Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 619. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1088  —  619. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um ákæru á hendur níu mótmælendum fyrir árás á Alþingi.

Flm.: Björn Valur Gíslason.



    Alþingi ályktar að fela skrifstofustjóra Alþingis að fara þess á leit við ríkissaksóknara að ákæra á hendur níu mótmælendum fyrir að hafa 8. desember 2008 rofið friðhelgi og fundarfrið Alþingis, sbr. 1. mgr. 100. gr. og 1. og 2. mgr. 122. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, verði dregin til baka og einnig ákæra um húsbrot, sbr. 231. gr. sömu laga.

Greinargerð.


    Almenn hegningarlög eru mikill bálkur með á þriðja hundrað greinum. Eins og gengur eru greinar þessar misvirkar, sumar eru í daglegri notkun en aðrar liggja óhreyfðar svo áratugum skiptir. Í þeim hópi eru m.a. ýmis ákvæði X., XI., XII. og XIII. kafla laganna, sem snúa að landráðum, brotum gegn stjórnskipan ríkisins, brotum gegn valdstjórninni og brotum á almannafriði og allsherjarreglu.
    Reynslan sýnir að þá sjaldan að gripið er til sumra slíkra lagaákvæða orkar beiting þeirra undantekningarlítið tvímælis og ýtir undir hugmyndir um að hún sé sprottin af pólitískum toga eða öðrum annarlegum hvötum fremur en að einungis sé horft til efnisatriðia máls.
    Dæmi um þetta eru ákvæði sem banna guðlast. Þrátt fyrir að slík ákvæði hafi um aldir verið að finna í íslenskum lögum var einungis tvisvar dæmt fyrir guðlast á tuttugustu öld og í báðum tilvikum reyndist sá sakfelldi vera yfirlýstur pólitískur andstæðingur ríkjandi stjórnvalda. Annars vegar var Brynjólfur Bjarnason dæmdur fyrir að guðlasta í ritdómi um Bréf til Láru eftir rithöfundinn Þórberg Þórðarson. Hins vegar hlaut Úlfar Þormóðsson dóm fyrir skrif í skoptímaritið Spegilinn.
    Ætli öllum sanngjörnum mönnum beri ekki saman um að þessir tveir dómar séu smánarblettir á íslensku réttarfari. Þar fór ákæruvaldið offari gegn einstaklingum og knúði í gegn dóma sem voru ekki í nokkru samhengi við tilefni eða meðferð ótal sambærilegra mála.
    Í máli nímenninganna sem nú eru kærðir fyrir að ráðast gegn Alþingi hefur t.d. verið bent á að allmörg dæmi séu um að efnt hafi verið til mótmælaaðgerða í og við þingpalla án þess að slíkum aðgerðum hafi fylgt sérstök eftirmál. Má þar nefna mótmæli ýmissa hagsmunasamtaka, svo sem verkalýðs- og stúdentahreyfinga, þar sem störf þingsins voru trufluð. Einn núverandi ráðherra tók meira að segja þátt í slíkum aðgerðum á háskólaárum sínum.
    Þegar EES-samningurinn var formlega samþykktur á Alþingi mættu fulltrúar ungliðahreyfingar eins stjórnmálaflokksins meira að segja á þingpalla með eftirlíkingar af hríðskotabyssum og lýstu því yfir að um valdatöku væri að ræða án þess að nokkrum kæmi til hugar að kæra hópinn fyrir árás á þingið. Misræmi sem þetta er til þess fallið að grafa undan tiltrú á réttarkerfinu.
    Annað dæmi um ákvæði almennra hegningarlaga sem óhönduglega hefur tekist til við að beita er 95. gr. Þar segir:
    „Hver, sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Nú eru sakir miklar og varðar brot þá fangelsi allt að 6 árum.
    Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem smánar opinberlega eða hefur annars í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum, eða ærumeiðandi aðdróttanir við aðra starfsmenn erlends ríkis, sem staddir eru hér á landi.“
    Klausa þessi hefur í munni margra hlotið hið óvirðulega heiti „nasistaákvæðið“, sem vísar í notkun þess í íslensku réttarfari. Á tuttugustu öld var því fyrst beitt í kjölfar atburða sumarið 1933, þegar hópur manna á Siglufirði stormaði að bústað vararæðismanns Þjóðverja og skar þar niður merki þýska nasistaflokksins. Mennirnir rifu fánann í tætlur, hentu honum í poll og stöppuðu á honum. Fimm forsprakkar voru handteknir. Einn þeirra, Gunnar Jóhannsson, varð síðar alþingismaður. Annar þeirra var Steinn Steinarr skáld.
    Með verknaði sínum vildu mennirnir mótmæla kúgun þýskra nasista og dómur sögunnar fer mildum höndum um þá. Aukaréttur Siglufjarðar var hins vegar ekki eins mjúkhentur. Þrír mannanna, þar á meðal Steinn, voru dæmdir í þriggja mánaða óskilorðsbundið fangelsi, hinir tveir í tveggja mánaða fangelsi. Nokkrum árum síðar hefðu víst fáir orðið til að hallmæla fimmmenningunum, enda höfðu nasistar þá sýnt fleirum sitt rétta andlit þannig að allir sáu hvers kyns var, ekki eingöngu nokkrir kommúnistar á Siglufirði. Þeir voru hins vegar ákærðir eftir IX. kafla almennra hegningarlaga frá árinu 1896 en þar er fjallað um landráð og móðgandi athæfi gagnvart erlendum ríkjum, sendimönnum og þjóðfánum.
    Ári síðar beittu íslenskir dómarar nasistaákvæðinu aftur. Í það sinnið var rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson dæmdur til að greiða 200 kr. sekt fyrir að kalla Adolf Hitler blóðhund og vega þannig að æru hans. Líklega velkjast fáir í vafa um það hvort Þórbergur og fimmmenningarnir frá Siglufirði eða dómarnir yfir þeim hafa staðist betur tímans tönn.
    Í dómsmálinu sem hér um ræðir er kært fyrir árás á Alþingi. Það er ákvæði sem hefur aðeins einu sinni verið virkjað – í kjölfar mótmæla vegna inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið 30. mars 1949. Þann dag kröfðust mótmælendur og verkalýðsfélögin í Reykjavík þess að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu. Til átaka kom við Alþingishúsið og í kjölfarið var hópur manna dæmdur til harðra refsinga á óljósum grundvelli. Menn í hópnum misstu til að mynda kosningarétt og kjörgengi svo árum skipti, auk þess sem margir hlutu fangelsisdóma.
    Dómarnir yfir mótmælendunum 30. mars 1949 voru slæmir að öllu leyti. Þeir voru almennt álitnir pólitískir og gerðu því það eitt að draga úr tiltrú hluta fólks á réttarkerfinu sem hlutlausri stofnun. Þá, líkt og nú, leit enginn mótmælenda svo á að um ræri að ræða árás á þingið – þvert á móti töldu báðir hópar sig vera að verja þingið.