Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 442. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 983  —  442. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um skilgreind starfsréttindi leiðsögumanna.

     1.      Er unnið að því að veita fagmenntuðum leiðsögumönnum skilgreind starfsréttindi?
    Iðnaðarráðuneytinu barst erindi Félags leiðsögumanna á síðasta ári þar sem þess var farið á leit við iðnaðarráðherra að hann legði fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála.
    Tillaga félagsins var eftirfarandi:
              „Rétt til að starfa hér á landi sem „leiðsögumaður ferðamanna“ hefur sá einn, er lokið hefur tilskildu námi hér á landi og hlotið starfsleyfi Ferðamálastofu.
              Ferðamálastofa getur einnig, að fenginni umsögn þar að lútandi, veitt þeim sem lokið hafa samsvarandi námi erlendis viðurkenningu á starfsréttindum sínum á Íslandi, enda framvísi þeir viðeigandi skilríkjum og sýni gögn sem staðfesta þekkingu þeirra á landi og þjóð. Það er þó gert að skilyrði að leiðsögumenn búsettir hér á landi njóti samsvarandi réttinda í heimalandi umsækjanda.
              Þeir sem lokið hafa sértækri þjálfun mega starfa sem „leiðsöguliðar“, þ.e. aðstoðarmenn við leiðsögn eða leiðsögumenn ferðamanna innan þess sviðs sem hin sértæka þekking þeirra nær til. Skal nánar kveðið á um þetta í reglum sem Ferðamálastofa setur, en hún staðfestir réttindi leiðsöguliða með leyfisútgáfu.“
    Í greinargerð með erindinu kom m.a. fram að löggilding starfsheitisins eigi sér samsvörun í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Einnig að það „virðist fara vaxandi að hingað til lands komi ferðahópar með erlenda leiðsögumenn. Hefur það verið látið afskiptalaust, en á sama tíma hafa íslenskir leiðsögumenn ekki fengið að leiðsegja íslenskum ferðamönnum í nokkrum Evrópulöndum“.
    Ráðuneytið taldi nauðsynlegt að afla frekari upplýsinga um það hvernig starfsréttindum leiðsögumanna væri háttað í öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Því var haldinn fundur í iðnaðarráðuneytinu með forsvarsmönnum Félags leiðsögumanna og var niðurstaða þess fundar að þeir, f.h. félagsins, mundu útvega gögn sem sýndu fram á ofangreint.
    Við vinnslu þessa svars var haft samband við talsmann leiðsögumanna og spurst fyrir um gögnin en hann upplýsti að þeir hefðu ekki haft erindi sem erfiði við öflun þeirra og því farið formlega fram á það við Evrópusamtök leiðsögumanna að gerð verði nákvæm samantekt um réttindamál leiðsögumanna í Evrópu og að þar birtist upplýsingar sem eru staðfestar af yfirvöldum í viðkomandi löndum. Til að þoka málinu frekar hefur iðnaðarráðuneytið orðið við þeirri beiðni talsmanns leiðsögumanna að halda fund með formanni Evrópusamtaka leiðsögumanna er hann verður hér á ferð í næsta mánuði.
    Í erindi Félags leiðsögumanna er einnig vísað til þess að „löggilding sérstaks starfsheitis fyrir félagsmenn eigi sér innlenda fyrirmynd í lögum um starfsheiti og starfsréttindi ýmissa stétta“.
    Varðandi tilvísun til annarra starfsstétta skal bent á að löggilding starfsheitis og einkaréttur til starfa fara ekki alltaf saman. Lög um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, nr. 8/1996, eru á málefnasviði iðnaðarráðuneytisins. Löggilding þeirra sérfræðinga sem þar falla undir felur í sér heimild til að nota viðkomandi starfsheiti en ekki einkarétt til ákveðinna starfa. Öðru máli gegnir um þá iðnaðarmenn sem lokið hafa tilskildu námi og fengið sveinsbréf eða meistarabréf á grundvelli iðnaðarlaga, nr. 42/1978. Í slíkum réttindum felast bæði einkaréttur til að nota starfsheiti og réttindi til iðnaðarstarfa.

     2.      Telur ráðherra æskilegt að veita slík starfsréttindi til að auka fagmennsku í ferðaþjónustunni?
    Um áratugaskeið hefur það verið stefna hjá íslenskum ferðaskrifstofum að velja menntaða leiðsögumenn fram yfir ómenntaða. Þó geta komið upp tilvik þar sem nægjanlega margir menntaðir leiðsögumenn eru ekki tiltækir en það er helst þegar stórir hópar eru á ferð í tengslum við ráðstefnur, hvataferðir og farþega skemmtiferðaskipa.
    Til að auka enn frekar fagmennsku og öryggi í ferðaþjónustu mælir ráðherra á vorþingi 2010 fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skipan ferðamála, nr. 73/2005, um breytt skilyrði til leyfisveitinga þannig að framvegis verði skylt að leggja fram sönnun á ábyrgðartryggingu og að umsækjandi hafi nægilega þekkingu og reynslu á því sviði sem starfsemi hans lýtur að. Enn fremur er ráðherra veitt heimild til að setja í reglugerð frekari ákvæði um leyfisveitingar en nú er.
    Ráðherra mun áfram sem hingað til taka til skoðunar allar hugmyndir um aukna fagmennsku í ferðaþjónustu enda rúmist þær innan EES-reglna og sé um þær sátt við hagsmunasamtök í ferðaþjónustu.