Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 225. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 795  —  225. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ólafs Þórs Gunnarssonar um breyttar endurgreiðslur lyfjakostnaðar.

     1.      Hversu miklir fjármunir hafa sparast við þær breytingar sem gerðar hafa verið á endurgreiðslum lyfjakostnaðar á árinu 2009 miðað við 2008?
    
Á síðasta ári hefur verið gripið til ýmissa aðgerða til að mæta kröfum fjárlaga um lægri lyfjakostnað sjúkratrygginga. Vegna þeirra aðgerða lækkaði lyfjakostnaður Sjúkratrygginga um tæplega 1,6 milljarða kr. frá því sem annars hefði orðið. Þær aðgerðir sem gripið var til og varða endurgreiðslu lyfjakostnaðar eru eftirfarandi: Með nýrri reglugerð um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga við kaup á lyfjum sem tók gildi 1. mars 2009 var gerð breyting í greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga í tveimur flokkum maga- og blóðfitulækkandi lyfja. Breytingin sem kölluð hefur verið „verðlagning eftir virði“ (e. Value Based Pricing) fólst í því að almennri greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga í umræddum flokkum lyfja var beint til hagkvæmustu lyfjanna en greiðsluþátttöku vegna dýrustu lyfjanna var takmörkuð við lyfjaskírteini sem gefin eru út að fenginni rökstuddri umsókn læknis. Við breytinguna varð lækkun lyfjaútgjalda hjá Sjúkratryggingum 700–800 millj. kr. vegna greiðsluþátttöku í þessum tveimur lyfjaflokkum. 1. október sl. var gerð svipuð breyting á greiðsluþátttöku ákveðinna flokka blóðþrýstingslyfja (ACE hemla og Angítensín II blokka). Sú breyting leiddi til um 50–60 millj. kr. lækkunar á lyfjaútgjöldum Sjúkratrygginga á síðustu þremur mánuðum ársins. Síðasta breytingin af þessum toga á árinu 2009 var gerð 1. nóvember sl. og varðar lyf sem hafa áhrif á beinabyggingu og beinmyndun og var gert ráð fyrir að sú breyting leiddi til um 14 millj. kr. lækkunar á lyfjaútgjöldum Sjúkratrygginga það sem eftir lifði ársins.
    Með reglugerðinni um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga við kaup á lyfjum sem tók gildi 1. mars 2009 varð hækkun á hámarksgreiðslu og lágmarksgreiðslu, svonefndu „gólfi“ og „þaki“ sjúklinga um 10%. Til mótvægis varð lækkun á greiðslum barna og atvinnulausra þannig að börn undir 18 ára aldri og atvinnulausir greiða nú sama verð og lífeyrisþegar fyrir lyf sín. Reiknað var með að þessar breytingar leiddu samtals til 300 millj. kr. lægri útgjalda hjá Sjúkratryggingum.
    Auk framangreindra breytinga er varða endurgreiðslur lyfjakostnaðar hjá Sjúkratryggingum má nefna að lyfjagreiðslunefnd endurskoðaði á síðasta ári allt lyfjaverð í landinu í þremur áföngum, 1. júlí, 1. ágúst og 1. september þar sem Finnlandi hefur verið bætt við viðmiðunarlönd. Þessi endurskoðun leiddi á árinu til 200 millj. kr. lækkunar lyfjaútgjalda Sjúkratrygginga. Við þetta má bæta að breyting var gerð á smásöluálagningu lyfja 1. janúar 2009 sem fólst í því að prósentuálagning var lækkuð, en fast afgreiðslugjald hækkað á hverja lyfjaávísun. Þessi breyting lækkaði lyfjakostnað um 210 millj. kr. miðað við notkun 2008 og verð í janúar 2009. Lækkunin skiptist þannig að um 150 millj. kr. sparast hjá Sjúkratryggingum og afgangur hjá sjúklingum, eða um 60 millj. kr.

