Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 262. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 604  —  262. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um útboð á sérleyfum til olíuleitar.

    Hvað telur ráðherra geta skýrt meiri áhuga á útboði Grænlendinga á sérleyfum til olíuleitar en útboði Íslendinga?

    Olíuleit við Grænland hefur staðið yfir með hléum frá árinu 1969. Umsvif vegna olíuleitarinnar hafa sveiflast í takt við olíuverð en mikill uppgangur hefur verið í olíuleit við Grænland undanfarin ár. Leitin hófst vestur af landinu, sunnan Diskóflóa, á hafsvæði sem einkennist af því að lítið er um hafís og því hægt að stunda siglingar allt árið um kring. Miklar mælingar hafa verið gerðar á jarðlögum með jarðeðlisfræðilegum aðferðum ásamt því að boraðar hafa verið olíuleitarholur. Fimm holur voru boraðar á tímabilinu 1976–1977 án nokkurs árangurs og eftir það lagðist olíuleit á því svæði í dvala um margra ára skeið. Á árunum 1985–1989 voru gerðar olíurannsóknir á Jameson-landi á Austur-Grænlandi sem sýndu að á hluta svæðisins eru aðstæður fyrir hendi til að olía eða gas gætu hafa myndast. Um 1990 tók olíuleitin aftur við sér, m.a. með hljóðendurvarpsmælingum sem gerðar voru af jarðfræðistofnun Danmerkur og Grænlands og með rannsóknum á landi sem sýndu ummerki um olíu en þó ekki í vinnanlegu magni. Árið 2000 var boruð sjötta leitarholan vestur af Grænlandi. Engin ummerki um olíu eða gas fundust, en mikilvægar upplýsingar bættust við þekkingu á jarðlögum á svæðinu.
    Landgrunnið norðvestan og norðaustan við Grænland er talið hafa mikla olíumöguleika, en þessi hafsvæði eru ísilögð stóran hluta ársins. Til að koma af stað rannsóknum á þessum erfiðu svæðum var KANUMAS-hópurinn stofnaður en í houm eru sex olíufélög (Statoil, BP, ExxonMobil, ChevronTexaco, Shell og Japan Oil, Gas and Metals National Corporation) sem munu hafa forgang að sérleyfum í útboði sem verður haldið 2012 fyrir svæðið norðaustur af Grænlandi. Rannsóknirnar sem KANUMAS-hópurinn hefur fjármagnað gefa góða mynd af olíujarðfræði þessara svæða.
    Fyrsta útboð sérleyfa á Grænlandi var haldið árið 1992 fyrir svæði vestur af landinu, sunnan 66°N. Engar umsóknir bárust í því útboði. Árið 1998 var lagaramminn um leyfisveitingar endurskoðaður og næsta útboð haldið árið 2002, fyrir svæði vestur af landinu, milli 63°N og 68°N, með nýjum útboðsreglum sem veittu m.a. grænlenska ríkisolíufélaginu heimild til þátttöku í sérleyfum. Eitt sérleyfi var veitt í útboðinu til tveggja félaga en þau eru kanadíska félagið Encana Coporation og breska félagið Capricorn Atammik Limited. Næsta útboð var haldið árið 2004 fyrir fjögur leyfissvæði vestur af landinu, eitt sérleyfi var veitt fyrir einn hluta leyfissvæðanna til Encana Corporation og Capricorn Lady Franklin Limited sem einnig er breskt félag. Síðasta útboð fór fram í tveimur hlutum árið 2006 fyrir átta svæði vestur af Grænlandi, milli 67°N og 71°N. Sjö sérleyfi voru veitt í útboðinu, fyrirtækin sem eiga aðild að leyfunum í mismunandi hlutföllum eru:
          Husky Oil Operations Limited (Kanada),
          Esso Exploration Greenland Limited (Bandaríkin),
          Chevron Greenland Exploration A/S (Bandaríkin),
          DONG Grønland (Danmörk),
          Capricorn Greenland Exploration Limited (Bretland),
          PA Resources AB (Svíþjóð).
    Ekkert þessara félaga tekur þátt í öllum sérleyfunum sem veitt voru eftir útboðið árið 2006 heldur taka þau þátt í leyfunum ýmist eitt eða í hópi sem í eru allt að þremur af þessum félögum. Nunaoil, ríkisolíufélag Grænlendinga, heldur 12,5% hlut í öllum sérleyfum sem veitt hafa verið frá og með 2002 án þess að greiða samsvarandi hluta af kostnaðinum en þátttaka Nunaoil er eitt af útboðsskilyrðum Grænlendinga.
