Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 622. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1199  —  622. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

     1.      Hvaða vinnuhópar, ef einhverjir eru, innan ráðuneytisins eða undirstofnana þess fjalla um málefni tengd umsókn um aðild að Evrópusambandinu?
    Innan ráðuneytisins starfa ekki vinnuhópar sem fjalla sérstaklega um málefni tengd umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Starfsmenn ráðuneytisins eiga sæti í samningahópum og samninganefnd sem sett hafa verið á fót vegna undirbúnings og fyrirhugaðra aðildarviðræðna. Sérstök ráðherranefnd um Evrópumál er starfandi og eiga fjórir ráðherrar fast sæti í henni.

     2.      Hversu margir starfsmenn má ætla að vinni að aðildarumsókninni innan ráðuneytisins og undirstofnana þess og hversu hátt hlutfall er það af heildarstarfsmannafjölda?
    Enginn starfsmaður er í fullu starfi við málefni tengd aðildarumsókn. Þrír starfsmenn vinna að málefnum sem tengjast aðildarumsókn, meðfram öðrum störfum sínum. Reikna má með að sá hluti vinnu þeirra sem varðar aðildarumsóknina og undirbúning aðildarviðræðna samsvari um 15% stöðuhlutfalli, sé miðað við síðustu þrjá mánuði.

     3.      Hvað er áætlað að ráðuneytið og undirstofnanir þess verji miklu fé, á þessu ári og því næsta, til vinnu vegna aðildarumsóknarinnar?
    Ekki er gert ráð fyrir sérstökum kostnaði á þessu ári vegna aðildarumsóknar. Reiknað er með að komi til aukins ferðakostnaðar verði hann greiddur af fjárveitingu sem Alþingi samþykkti sérstaklega vegna aukins kostnaðar annarra ráðuneyta en utanríkisráðuneytis í fjárlögum fyrir árið 2010.

     4.      Hefur starfsmönnum í ráðuneytinu eða undirstofnunum þess verið fjölgað vegna aðildarumsóknarinnar og ef svo er, hve mörg stöðugildi er um að ræða?
    Stöðugildum hefur ekki verið fjölgað vegna aðildarumsóknarinnar.

     5.      Hefur ráðuneytið keypt einhverja utanaðkomandi ráðgjöf vegna aðildarumsóknarinnar og ef svo er, af hverjum var sú ráðgjöf keypt og hversu mikill var kostnaðurinn við það?
    Engin ráðgjöf hefur verið keypt af hálfu ráðuneytisins vegna aðildarumsóknarinnar.

     6.      Liggur fyrir hvaða skipulagsbreytingar á stjórnsýslu þeirri sem undir ráðuneytið heyrir þurfa að vera komnar til framkvæmda áður en til aðildar kemur til að uppfylla kröfur Evrópusambandsins? Óskað er eftir upplýsingum um breytingar sem eru fyrirsjáanlegar þrátt fyrir að heildarumfang þeirra liggi ekki fyrir.
    Ráðuneytið telur ekki þörf á sérstökum breytingum á skipulagi ráðuneytisins eða stofnana þess vegna aðildarferlisins. Ljóst er að fagleg samskipti og samráð á vettvangi leiðtoga Evrópusambandsins mun aukast ef til aðildar kemur, sem kemur m.a. í stað samstarfs og samráðs á vettvangi EES-samningsins.
    Hvað varðar stjórnsýsluna í heild má gera ráð fyrir nokkrum breytingum á fyrirkomulagi stjórnsýslu og stofnanauppbyggingar eftir að fyrir liggur niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning. Einkum verða gerðar breytingar á sviði byggðamála, landbúnaðarmála og tollamála. Hægt er að nýta þær stofnanir sem fyrir eru, en efla þær og styrkja, m.a. með einfaldara stjórnkerfi og aðskilnaði framkvæmdar og eftirlits. Breytingarnar fela í sér t.d. eflingu stofnana á sviði byggða- og landbúnaðarmála til að hafa umsjón með sjóðum og styrkjum, en á vettvangi tollamála verða upplýsingakerfi efld verulega.