Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 413. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1011  —  413. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Ragnheiðar E. Árnadóttur um lækkun fóðurkostnaðar í loðdýrarækt.

     1.      Hversu miklum fjármunum hefur verið varið til lækkunar fóðurkostnaðar í loðdýrarækt frá árinu 2004, sundurliðað eftir árum?
    Á árinu 2004 var engum fjármunum varið til lækkunar fóðurkostnaðar í loðdýrarækt, á árinu 2005 var 60.693.865 kr. varið til þess, 24.037.500 kr. árið 2006, 4.200.000 kr. árið 2007, 11.695.008 kr. á árinu 2008, 10.000.000 kr. á árinu 2009 og 15.892.616 kr. árið 2010.

     2.      Eftir hvaða meginreglum fór þessi úthlutun fram? Hefur jafnræðis milli fóðurstöðva verið gætt við úthlutun fjárins?
    Þegar litið er til sögu loðdýraræktarinnar á Íslandi nú síðustu áratugina liggur fyrir að afkoman í greininni hefur verið mjög hverful og hefur ríkið komið að stuðningi við greinina með ýmsum hætti. Framan af voru niðurgreiðslur á fóðri hvað viðamestu aðgerðirnar, en staðreyndin er sú að þó að þær hafi hjálpað í upphafi leiks, snérust þær upp í andhverfu sína hvað það varðar að stórlega var dregið úr hvataáhrifum þess að fóðurstöðvar hagræddu í rekstri sínum. Upp úr aldamótunum 2000 þótti einsýnt að leið sú er farin hafði verið í þessum málum þyrfti endurskoðunar við og á árinu 2004 var sett á laggirnar nefnd með svohljóðandi skipunarbréfi, dags. 28. október:
    „Í áliti nefndar um bráðan rekstarvanda loðdýraræktarinnar frá maí 2004, eru settar fram hugmyndir um aðgerðir til þess að verð á loðdýarfóðri hér á landi lækki og verði hliðstætt því sem gerist í samkeppnislöndunum.
    Ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að beita sér fyrir því að á næstu fimm árum verði varið samtals 116 milljónum króna til slíkra aðgerða með hliðsjón af fyrrnefndu nefndaráliti og í samráði við búgreinina, þannig að þeir fjármunir sem til ráðstöfunar eru nýtist sem best fyrir atvinnugreinina í heild.“
    Téð nefnd úthlutaði fjármunum á stafstíma sínum, svo sem fram kemur í svari við 1. spurningu, og höfðu þær úthlutanir að inntaki að hagræða í rekstri fóðurstöðvanna og ná fram raunlækkun á fóðurverði.
    Á fundi sínum 10. apríl 2007 ákvað þáverandi ríkisstjórn að verkefnið yrði framlengt til ársins 2011 með 22 millj. kr. árlegu framlagi á fjárlögum árin 2009, 2010 og 2011 og var ný nefnd skipuð til þess verks með bréfi dags. 12. desember 2007. Í skipunarbréfi téðrar nefndar var tekið fram að heimilt yrði að nota allt að 30 millj. kr. til úreldingar á aðstöðu til fóðurframleiðslu hjá þeim aðilum sem það kysu. „Að öðru leyti verði fjármagnið nýtt til áframhaldandi hagræðingar í fóðurframleiðslu og til verkefna sem lúta að auknum gæðum fóðurs og bættri fóðurnýtingu og fóðrun.“
    Með vísan til tilvitnaðra orða hér að framan liggur fyrir meginlínan í úthlutunarreglunni, sem er að framleiðsla fóðurstöðva hér á landi verði samkeppnishæf í verði og gæðum við sambærilega framleiðslu erlendis og þannig verði lagður traustari rekstargrunnur að loðdýraræktinni og möguleikar skapist til eflingar hennar. Í þessu felst ekki jafnræðiskrafa um jöfnun greiðslna á kg fóðurs eða þess háttar til hinna einstöku fóðurstöðva, eins og um fóðurniðurgreiðslur væri að ræða, heldur gildir jafnræðisreglan um einstök hagræðingarverkefni sem sótt er um fé til. Þetta er tekið fram hér vegna síðari liðar 2. spurningar.

     3.      Hefur ráðuneytið látið fara fram endurskoðun á úthlutunarreglunum?
    Ráðuneytið hefur kappkostað í þessum verkefnum öllum að eiga sem best samstarf við greinina sjálfa, heildarsamtök hennar (SÍL) og einstaka loðdýrabændur og einnig leiðbeiningarþjónustu greinarinnar. Fyrri úthlutanirnar beindust til stærri fóðurstöðvanna einfaldlega vegna þess að framkvæmdavilji til hagræðingaverkefna var þar meiri en úthlutanir á árinu 2008 höfðu að inntaki að ýta undir hagræðingaverkefni hjá smáum stöðvum (fóðureldhúsum) í eigu einstakra loðdýrabænda. Á árinu 2009 var gengið til samninga við Samband íslenskra loðdýraræktenda og gerður samningur um að áfram yrði unnið að hagræðingu í fóðurgerð sem tryggði samkeppnishæft fóðurverð, jafnframt því sem fóðurgæði og góð fóðrun yrðu tryggð. „Sérstök áhersla verði lögð á aukna nýtingu á lífrænum úrgangi frá sláturhúsum og fiskvinnslum og með því stuðlað að aukinni verðmætamyndun og um leið umhverfisvernd.“

     4.      Hverjar eru eftirstöðvar upphaflegs fjár?
    Fjárveitingar til þessa verkefnis hafa verið skertar umtalsvert vegna efnahagsástandsins og nema eftirstöðvar upphaflegs fjár sömu upphæð og áætluð greiðsla þessa árs, sjá svar við 1. spurningu.

     5.      Er áformað að verja frekari fjármunum til þessa verkefnis?
    Samkvæmt gildandi fjárlögum er ekki gert ráð fyrir því að verja frekari fjármunum til þessa verkefnis.