Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 348. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 640  —  348. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Önnu Pálu Sverrisdóttur um laun hjá hinu opinbera og lágmarksframfærslu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Telur ráðherra ásættanlegt að hið opinbera greiði í sumum tilvikum svo lág laun að Útlendingastofnun telur að þau dugi ekki til framfærslu?
     2.      Telur ráðherra að setja eigi opinber viðmið eða lög um lágmarksframfærslu?


    Eins og fram kemur á vef Útlendingastofnunar þarf útlendingur sem sækir um dvalarleyfi að sýna fram á að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann sækir um að fá að dvelja hérlendis. Lágmarksframfærsla er miðuð við útgefinn framfærslustuðul sveitarfélaganna sem nú er 125.540 kr. Reglur Útlendingastofnunar um trygga framfærslu miðuðust við að tekjur að frádregnum sköttum væru ekki lægri en fyrrgreindur framfærslustuðull. Í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar í lok nýliðins árs þar sem bent var á að með því að miða framfærslu við tekjur eftir skatta væri mögulega verið að gera ríkari kröfur til útlendinga en íslenskra ríkisborgara ákvað Útlendingastofnun að endurskoða þær reglur sem lagðar hafa verið til grundvallar við mat á getu til framfærslu.
    Það má til sanns vegar færa að framfærslustuðull sveitarfélaganna sé opinbert viðmið um lágmarksframfærslu rétt eins og lágmarksfjárhæð lífeyris sem Tryggingastofnun greiðir ellilífeyris- og örorkubótaþegum. Um tekjur launafólks gilda aðrar reglur því að um þær er samið í kjarasamningum. Því hefur lengi verið haldið fram að lágmarkslaun hér séu of lág og á síðustu missirum hafa kjarasamningar, bæði á almennum og opinberum markaði, einmitt miðað að því að hækka mest laun þeirra tekjulægstu. Hingað til hefur það verið í höndum aðila vinnumarkaðarins að semja sín á milli um kaup og kjör launafólks en lögbinding lágmarkslauna fæli í sér inngrip af hálfu löggjafarvaldsins í málefni sem nú eru á forræði aðila vinnumarkaðarins.