Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 124. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 663  —  124. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um förgun og endurvinnslu sorps.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu mikið fellur til árlega af flokkuðu sorpi, hvað er gert við það og hvernig er förgun þess og/eða endurvinnslu nákvæmlega varið? Svar óskast um eftirfarandi flokka úrgangs: bylgjupappi – fyrirtæki, bylgjupappi – heimili, pappír og umbúðir úr sléttum pappa (svo sem mjólkurfernur og aðrar matarumbúðir), filmuplast – fyrirtæki, föt og klæði, garðaúrgangur, gras, grófur úrgangur, heyrúlluplast, hjólbarðar, húsbúnaður, jarðvegur, kertaafgangar, kjötvinnslu- og sláturúrgangur, kælitæki, ljósaperur, lyf, málmar, net, kaðlar, troll, plastumbúðir – fyrirtæki, plastumbúðir – heimili, raftæki, rafhlöður, sjónvörp og skjáir, skilagjaldsskyldar umbúðir, skrifstofupappír, hvítur afskurður, skór, spilliefni, steinefni, stór raftæki, timbur, trjágreinar, trúnaðargögn og tölvur.

    Umhverfisstofnun safnar saman upplýsingum um meðhöndlun úrgangs og fól ráðuneytið Umhverfisstofnun, í samvinnu við Úrvinnslusjóð, að taka saman yfirlit yfir þá úrgangsflokka sem spurt er um og eru niðurstöður þeirrar samantektar settar fram í meðfylgjandi töflu.
    Í töflunni kemur fram heildarmagn flokkaðs sorps fyrir hvern úrgangsflokk sem fyrirspurnin tekur til að svo miklu leyti sem hægt var að greina magnið á einstaka úrgangsflokka. Í töflunni kemur fram hversu stór hluti flokkaðs sorps fór til endurvinnslu, magn sem fór til endurvinnslu, hversu mikið magn fór til annarrar endurnýtingar, þ.m.t. til brennslu með orkunýtingu, og magn sem fór til förgunar, þ.m.t. til urðunar. Gögnin eru fyrir árið 2007, sem eru þau nýjustu sem liggja fyrir yfir heilt ár.

Úrgangsflokkar Heildarmagn [tonn] Endurvinnsla Önnur endurnýting Förgun
Bylgjupappi frá fyrirtækjum 4.962 4.729 233 0
Bylgjupappi frá heimilum 1.662 1.495 167 0
Pappír (þ.m.t. skrifstofupappír, afskurður,     trúnaðargögn og dagblöð) 20.691 20.027 0 664
Umbúðir úr sléttum pappa 1.726 830 896 0
Filmuplast frá fyrirtækjum 733 576 157 0
Filmuplast frá heimilum 409 81 328 0
Fatnaður og skór* 1.270 0 0 0
Garða- og garðyrkjuúrgangur (þ.m.t. gras     og trjágreinar) 10.051 2.028 0 8.023
Grófur úrgangur (rúmfrekur úrgangur) 5.368 0 0 5.368
Heyrúlluplast** 1.481 927 551 3
Hjólbarðar 6.489 3.472 2.463 554
Jarðvegur og steinefni (þ.m.t. mengaður     jarðvegur) 37.383 0 21.786 15.597
Sláturúrgangur 19.000 7.712 298 10.990
Raftæki (þ.m.t. kælitæki, sjónvörp og skjáir,     tölvur, stór raftæki og ljósaperur) 3.514 3.514 0 0
Málmar og ökutæki 53.361 53.283 0 78
Veiðarfæri (þ.m.t. net, kaðlar og troll) 1.100 473 4 623
Plastumbúðir frá fyrirtækjum 114 17 97 0
Plastumbúðir frá heimilum 327 4 323 0
Skilagjaldsskyldar umbúðir 7.502 2.963 4.539 0
Timbur 43.249 27.569 1.113 9.567
Rafhlöður 38 0 0 38
Önnur spilliefni (þ.m.t. lyf) 10.193 9.601 404 188
Heildarmagn 230.623 139.301 33.359 51.693
*    Fór til endurnotkunar hjá RKÍ.
**    Gögn fyrir árið 2008. Árið 2007 kom nokkuð mikið uppsafnað magn til urðunar og því gefa gögn fyrir það ár ekki rétta mynd af hefðbundinni stærð úrgangsflokksins.

    Umhverfisstofnun hefur ekki upplýsingar um magn lyfjaúrgangs sem til fellur en sum lyf teljast spilliefni og eru talin með þeim flokki í töflunni. Stofnunin hefur heldur ekki upplýsingar um magn húsbúnaðar en í ársskýrslu SORPU bs. má finna að árið 2007 var tekið á móti 1.242 tonnum af úrgangi sem síðan var seldur í Góða hirðinum. Telst það endurnotkun úrgangs. Í sömu skýrslu kemur fram að SORPA bs. tók á móti 0,35 tonnum af kertaafgöngum árið 2007.