneytið styðst við.
    Haustið 2008 voru fjar- og dreifnemar á framhaldsskólastigi 4.782 af 25.590 nemendum samtals. Þar af eru 3.482 nemendur einnig skráðir í dagskóla eða kvöldskóla.
    Á háskólastigi stunda 3.340 nemendur fjar- og/eða dreifnám af 18.104 nemendum alls.
    Eftirfarandi töflur sýna aldursdreifingu, kyn og búsetu fjarnema.

Aldursdreifing og búseta fjarnema haustið 2008 í framhaldsskóla- og háskólanámi.


Aldursfl. Fjöldi Reykjavík Hbsv. utan Rvíkur Suðurnes Vesturland Vestfirðir Norðurland
vestra
Norðurland
eystra
Austurland Suðurland Erlendis
<20 ára 1.532 549 401 34 61 35 30 167 93 143 19
20-24 ára 1.423 462 321 108 73 47 24 156 89 114 29
25-29 ára 1.235 410 259 118 70 26 30 133 54 86 49
30-39 ára 1.897 484 420 158 126 57 73 230 115 172 62
40-49 ára 1.333 335 288 119 83 55 50 165 97 124 17
50 ára+ 702 227 174 28 54 23 29 78 36 48 5
8.122 2.467 1.863 565 467 243 236 929 484 687 181


Kyn og búseta fjarnema haustið 2008 í framhaldsskóla- og háskólanámi.

Kyn Fjöldi Reykjavík Hbsv. utan Rvíkur Suðurnes Vesturland Vestfirðir Norðurland
vestra
Norðurland
eystra
Austurland Suðurland Erlendis
Karlar 2.466 856 623 155 102 65 44 296 117 164 44
Konur 5.656 1.611 1.240 410 365 178 192 633 367 523 137
8.122 2.467 1.863 565 467 243 236 929 484 687 181


     2.      Hver er áætlaður kostnaður á námseiningu hjá staðnemum, dreifnemum og fjarnemum, eftir skólastigum og námsleiðum?
     3.      Eru greiðslur til skóla fyrir nemendagildi mismunandi eftir því hvort um er að ræða staðnema, dreifnema eða fjarnema?

    Á fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir að framlag á einingu í framhaldsskólanámi sé að meðaltali um 25.000 kr. Ekki er gerður greinarmunur á framlagi til eininga sem teknar eru í dagskóla og í fjarnámi. Námsleiðir eru enn fremur margar og ólíkar og hlutfall bók- og verknáms innan þeirra getur verið mjög mismunandi. Því er erfitt að svara spurningunni um kostnað eftir námsleiðum án frekari afmörkunar. Auk þessa er nokkur hreyfing á nemendum á milli námsleiða en reiknilíkan fyrir framhaldsskólann miðar við fjölda þeirra eininga sem nemandinn stundar nám í.
    Í reiknilíkani háskóla er gert ráð fyrir ákveðnu framlagi fyrir hvern ársnema þar sem ársnemi er skilgreindur sem nemandi sem þreytir próf í 30 námseiningum (60 ECTS-einingum). Um nokkra reikniflokka er að ræða og því ólíkar greiðslur eftir því um hvaða nám ræðir. Verð á hvern ársnema er frá 501 þús. kr. til 2.650 þús. kr. og er nám á sviði félags- og mannvísinda ódýrast en nám í tannlækningum dýrast. Ekki er gerður greinarmunur á því hvort nemendur eru í staðnámi, dreifnámi eða fjarnámi. Meðalverð á hverjar 30 námseiningar (60 ECTS-einingar) var 751,5 þús. kr. samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2009 en það svarar til 25.050 kr. á hverja námseiningu að meðaltali (hverjar tvær ECTS-einingar). Rétt er að taka fram að landbúnaðarháskólarnir, þ.e. Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli – Háskólinn á Hólum, fá ekki enn framlög samkvæmt reiknilíkani háskóla og því liggja ekki fyrir upplýsingar um kostnað á hverja námseiningu við þá skóla.
    Hægt er að sjá lista yfir verðflokka náms á háskólastigi í frumvarpi til fjárlaga ár hvert, sjá bls. 245 í frumvarpi til fjárlaga 2009 og bls. 250 í frumvarpi til fjárlaga 2010. Í sama kafla fjárlaganna er jafnframt að finna upplýsingar um meðalverðhlutfall en það er birt neðst í töflu sem sýnir fjölda ársnema sem ríkið greiðir eftir skólum og reikniflokkum.