Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 192. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 703  —  192. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um eigendur banka.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hverjir eru eigendur íslensku bankanna, Kaupþings, Landsbanka og Íslandsbanka?

    Í svari þessu er gert ráð fyrir að fyrirspyrjandi eigi við hina svokölluðu nýju banka sem nú heita Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og Landsbankinn (NBI hf.).
    Ríkissjóður stofnaði hlutafélög um hvern hinna þriggja banka í október 2008 með 775 millj. kr. hlutafjárframlagi til hvers þeirra og skuldbindingu um að fullfjármagna bankana á síðari stigum á grundvelli neyðarlaganna. Að loknum samningum við gömlu bankana um uppgjör vegna yfirtekinna eigna og skulda var Arion banki fullfjármagnaður með viðbótarfjárframlagi að fjárhæð 71.225 millj. kr. og Íslandsbanki með 64.225 millj. kr. viðbótarframlagi.
    Hluti af samkomulaginu við gömlu bankana, Glitni hf. og Kaupþing banka hf., var að þeir hefðu kost á að leysa til sín meiri hluta þess hlutafjár sem ríkið lagði til Íslandsbanka hf. og Arion banka hf. Seint á árinu 2009 tóku þeir ákvörðun um að nýta þessa heimild í samningunum og leysa til sín meiri hluta hlutafjár í nýju bönkunum tveimur. Glitnir banki hf. hefur leyst til sín 95% af hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. og Kaupþing banki hf. hefur leyst til sín 87% af hlut ríkisins í Arion banka. Yfirtökurnar voru háðar samþykki Samkeppniseftirlits og Fjármálaeftirlits og hafa báðar eftirlitsstofnanir nú lagt blessun sína yfir þessa gjörninga. Ákvörðuninni var fylgt eftir með sérstakri heimild í lögum nr. 138/2009, um heimild til að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf. Eignarhlutur ríkissjóðs í Íslandsbanka hf. er nú 5% og 13% í Arion banka hf.
    Eitt af skilyrðum Fjárámálaeftirlitsins var að eignarhaldi nýju bankanna væri haldið aðskildu frá gömlu bönkunum þannig að þeim var gert að stofna sérstök eignarhaldsfélög er færu með eignarhlutina í nýju bönkunum. Eignarhaldsfélagið ISB Holding ehf. fer með um 95% hlut í Íslandsbanka hf. en eignarhaldsfélagið Kaupskil ehf. fer með um 87% hlut í Arion banka hf.
    Samningar um uppgjör milli Landsbanka Íslands hf. (LBI) og Landsbankans (NBI hf.) voru undirritaðir 15. desember 2009. Hluti af skuldauppgjöri NBI við LBI fer fram með hlutabréfum þannig að LBI eignast 28.000 millj. kr. hlut í NBI. Heildarhlutafé NBI er ákveðið 150.000 millj. kr. og hefur ríkissjóður því lagt bankanum til 121.225 kr. viðbótarhlutafé, sem er um 81% eignarhlutur. Um 19% verður þá í eigu eignarhaldsfélags sem LBI hefur stofnað í þessu skyni og ber nafnið Landskil ehf.
    Gömlu bankarnir eru þrotabú sem stjórnað er af sérstökum slitastjórnum í samræmi við lög. Slitastjórnirnar hafa m.a. það hlutverk að vernda og hámarka þau verðmæti sem í búunum eru. Eins og með hefðbundin þrotabú má segja að þær þúsundir eða tugþúsundir kröfuhafa sem lýst hafa kröfum í þrotabú hinna föllnu banka séu í raun eigendur búanna. Þegar slitastjórnirnar hafa farið yfir og metið allar þær kröfur sem gerðar hafa verið í búin liggur fyrir hvernig verðmæti búanna skiptist niður á einstaka kröfueigendur.