Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 354. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1193  —  354. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um notendastýrða persónulega aðstoð við fólk með fötlun.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Vilborgu Ingólfsdóttur, Einar Njálsson, Þór G. Þórarinsson og Sigrúnu Jönu Finnbogadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, Hlyn Hreinsson frá fjármálaráðuneyti, Guðmund Magnússon frá Öryrkjabandalagi Íslands, Gerði Árnadóttur frá Þroskahjálp, Grétu Sjöfn Guðmundsdóttur, verkefnisstjóra málefna fatlaðra á Norðurlandi vestra, Stellu K. Víðisdóttur frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Lúðvík Geirsson frá Hafnarfjarðarbæ og Guðjón Sigurðsson frá MND-félaginu. Þá bárust umsagnir frá MND-félaginu, Starfsgreinasambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Jafnréttisstofu, Þroskahjálp, Sjálfsbjörg – landssambandi fatlaðra, Félagi eldri borgara, Þroskaþjálfafélagi Íslands, Átaki – félagi fólks með þroskahömlun, Geðhjálp, Háskóla Íslands – námsbraut í fötlunarfræðum, Iðjuþjálfafélagi Íslands, Landssambandi eldri borgara, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Samtökum um sjálfstætt líf, Svæðisskrifstofu Reykjaness, Viðskiptaráði Íslands, Félagi íslenskra sérkennara, Rannsóknarstofu um skóla án aðgreiningar, Öryrkjabandalagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Persónuvernd, Tryggingastofnun ríkisins og Félagsráðgjafafélagi Íslands.
    Með tillögunni er lagt til að félags- og tryggingamálaráðherra verði falið að koma á fót notendastýrðri persónulegri aðstoð við fatlað fólk og að ráðherra leggi fram tillögu að útfærslu á þjónustunni ásamt frumvarpi til nauðsynlegra lagabreytinga á haustþingi 2010. Tillögunni er þannig ætlað að leggja grunn að gerð reglna um notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk.
    Samkvæmt 19. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks viðurkenna aðildarríki samningsins rétt fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og eiga valkosti til jafns við aðra. Auk þess skuldbinda ríkin sig til að gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til að fatlað fólk megi njóta þessa réttar. Telur nefndin samþykkt tillögunnar lið í því að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra og að um sé að ræða mikilvægt skref í að koma á raunverulegu jafnrétti.
    Nefndin hefur orðið vör við almenna ánægju með tillöguna þó svo að í umsögnum megi greina áhyggjur af því hversu skammur tími er til stefnu til að útfæra nauðsynlegar lagabreytingar. Nefndin áréttar að um mikilvægt mannréttindamál sé að ræða og því brýnt að setja hið fyrsta lagaramma um þjónustuna. Við þá vinnu sé mikilvægt að byggja á þeirri þekkingu sem til er auk þess sem nauðsynlegt er að hafa víðtækt samráð við væntanlega notendur þjónustunnar, sveitarfélög, hagsmunaaðila, fagaðila, sérfræðinga og fræðimenn. Við vinnuna verði jafnframt unnt að skoða möguleika á innleiðingu þjónustunnar í skrefum, hagræðingu og samnýtingu félagsþjónustu sveitarfélaga til hagsbóta fyrir notendur þjónustunnar og áframhaldandi þróun þjónustunnar. Nefndin áréttar að þessir þættir og fleiri verða ræddir í því starfi sem fram undan er við útfærslu og gerð frumvarps. Samþykkt tillögunnar felur í sér þá stefnumörkun að unnið verði að lagabreytingum og þær lagðar fyrir þingið haustið 2010 auk þess sem ályktunin staðfestir vilja löggjafans til að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Ögmundur Jónasson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. júní 2010.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


varaform., frsm.


Pétur H. Blöndal.


Margrét Pétursdóttir.



Guðbjartur Hannesson.


Guðmundur Steingrímsson.


Þuríður Backman.



Unnur Brá Konráðsdóttir.


Anna Margrét Guðjónsdóttir.