Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 631. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1207  —  631. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

     1.      Hvaða vinnuhópar, ef einhverjir eru, innan ráðuneytisins eða undirstofnana þess fjalla um málefni tengd umsókn um aðild að Evrópusambandinu?
    
Ráðuneytið fjallar um þrjá kafla (málaflokka) í umsóknarferlinu. Þeir eru kafli 15 um orkumál (energy), kafli 20 um fyrirtæki og iðnað (enterprise and industry) og kafli 22 um byggðamál (regional policy). Ekki eru starfandi sérstakir vinnuhópar um þessa málaflokka innan ráðuneytisins en nokkrir starfsmenn ráðuneytisins og stofnana þess taka þátt í störfum á vegum samningahópa um framangreind málefni á vegum utanríkisráðuneytis.

     2.      Hversu margir starfsmenn má ætla að vinni að aðildarumsókninni innan ráðuneytisins og undirstofnana þess og hversu hátt hlutfall er það af heildarstarfsmannafjölda?
    
Enginn starfsmaður ráðuneytisins eða stofnana þess vinnur við umsóknarferlið í fullu starfi. Sex starfsmenn ráðuneytisins hafa komið að vinnu við framangreinda þrjá kafla og nokkrir starfsmenn stofnana ráðuneytisins einnig. Fram til þessa hafa verkefnin komið nokkuð í tímabundnum áföngum í tengslum við framvindu umsóknarinnar. Stærsti áfanginn var í september 2009 þegar spurningalistum ESB var svarað og nú eftir áramótin (aðallega í febrúar og mars) hefur verið nokkuð stífur áfangi við yfirferð gerða ESB. Við lauslega yfirferð á vinnu ráðuneytisins frá því í september 2009 fram til 1. júní 2010 er áætlaður tími við umsóknarferlið þessa níu mánuði að meðaltali:
    
Kafli 15 um orkumál:
    Áætlað hlutfall af fullu starfi að meðaltali á níu mánaða tímabili: 30%
Kafli 20 um fyrirtæki og iðnað:
    Áætlað hlutfall af fullu starfi að meðaltali á níu mánaða tímabili: 45%
Kafli 22 um byggðamál:
    Áætlað hlutfall af fullu starfi að meðaltali á níu mánaða tímabili: 60%

     3.      Hvað er áætlað að ráðuneytið og undirstofnanir þess verji miklu fé, á þessu ári og því næsta, til vinnu vegna aðildarumsóknarinnar?
    
Kostnaður ráðuneytisins er fyrst og fremst vegna vinnuframlags starfsmanna ráðuneytisins og stofnana þess. Gert er ráð fyrir því að kostnaður vegna ferða og funda í útlöndum verði greiddur af utanríkisráðuneyti og að kostnaður vegna heimsókna sérfræðinga frá ESB falli ekki á ráðuneytið. Almennur kostnaður í tengslum við aðildarumsóknina er ekki bókfærður sérstaklega. Engu að síður verður nokkur kostnaður óhjákvæmilega til vegna hennar, en hann er á þessu ári lauslega áætlaður um 1 millj. kr. og 2 millj. kr. á næsta ári. Miðað við svar við 2. lið fyrirspurnarinnar hefur ráðuneytið og stofnanir þess varið um 1. af fullu starfi (1,35) í umsóknarvinnuna og er gert ráð fyrir að það verði óbreytt áfram á þessu ári. Þetta fer þó eftir því hvernig stofnanaþáttur byggðamála þróast og er líklegast að vinna við þann verkþátt aukist síðla á þessu ári og á næsta ári (2011). Með þetta í huga er nú áætlað að vinnuframlag ráðuneytisins og stofnana þess vegna aðildarumsóknarinnar verið allt að tvö störf á árinu 2011. Starfsmenn ráðuneytisins eru nú 18 en 10 sérfræðingar geta sinnt þessum málum. Miðað við heildarfjölda starfsmanna er aukning í vinnuframlagi á þessu ári því áætluð um 7,5%, allt að 11% á árinu 2011, en þá hefur hlutur starfsmanna stofnana verið talinn sem framlag starfsmanna ráðuneytisins. Framlag starfsmanna stofnana ráðuneytisins er um eða innan við 10% af heild.

     4.      Hefur starfsmönnum í ráðuneytinu eða undirstofnunum þess verið fjölgað vegna aðildarumsóknarinnar og ef svo er, hve mörg stöðugildi er um að ræða?
    
Starfsmönnum ráðuneytisins eða stofnana þess hefur ekki verið fjölgað vegna vinnu við aðildarumsóknina.

     5.      Hefur ráðuneytið keypt einhverja utanaðkomandi ráðgjöf vegna aðildarumsóknarinnar og ef svo er, af hverjum var sú ráðgjöf keypt og hversu mikill var kostnaðurinn við það?
    Ráðuneytið hefur ekki keypt utanaðkomandi ráðgjöf vegna aðildarumsóknarinnar.

     6.      Liggur fyrir hvaða skipulagsbreytingar á stjórnsýslu þeirri sem undir ráðuneytið heyrir þurfa að vera komnar til framkvæmda áður en til aðildar kemur til að uppfylla kröfur Evrópusambandsins? Óskað er eftir upplýsingum um breytingar sem eru fyrirsjánlegar þrátt fyrir að heildarumfang þeirra liggi ekki fyrir.

    Kaflar 15 um orkumál og 20 um fyrirtæki og iðnað munu sennilega ekki kalla á skipulagsbreytingar á stjórnsýslunni. Kafli 22 um byggðamál mun aftur á móti gera það. Ekki liggur þó fyrir ákvörðun um ábyrgð einstakra ráðuneyta á þeim breytingum. Hér er fyrst og fremst um að ræða skipulagsbreytingar til að geta sinnt samstarfi við stoðkerfissjóði ESB. Þessir sjóðir eru: atvinnuþróunarsjóðurinn ERDF, vinnumarkaðs- og mannauðssjóðurinn ESF, sjávarútvegssjóðurinn EFF, dreifbýlissjóður evrópsks landbúnaðar EAFRD, auk sjóðs um greiðslur vegna landbúnaðarframleiðslu. Miðað við núverandi verkaskiptingu ráðuneyta má gera ráð fyrir að atvinnuþróunarsjóðurinn ERDF verði felldur undir ábyrgðarsvið ráðuneytisins. Verði svo mun það kalla á breytingu á stofnanagerð ráðuneytisins, en reynt verður að ráðast í breytingar og aðlögun frekar en að nýjar stofnanir verði settar á fót. Atvinnuþróunarsjóðurinn ERDF mun gagnvart Íslandi fyrst og fremst koma að samstarfsverkefnum er lúta að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu sem hefur að markmiði að bæta samkeppnisstöðu atvinnulífsins og landsins í heild. Vegna mótframlaga er líklegt að Tækniþróunarsjóður og aðrir sambærilegir sjóðir verði innlendir samstarfsaðilar. Þá mun þurfa að breyta verklagi við langtíma stefnumótun sem mun líklega hafa áhrif á vinnu Vísinda- og tækniráðs og stefnumótunarvinnu iðnaðarráðuneytis og fleiri ráðuneyta.