Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 608. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1180  —  608. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um sjúkraflutninga.

     1.      Er unnið að heildarendurskoðun sjúkraflutninga í landinu og ef svo er, hver er aðkoma fag- og stéttarfélags sjúkraflutningamanna að málinu? Hafa fundir verið haldnir og þá hve margir? Er unnið eftir ákveðinni stefnumörkun og ef svo er, hver er hún?
    Í ráðuneytinu er unnið að heildarendurskoðun á skipulagi sjúkraflutninga í landinu. Við stefnumótun er meðal annars höfð til hliðsjónar skýrsla starfshóps um sjúkraflutninga á Íslandi sem lögð var fyrir þáverandi heilbrigðisráðherra í janúar 2008. Mörg af þeim atriðum sem þar komu fram munu nýtast vel við að þróa skipulag sjúkraflutninga en mikilvægt er þó að árétta að skýrslan er ekki stefnumótun í sjálfu sér.
    Frá þessu var greint í ávarpi fulltrúa heilbrigðisráðherra við setningu 13. þings Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í Reykjavík 16. apríl síðastliðinn. Þar kom skýrt fram að samráð yrði haft við landssambandið um framvindu mála. Ekki er enn komið að því að boða til formlegra funda en við mótun stefnu í sjúkraflutningum gilda að sjálfsögðu sömu lögmál og um aðra heilbrigðisþjónustu á Íslandi: Hún á að vera eins góð og frekast er unnt að hafa hana miðað við þær aðstæður sem við búum við hverju sinni. Það þýðir að þjónustan á að vera örugg, markviss, skilvirk og tímanleg. Þjónustan á að vera aðgengileg og allir að hafa að henni jafnan aðgang. Umfram allt á þjónustan að miðast við þarfir sjúklinga.

     2.      Hve miklum fjármunum, í heild, var varið árlega til sjúkraflutninga árin 2006–2010? Hver er kostnaður við sjúkraflutninga á eftirtöldum stöðum á sama tímabili: Árborg, Akureyri, Suðurnesjum, Ísafirði og Húsavík? Svar óskast sundurliðað eftir árum (áætlað 2010).

    Eftirfarandi tafla sýnir útgjöld vegna sjúkraflutninga á árunum 2006–2009 í þús. kr. Upplýsingar um útgjöld á árinu 2010 liggja ekki fyrir.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eftirfarandi tafla sýnir útgjöld vegna sjúkraflutninga á Suðurlandi, Akureyri, Suðurnesjum, Vestfjörðum og Húsavík á árunum 2006–2009 í þús. kr. Heilbrigðisstofnunin Bolungarvík og Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ voru sameinaðar í Heilbrigðisstofnun Vestfjarða í upphafi árs 2009.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Eru sjúkrabílar á öllu landinu mannaðir tveimur sjúkraflutningamönnum? Hvaða staðlar gilda um sjúkraflutninga og telur ráðherra að þeim sé fylgt í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið?
    Evrópskir staðar hafa ekki reglugerðarígildi í þessum efnum hér á landi og er því ekki fylgt bókstaflega. Hins vegar eru þeir viðmið sem stefnt er að því að uppfylla og kemur það fram í ýtarlegri kröfulýsingu heilbrigðisráðuneytisins sem unnið er eftir við sjúkraflutninga. Í samræmi við kröfulýsinguna eru sjúkrabílar víðast hvar á landinu mannaðir með tveimur sjúkraflutningamönnum. Frá því er þó heimilt að víkja samkvæmt kröfulýsingunni og manna bíl með sjúkraflutningamanni og öðrum heilbrigðisstarfsmanni, gjarnan lækni eða hjúkrunarfræðingi.

     4.      Hver er stefna ráðherra varðandi útboð á sjúkraflutningum? Er unnið að slíku útboði í ráðuneytinu?

    Í lögum um sjúkratryggingar eru heimildir til útboðs, m.a. á sjúkraflutningum, sem hafa verið nýttar á undanförnum árum. Ekki er fyrirhugað af hálfu ráðherra að leggja til breytingar á þeim lagaheimildum. Nýlega var gerður samningur um sjúkraflutninga við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og gildir hann til 31. desember 2011. Ekki er unnið að gerð útboðs á sjúkraflutningum í ráðuneytinu um þessar mundir.