    Umsóknarfrestur í næsta útboði sérleyfa fyrir svæðið norðvestur af Grænlandi er 1. maí 2010, en í tengslum við útboðið bárust 13 umsóknir frá fyrirtækjum um heimildir til að gerast rekstraraðilar í leyfum sem veitt verða í útboðinu. Þessar umsóknir eru ekki bindandi og því ekki víst að öll þessi fyrirtækinu taki þátt í útboðinu.
    Þrátt fyrir að töluvert sé til af gögnum um jarðlögin á íslenska landgrunninu, og þá sérstaklega á Drekasvæðinu, þá er það minna en það sem til er fyrir grænlenska landgrunnið. Viðamiklar rannsóknir voru gerðar með sameiginlegum mælingum Íslendinga og Norðmanna árin 1985 og 1988. Niðurstaða þeirra var að miðað við olíuverð þess tíma og tækniþekkingu þá væri olíuvinnsla á Drekasvæðinu ekki hagkvæm. Aðstæður breyttust með hækkandi olíuverði ásamt aukinni tækniþekkingu og í kjölfarið jókst áhuginn aftur um 2000. Árin 2001 og 2002 voru gerðar mælingar af olíuleitarfélögum í samræmi við leitarleyfi sem þeim voru veitt. Þessi gögn ásamt gögnunum frá 1985 og 1988 gefa góða heildarmynd af jarðfræði Drekasvæðisins. Engar boranir hafa hins vegar farið fram á Drekasvæðinu.
    Í fyrsta útboði sérleyfa til olíuleitar á Drekasvæðinu sem haldið var fyrri hluta þessa árs bárust tvær umsóknir sem byggðust á þeim gögnum og þekkingu sem fyrir hendi er. Efnahagsástand í heiminum á útboðstímabilinu og lágt olíuverð hefur eflaust haft áhrif á niðurstöður útboðsins og bárust Orkustofnun fregnir af öðrum félögum sem voru við það að senda inn umsókn en hættu við á síðustu stundu vegna aðstæðna á fjármálamörkuðum. Þrátt fyrir þetta ástand ákváðu tvö fyrirtæki að olíulíkurnar á svæðinu væru nægilegar miklar til að sækja um sérleyfi en drógu síðar umsóknir sínar til baka.
    Á Grænlandi hafa einnig fundist ummerki um olíu á landi, þ.e. sýnt hefur verið fram á að olía hefur myndast, sem eykur verulega líkur á því að olíuleit heppnist í samsvarandi jarðlögum á hafsbotni. Miklu máli skiptir fyrir olíufélögin þegar metið er hvort sækja eigi um sérleyfi á nýjum svæðum að líkur þess að finna megi olíu séu nægilega miklar en ummerki um olíu á landi auka þær mikið. Ekki hefur enn verið sýnt fram á að olía eða gas hafi myndast á Drekasvæðinu, en grundvöllurinn að núverandi mati eru m.a. rannsóknir sem gerðar hafa verið á Austur-Grænlandi. Bandaríska jarðfræðistofnunin (U.S. Geological Survey) hefur nýverið lagt mat á líklegt magn af olíu sem gæti verið að finna við Vestur- og Austur- Grænland og komst að þeirri niðurstöðu að um sjö milljarða tunna gæti verið að ræða vestan Grænlands en um níu milljarða tunna gæti verið að ræða austan Grænlands. Í þessari sömu rannsókn var niðurstaðan sú að ekki væri til nægilega mikið af gögnum til að leggja mat á mögulegt olíumagn á Drekasvæðinu með aðferðafræðinni sem beitt var við rannsóknina.
    Olíuleit á og við Grænland á sér því lengri sögu en olíuleit við Ísland. Ekki hefur fundist olía við Grænland í vinnanlegu magni, en ummerki um olíu hafa fundist í borkjörnum á landi. Helsta skýring þess að meiri áhugi er á útboði Grænlendinga á sérleyfum til olíuleitar en útboði Íslendinga felst í því að mun meiri þekking er á olíujarðfræðinni við Grænland en við Ísland, auk þess sem um víðfeðmari svæði er að ræða við Grænland. Í rauninni byggist þekking á olíujarðfræði Drekasvæðins að hluta til á rannsóknum á Austur-Grænlandi. Við mat fyrirtækja á því hvort sækja eigi um sérleyfi á nýjum svæðum líta til fyrirtækin einkum til jarðfræðinnar.
    Mikilvægt er fyrir Íslendinga að halda áfram að byggja á reynslu nágrannaþjóða, eins og Grænlendinga, Færeyinga og Norðmanna. Hafa ber í huga að olíufundur í nágrenni við Ísland hefði jákvæð áhrif á olíuleit hér ásamt því sem olíufundur hér myndi hafa jákvæð áhrif á olíuleit í nágrannalöndunum. Reynsla Grænlendinga og Færeyinga á olíuleit sýnir að um er að ræða langt ferli og að framgangur leitarinnar tengist aðstæðum í heiminum á hverjum tíma.