Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 625. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1223  —  625. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

     1.      Hvaða vinnuhópar, ef einhverjir eru, innan ráðuneytisins eða undirstofnana þess fjalla um málefni tengd umsókn um aðild að Evrópusambandinu?
    
Innan ráðuneytisins eru ekki starfandi sérstakir vinnuhópar sem fjalla um málefni tengd umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Starfsmenn ráðuneytisins og undirstofnana taka þátt í samningahópum skipuðum af utanríkisráðherra sem eru aðalsamninganefnd til aðstoðar við aðildarviðræður. Starfsmenn ráðuneytisins taka þátt í eftirfarandi samningahópum:

     Samningahópur EES I, vörur, orka, samkeppnismál o.fl. Undir málefnasvið ráðuneytisins heyra að hluta eða öllu leyti kafli 7 (hugverkaréttur), kafli 8 (samkeppnismál) og kafli 18 (hagtölur).
     Samningahópur EES II, félagsmál, þjónusta, fjárfestingar, umhverfismál o.fl. Undir málefnasvið ráðuneytisins heyra að hluta eða öllu leyti kafli 3 (staðfesturéttur og þjónusta), kafli 4 (frjálsir fjármagnsflutningar), kafli 6 (félagaréttur) og kafli 9 (fjármálaþjónusta).
     Samningahópur um gjaldmiðilsmál. Kafli 17 fellur að öllu leyti undir ráðuneytið og Seðlabanka Íslands.
     Samningahópur um utanríkisviðskipti, utanríkis- og öryggismál. Kafli 31 fellur að hluta til undir verksvið ráðuneytisins.
     Samningahópur um byggða- og sveitastjórnarmál.

     2.      Hversu margir starfsmenn má ætla að vinni að aðildarumsókninni innan ráðuneytisins og undirstofnana þess og hversu hátt hlutfall er það af heildarstarfsmannafjölda?
    
Í heild koma níu starfsmenn ráðuneytisins að vinnu í samningahópum sem utanríkisráðherra hefur skipað um aðildarviðræðurnar, sem er 36% hlutfall af heildarstarfsmannafjölda ráðuneytisins. Þátttaka í samningahópum er þó aðeins hluti af starfsskyldum viðkomandi starfsmanna.
    Svör undirstofnanna við spurningu 2.
     FME: Fjármálaeftirlitið á einn fulltrúa í samningahópi EES II. Því til viðbótar koma fleiri starfsmenn að þessu verkefni eftir atvikum, einkum varðandi upplýsingagjöf og mögulega athugun gagna, þ.m.t. forstjóri, aðstoðarforstjóri, fimm sviðsstjórar auk ótiltekins fjölda sérfræðinga á einstökum sviðum eftirlitsins. Fram til þessa hefur þetta ekki verið tímafrekt verkefni. Heildarstarfsmannafjöldi eftirlitsins um þessar mundir eru 90 (þ.m.t. sumarstarfsmenn), af því leiðir að 7% starfsmanna hafa komið að verkefninu.
     Einkaleyfastofa: Sú vinna sem þegar hefur farið fram var unnin af fjórum lögfræðingum og forstjóra, sem er um 20% starfsmanna. Verkefnið tók um 25% af starfi viðkomandi starfsmanna í tvo mánuði. Ætla má að frekari vinna vegna umsóknarinnar verði í svipuðu hlutfalli (25%) í aðra tvo mánuði. Heildarvinna vegna umsóknarinnar er því áætluð 125% starfshlutfall í fjóra mánuði.
     Hagstofa: Gera má ráð fyrir að samtals um 2–3 ársverk fari í að undirbúa aðild að Evrópusambandinu hjá Hagstofu Íslands. Er það m 2,4–3,6% af heildarársverkum. Er þar meðal annars um að ræða ársverk vegna undirbúnings reglugerða sem kunna að verða skuldbindandi ef að aðild verður, en ekki kostnað við framkvæmd þeirra.
     Samkeppniseftirlit: Samkeppniseftirlitið gerir ekki ráð fyrir mikilli vinnu tengdri aðildarumsókninni á árinu, eða um 0,2% af heildarráðstöfunartíma þess.
     Seðlabanki: Fimm til sjö starfsmenn hafa komið að vinnu tengdri aðildarumsókninni. Fram að þessu hefur sú vinna þeirra verið minni háttar. Í árslok 2009 voru starfsmenn Seðlabanka Íslands 139, af því leiðir að 5% af heilarstarfsmannafjölda hefur komið að verkefninu.

     3.      Hvað er áætlað að ráðuneytið og undirstofnanir þess verji miklu fé, á þessu ári og því næsta, til vinnu vegna aðildarumsóknarinnar?
    
Helsti kostnaður ráðuneytisins er vegna vinnu sérfræðinga innan ráðuneytisins við aðildarviðræðurnar. Þar sem næstu skref liggja ekki fyrir, t.d. um fyrirkomulag rýnifunda og hver aðkoma starfsmanna ráðuneytisins verður, liggur ekki fyrir áætlun um kostnað vegna þessa verkefnis. Hvað undirstofnanir varðar þá er ekki gert ráð fyrir öðrum kostnaði en sem nefndur er í 2. lið svarsins. Reikna má með að komi til aukins ferðakostnaðar verði hann greiddur af fjárveitingu sem Alþingi samþykkti sérstaklega vegna aukins kostnaðar annarra ráðuneyta en utanríkisráðuneytis í fjárlögum 2010.

     4.      Hefur starfsmönnum í ráðuneytinu eða undirstofnunum þess verið fjölgað vegna aðildarumsóknarinnar og ef svo er, hve mörg stöðugildi er um að ræða?
    
Starfsmönnum hefur ekki verið fjölgað vegna aðildarviðræðnanna hvorki hjá ráðuneytinu né undirstofnunum.

     5.      Hefur ráðuneytið keypt einhverja utanaðkomandi ráðgjöf vegna aðildarumsóknarinnar og ef svo er, af hverjum var sú ráðgjöf keypt og hversu mikill var kostnaðurinn við það?
    
Hvorki ráðuneytið né undirstofnanir hafa keypt utanaðkomandi ráðgjöf.

     6.      Liggur fyrir hvaða skipulagsbreytingar á stjórnsýslu þeirri sem undir ráðuneytið heyrir þurfa að vera komnar til framkvæmda áður en til aðildar kemur til að uppfylla kröfur Evrópusambandsins? Óskað er eftir upplýsingum um breytingar sem eru fyrirsjánlegar þrátt fyrir að heildarumfang þeirra liggi ekki fyrir.

    Ekki er gert ráð fyrir neinum skipulagsbreytingum hvorki á aðalskrifstofu ráðuneytisins né undirstofnunum, sem þurfa að vera komnar til framkvæmda áður en til aðildar kemur.