     2.      Hversu mikið er gert ráð fyrir að sparist árið 2010 miðað við 2008?
    
Fjárlög gera ráð fyrir að sparnaðurinn á árinu 2010 verði um einn milljarður króna. Taka verður fram að lyfjakostnaður gæti orðið meiri árið 2010 en árið 2009, þ.e. lyfjaútgjöld gætu aukist, einkum vegna gengisbreytinga. Þær aðgerðir sem nefndar eru í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar leiða hins vegar áfram til raunlækkunur útgjalda.

     3.      Eru áform uppi um að breyta niðurgreiðslum fleiri lyfja eða lyfjaflokka?
    
Sambærilegar breytingar og nefndar eru í svari við 1. lið á endurgreiðslum í flokki lyfja gegn teppusjúkdómum í öndunarvegi tóku gildi 1. janúar sl. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um aðra lyfjaflokka en ráðuneytið hefur þó þegar hafið athugun á möguleikum á svipaðri lækkun útgjalda vegna tauga- og geðlyfja og hefur sent út til umsagnar tillögur er varða breytingar á niðurgreiðslum þunglyndislyfja sem stefnt er að taki gildi 1. maí nk.

     4.      Hefur ráðuneytið orðið vart við athugasemdir frá sjúklingum eða sjúklingahópum vegna þessara breytinga og þá í hve miklum mæli?
    
Með bréfi dags.12. október sl. óskaði ráðuneytið eftir mati landlæknis á áhrifum breyttrar greiðsluþátttöku í ákveðnum lyfjum á þessu ári. Í svari landlæknis, dags. 1. nóvember sl. er m.a. eftirfarandi tekið fram:
    „Skemmst er frá að segja að breytingarnar hafa tekist með afbrigðum vel. Allir þeir sem komið hafa að þessum breytingum hafa staðið vel að verki. Sparnaður nemur hundruðum milljóna króna á ársgrundvelli. Undirritaður þekkir engin dæmi þess að heilsufar einstaklinga hafi skaðast við þessar breytingar. Yfirlæknir bráðamóttöku Landspítala, Guðmundur Þorgeirsson, sérfræðingur í hjartasjúkdómum, segir engan hafa komið inn á bráðamóttöku með einkenni sem rekja mætti til breytingarinnar. Heilsugæslulæknar sem undirritaður hefur haft samband við hafa sömu sögu að segja. Eina neikvæða við breytingarnar er hinn stutti fyrirvari sem var fyrir fyrstu breytingu, en allir gerðu sér grein fyrir því að mikilvægt var að ná niður kostnaði sem allra fyrst vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Talsvert mæddi á apótekurum á þeim tíma, en lyfjafræðingar og annað starfsfólk apótekanna lagði sig einnig fram við að breytingin gengi sem best fyrir sig.“

     5.      Hefur ráðuneytið orðið vart við athugasemdir frá heilbrigðisstarfsmönnum vegna breytinganna og þá frá hvaða hópum heilbrigðisstarfsmanna og í hve miklum mæli?
    
Eins og fram kemur í fyrrgreindu bréfi landlæknis frá 1. nóvember sl. hafði hann þá ekki fengið athugasemdir frá heilbrigðisstarfsmönnum vegna breytinganna. Örfáir læknar og sjúklingar hafa þó haft samband við ráðuneytið og Sjúkratryggingar og lýst yfir óánægju með breytingarnar og áhyggjum yfir framkvæmdinni og útgáfu lyfjaskírteina. Almennt hafa hins vegar þeir læknar sem ráðuneytið og Sjúkratrygginar hafa verið í samráði og sambandi við verið jákvæðir gagnvart þessum breytingum þrátt fyrir aukið álag sem þeim hefur fylgt. Einnig hafa sjúklingar sýnt skilning þegar skipt hefur verið um lyf hjá þeim vegna þeirra aðstæðna sem ríkja í þjóðfélaginu enda verið tryggt að sjúklingur fái rétt lyf þótt krafist sé rökstuðnings fyrir niðurgreiðslu dýrustu lyfjanna með lyfjaskírteini. Landlæknir hefur áfram fylgst með áhrifum þessara breytinga og ekki orðið var við teljandi vandkvæði við framkvæmd þeirra.