Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 629. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1226  —  629. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

     1.      Hvaða vinnuhópar, ef einhverjir eru, innan ráðuneytisins eða undirstofnana þess fjalla um málefni tengd umsókn um aðild að Evrópusambandinu?
    Engir hópar eru starfandi á vegum ráðuneytisins eða undirstofnana þess til að fjalla um málefni tengd umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

     2.      Hversu margir starfsmenn má ætla að vinni að aðildarumsókninni innan ráðuneytisins og undirstofnana þess og hversu hátt hlutfall er það af heildarstarfsmannafjölda?
    Tveir starfsmenn ráðuneytisins eiga sæti í samningahópum vegna umsóknar að Evrópusambandinu og má gera ráð fyrir að vinnuframlag vegna þeirra sé 5–10% af vinnutíma hvors um sig eftir aðstæðum.

     3.      Hvað er áætlað að ráðuneytið og undirstofnanir þess verji miklu fé, á þessu ári og því næsta, til vinnu vegna aðildarumsóknarinnar?
    Ekki er gert ráð fyrir neinum fjárútlátum af hálfu ráðuneytisins eða undirstofnana þess vegna aðildarumsóknarinnar á yfirstandandi ári eða á því næsta. Árið 2009 féll til kostnaður við þýðingar á svörum við spurningalistum af ensku yfir á íslensku, samtals 848.097 kr. (auk virðisaukaskatts 207.783 kr. sem ráðuneytið fékk endurgreiddan).

     4.      Hefur starfsmönnum í ráðuneytinu eða undirstofnunum þess verið fjölgað vegna aðildarumsóknarinnar og ef svo er, hve mörg stöðugildi er um að ræða?
    Engar breytingar hafa orðið í starfsmannahaldi ráðuneytisins vegna aðildarumsóknarinnar.

     5.      Hefur ráðuneytið keypt einhverja utanaðkomandi ráðgjöf vegna aðildarumsóknarinnar og ef svo er, af hverjum var sú ráðgjöf keypt og hversu mikill var kostnaðurinn við það?
    Ráðuneytið hefur ekki keypt neina utanaðkomandi ráðgjöf vegna aðildarumsóknarinnar nema þýðingarvinnu, sem getið er um í svari við 3. tölul.

     6.      Liggur fyrir hvaða skipulagsbreytingar á stjórnsýslu þeirri sem undir ráðuneytið heyrir þurfa að vera komnar til framkvæmda áður en til aðildar kemur til að uppfylla kröfur Evrópusambandsins? Óskað er eftir upplýsingum um breytingar sem eru fyrirsjáanlegar þrátt fyrir að heildarumfang þeirra liggi ekki fyrir.

    Engar skipulagsbreytingar á stjórnsýslu sem undir ráðuneytið heyrir þurfa að vera komnar til framkvæmda áður en til aðildar kemur til að uppfylla kröfur Evrópusambandsins.