Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 394. máls.

Þskj. 702  —  394. mál.





Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 75/2007, um opinberan stuðning
við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun .

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Í stjórn Tækniþróunarsjóðs sitja sex menn sem iðnaðarráðherra skipar til tveggja ára, þ.m.t. eru formaður og varaformaður. Þeim sem eru skipaðir er einungis heimilt að sitja tvö tímabil í senn. Tveir þeirra skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn samkvæmt tilnefningu tækninefndar Vísinda- og tækniráðs, einn samkvæmt tilnefningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, einn samkvæmt tilnefningu Samtaka iðnaðarins, en ráðherra skipar einn án tilnefningar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Tækniþróunarsjóður starfar samkvæmt lögum nr. 75/2007, um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Tækniþróunarsjóður hefur það hlutverk að fjalla um nýjungar sem eiga að stuðla að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Af þeim ástæðum er mikilvægt að í stjórn sjóðsins sitji fólk með margs konar reynslu til að tryggja stöðuga endurnýjun og nýjar hugmyndir. Með slíku fyrirkomulagi er starfsemi sjóðsins haldið í takt við þróun nútímans og fyrirsjáanlegrar framtíðar.
     Í 12. gr. núgildandi laga nr. 75/2007 er gert ráð fyrir að iðnaðarráðherra skipi sjö menn til setu í stjórn Tækniþróunarsjóðs til þriggja ára í senn. Í frumvarpi þessu er lagt til að ráðherra skipi menn til tveggja ára og að stjórnarmönnum verði einungis heimilt að sitja tvö tímabil í senn. Einnig kemur nú fram með skýrum hætti að iðnaðarráðherra skipi formann og varaformann. Verður að telja að framangreint fyrirkomulag tryggi með bestum hætti stöðuga endurnýjun og nýjar hugmyndir hjá sjóðnum. Í ljósi þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti voru sameinuð árið 2007 er enn fremur lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipi nú einn fulltrúa í stað tveggja áður.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 75/2007, um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

    Með frumvarpinu er lagt til að iðnaðarráðherra skipi stjórn Tækniþróunarsjóðs til tveggja ára í senn en í gildandi lögum er stjórnin skipuð til þriggja ára í senn. Jafnframt er nú kveðið á um það með skýrum hætti að iðnaðarráðherra skipi formann og varaformann. Enn fremur er lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipi einn fulltrúa í stað tveggja áður í ljósi þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti voru sameinuð árið 2008. Þannig verða sex menn í stjórninni í stað sjö samkvæmt gildandi lögum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.