Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 412. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 986  —  412. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um sértæka skuldaaðlögun.

     1.      Hversu margir einstaklingar og fyrirtæki hafa sótt um sértæka skuldaaðlögun í samræmi við lög nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja í kjölfar banka- og gjaldeyrishrunsins, og hversu margir hafa fengið slíka skuldaaðlögun, sundurliðað eftir fjármálafyrirtækjum?
    Ekki er hægt að segja til um hversu margir einstaklingar sækja um sértæka skuldaaðlögun þar sem ekki er sótt beint um þetta úrræði. Framkvæmdin er sú að einstaklingur í greiðsluerfiðleikum fer í greiðsluerfiðleikamat og komi í ljós að önnur vægari úrræði dugi ekki til að leysa úr greiðsluvanda hans er kannað hvort samkomulag milli hans og kröfuhafa um sértæka skuldaaðlögun geti leyst vandann.
    Fyrirtæki geta ekki sótt um sértæka skuldaaðlögun, sbr. 2. gr. laga nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Fjármálafyrirtæki hafa sett sér sameiginlegar verklagsreglur um skuldavanda fyrirtækja, sbr. 3. gr. laganna.
    Samkvæmt upplýsingum frá fimm stærstu lánveitendum á Íslandi höfðu 1. mars sl. alls 277 heimili (einstaklingar og fjölskyldur) nýtt sér sértæka skuldaaðlögun.
    Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum fjármálafyrirtækja er ekki hægt að sundurliða upplýsingar um sértæka skuldaaðlögun eftir fyrirtækjum vegna samkeppnissjónarmiða.

     2.      Hve margir hafa ekki fengið sértæka skuldaaðlögun og hvers vegna?
    Ekki er hægt að segja til um fjölda einstaklinga sem hafa ekki fengið sértæka skuldaaðlögun vegna þess að þeir sækja ekki beint um úrræðið, sbr. svar við 1. tölul. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að úrræðinu er ekki beitt en hér eru nefnd þrjú dæmi:
     1.      Ef vægari úrræði duga til að leysa greiðsluvandann er þeim beitt.
     2.      Úrræðið miðast við að einstaklingur hafi lágmarksgreiðslugetu, þ.e. gert er ráð fyrir því að hann hafi atvinnu og hafi tekjur til að standa undir talsverðri greiðslubyrði. Ekki verður lengra gengið í afskriftum en niður í 100% veðsetningu þar sem skattareglur kveða á um að myndi afskrift eigið fé þá myndist skattskylda þess einstaklings sem fær skuld afskrifaða. Ef greiðsluvandinn er það mikill að sértæk skuldaaðlögun dugir ekki einstaklingnum er honum vísað til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem metur þá hvort hann þurfi greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 50/2009.
     3.      Ef einstaklingur hefur orðið fyrir tímabundnum tekjumissi vegna veikinda eða er í námi svo dæmi sé tekið er að öllu jöfnu öðrum tímabundnum úrræðum beitt svo sem frystingu lána. Þegar einstaklingur hefur fengið atvinnu að nýju og ef greiðsluerfiðleikar eru enn til staðar er skoðað hvort sértæk skuldaaðlögun er tæk lausn á vandanum.
     4.      Ef einstaklingur skuldar mörgum kröfuhöfum sem standa utan samkomulagsins eru líkur á að ekki náist samkomulag um sértæka skuldaaðlögun. Er viðkomandi þá vísað til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem metur þá hvort hann þurfi greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 50/2009.