Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 282. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 591  —  282. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Ragnheiðar E. Árnadóttur um fundi við erlenda aðila um Icesave-málið.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu marga fundi, símtöl/samtöl, hefur ráðherra eða aðrir á hans vegum átt við erlenda aðila um Icesave-málið frá því að lög um ríkisábyrgð voru samþykkt 28. ágúst sl. og við hverja? Hvaða fundargerðir, formlegar eða óformlegar, minnisblöð, skriflegar frásagnir eða önnur skrifleg gögn liggja fyrir af þeim fundum? Stendur til að birta þau gögn?

    Icesave-málið hefur borið á góma á ýmsum fundum og í samtölum sem forsætisráðherra hefur átt með erlendum aðilum frá því að lög nr. 96/2009 voru samþykkt 28. ágúst sl. Meðal annars má nefna fund með öllum forsætisráðherrum Norðurlanda á Norðurlandaráðsþingi í Svíþjóð í lok október sl., nýlegan fund með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og viðræður og samtöl við forsætisráðherra og þjóðarleiðtoga nokkurra ríkja á lofstlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í síðastliðinni viku. Þá hafa embættismenn og aðrir starfsmenn ráðuneytisins setið fundi hér á landi og erlendis með sendiherrum og öðrum fulltrúum Breta og Hollendinga á sama tímabili og átt fjölmörg símtöl við þá. Ennfremur hefur verið haft samráð í síma við forsætisráðuneyti Bretlands og Hollands um framgang viðræðna ríkjanna. Formlegar fundargerðir hafa ekki verið haldnar á þessum fundum, né skipulega skráð hvers efnis samtöl eru. Ræðst það af aðstæðum hvaða skriflegu gögn eru til í formi minnispunkta.
    Framkvæmd varðandi skráningu upplýsinga um fundi eða samtöl af þessu tagi hefur verið svipuð undanfarin ár og hér hefur verið lýst. Það hefur verið venja í forsætisráðuneytinu eins og öðrum ráðuneytum alla tíð að birta ekki opinberlega einhliða frásagnir af samskiptum við erlenda aðila. Það styðst við þau augljósu rök að ella yrði grafið mjög undan trausti í samskiptum Íslands við önnur ríki. Þegar greint er opinberlega frá efni funda eða samtala er slík frásögn unnin í sameiningu af hlutaðeigandi í formi fundargerðar eða fréttatilkynningar.