Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 531. máls.

Þskj. 920  —  531. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1.      gr.

    Við 2. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Gjaldskyldum aðilum skv. 1. mgr. 3. gr. er óheimilt að selja litaða olíu í sjálfsafgreiðsludælum nema slík viðskipti eigi sér stað með sérstöku viðskiptakorti gjaldskylds aðila.

2.      gr.

    Í stað orðsins ,,bifreiðum“ í 6. mgr. 13. gr. laganna kemur: ökutækjum.

3.      gr.

    Í stað fjárhæðanna „200.000 kr.“, „500.000 kr.“, „750.000 kr.“, „1.000.000 kr.“ og „1.250.000 kr.“ í 5. mgr. 19. gr. laganna kemur: 300.000 kr., 750.000 kr., 1.125.000 kr., 1.500.000 kr., og: 1.875.000 kr.

4.      gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2010, nema ákvæði 2. gr. sem öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um olíugjald.
    Í fyrsta lagi er lagt til að söluaðilum olíu verði óheimilt að selja litaða olíu í sjálfsafgreiðsludælum nema viðskiptavinur greiði fyrir eldsneytið með viðskiptakorti söluaðilans. Þessi breyting er lögð til vegna þess að grunur leikur á að litaðri olíu sé í miklum mæli dælt á einkabíla á sjálfsafgreiðslustöðum. Talið er að tap ríkissjóðs vegna þessa nemi u.þ.b. 160 millj. kr. á ári.
    Önnur tillagan snýr að lagfæringum á lögum til að taka af allan vafa um gjaldskyldu eftirvagna vegna kílómetragjalds.
    Loks er lagt til að sektir vegna misnotkunar á litaðri olíu verði hækkaðar, m.a. til að viðhalda varnaðaráhrifum þeirra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að aðilum sem gjaldskyldir eru vegna olíugjalds verði eingöngu heimilt að selja litaða olíu í sjálfsafgreiðslu ef greitt er með sérstöku viðskiptakorti gjaldskylda aðilans. Aðgengi að gjaldfrjálsri litaðri olíu er of mikið en á eldsneytisstöðvum er lituð olía nær undantekningarlaust seld í sjálfsafgreiðslu. Á árinu 2008 gerði ríkisskattstjóri athuganir á öllum sjálfsafgreiðslustöðvum í eigu olíufélaganna á landinu. Um var að ræða tugi þúsunda færslna. Tæplega 74% þeirra reyndust vera vegna magns sem var innan við 80 lítrar. Mjög algeng tala var 40–60 lítrar í hvert skipti, magn sem vekur upp grunsemdir um að verið sé að dæla litaðri olíu á einkabíla en ekki stórar vinnuvélar. Jafnframt var tímasetning viðskiptanna oft á óhefðbundnum tímum. Séu þessar tölur uppreiknaðar miðað við fjárhæð olíugjalds í dag má ætla að ríkissjóður verði af um 160 millj. kr. árlega vegna misnotkunar á litaðri olíu. Verði tillagan að lögum verður ekki hægt að kaupa litaða olíu í sjálfsafgreiðslu með almennum viðskiptakortum, debet- eða kreditkortum eða peningum. Einungis verður því hægt að kaupa eldsneyti sem þetta með viðskiptakorti eða dælulykli þar sem opna þarf sérstaklega fyrir þessa tegund viðskipta. Lítið sem ekkert óhagræði hlýst af þessu, hvorki fyrir kaupendur eldsneytis né olíufélögin, enda er búnaðurinn þegar fyrir hendi. Þá má geta þess að eftirlit ríkisskattstjóra með misnotkun verður mun auðveldara.

Um 2. gr.

    Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laganna skal annars vegar greiða sérstakt kílómetragjald af bifreiðum tiltekinnar tegundar og hins vegar eftirvögnum. Gjaldskylda vegna bifreiða og eftirvagna er því ótvíræð samkvæmt ákvæðinu. Í 6. mgr. 13. gr. er svo að finna gjaldskrá sérstaks kílómetragjalds en þau mistök virðast hafa orðið við lagasetningu að gjaldskráin nær eingöngu til bifreiða en ekki eftirvagna. Breytingatillögu þeirri sem hér er lögð fram er ætlað að bæta úr þessu. Gert er ráð fyrir því að ákvæði þetta öðlist þegar gildi en eðli málsins samkvæmt komi ekki til framkvæmda fyrr en á seinna gjaldtímabili ársins 2010.

Um 3. gr.

    Lagt er til að sektarfjárhæðir verði hækkaðar um 50% en sektir hafa í mörgum tilvikum ekki þótt hafa haft nægileg varnaðaráhrif. Þá þykir það eitt og sér vera næg ástæða til endurskoðunar að sektirnar fylgja ekki breytingum á olíugjaldi.

Um 4. gr.

    Eðlilegt þykir að gefa þeim aðilum sem versla með litaða olíu, hvort sem eru viðskiptavinir eða söluaðilar, svigrúm til þess að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að geta haldið þeim viðskiptum áfram og er því lagt til lögin taki gildi 1. júlí 2010. Þó er lagt til að ákvæði 2. gr. taki gildi þegar í stað.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 87/2004,
um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er í fyrsta lagi lagt til að söluaðilum olíu verði óheimilt að selja litaða olíu í sjálfsafgreiðsludælum nema viðskiptavinur greiði fyrir eldsneytið með viðskiptakorti söluaðilans. Þessi breyting er lögð til vegna þess að grunur leikur á að litaðri olíu sé í stórum mæli dælt á einkabíla á sjálfsafgreiðslustöðum. Talið er að tap ríkissjóðs vegna þessa nemi u.þ.b. 160 m.kr. á ári. Í öðru lagi er lagt til að leiðrétt verði mistök í lagasetningu sem virðast hafa orðið til þess að skapa vafa um gjaldskyldu eftirvagna vegna kílómetragjalds. Í þriðja lagi er lagt til að sektir vegna misnotkunar á litaðri olíu verði hækkaðar um 50%, m.a. til að viðhalda varnaðaráhrifum sektanna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má ætla að tekjur ríkissjóðs af olíugjaldi verði meiri eins og áður segir en ekki verður séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.