Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 41. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1250  —  41. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um gengistryggðar og verðtryggðar eignir og skuldir bankanna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er verðtryggingarjöfnuður skulda og eigna nýju bankanna? Ekki er óskað sundurliðunar eftir bönkum.
     2.      Eru líkur á að nýju bankarnir hagnist á verðbólgu ef verðtryggðar eignir eru miklar í hlutfalli við verðtryggðar skuldir?
     3.      Hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að koma megi í veg fyrir að ríkið hagnist óeðlilega á kostnað almennings vegna verðbólgu?
     4.      Hver er gjaldeyrisjöfnuður nýju bankanna? Ekki er óskað sundurliðunar eftir bönkum.
     5.      Hver eru áhrif veikingar og styrkingar krónunnar á hag nýju bankanna miðað við gjaldeyrisjöfnuð þeirra?
     6.      Hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að ríkið hagnist óeðlilega á kostnað almennings af veikari krónu?


    Réttur alþingismanna til þess að óska eftir upplýsingum með því að beina fyrirspurn til ráðherra takmarkast skv. 54. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 49. gr. þingskapalaga, við opinber málefni. Nýju bankarnir eru hlutafélög að hluta í eigu ríkisins og teljast til einkaréttarlegra aðila og njóta lögbundinnar verndar um viðskiptalegar upplýsingar. Um ríkishlutafélög gilda almennt sömu reglur og um önnur hlutafélög og takmarkast réttur alþingismanna til að krefja ráðherra upplýsinga um slík félög við það hvort upplýsingarnar eigi að vera opinberar samkvæmt lögum. Opinberar upplýsingar um rekstur viðkomandi félaga eru m.a. birtar í ársskýrslum þeirra. Í þessu sambandi má m.a. horfa til þeirra sjónarmiða sem fram koma í upplýsingalögum, nr. 50/1996, um upplýsingaskyldu stjórnvalda, en lögin taka ekki til starfsemi einkaaðila nema að því leyti sem hún lýtur að því að taka ákvarðanir, í skjóli stjórnsýsluvalds, um rétt eða skyldu manna.
    Lokið er gerð endurskoðaðra ársreikninga fyrir árið 2008 og 2009 hjá Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og Landsbankans (NBI hf.) og hafa ársreikningarnir verið lagðir fram. Opinber upplýsingagjöf viðkomandi hlutafélaga liggur þar með fyrir. Rétt er jafnframt að benda á að ríkissjóður er minnihlutaaðili í Arion banka hf. og Íslandsbanka hf. og hefur ekki rétt til upplýsinga frá þessum hlutafélögum umfram aðra hluthafa.
    Eigi síður er hægt að gefa almennar upplýsingar um nýju bankanna varðandi gjaldeyris- og verðtryggingarjöfnuð þeirra og hvaða meginsjónarmið fjármálaráðuneytið hafði til hliðsjónar við fjármagnsskipan þeirra.
    Ljóst er að mikið gjaldeyrismisvægi var milli yfirtekinna eigna og skulda nýju bankanna þar sem gengistryggðar eignir (útlán) voru meiri en gengistryggðar skuldir, en innlánin voru að mestu í krónum og útlánin að meginhluta til gengistryggð. Einnig yfirtóku nýju bankarnir meira af verðtryggðum eignum en verðtryggðum skuldum þó að sá mismunur væri mun minni en misvægið í gjaldeyrisjöfnuði. Nauðsynlegt var því að grípa til aðgerða til að minnka ójafnvægi í efnahag bankanna og tryggja þannig fjárhagslegan stöðugleika þeirra.
    Við ákvörðun um endanlega fjármagnsskipan nýju bankanna var gerður skýr greinarmunur á gengistryggðum útlánum til aðila sem hafa tekjur í erlendum myntum og gengistryggðum útlánum til þeirra sem hafa tekjugrundvöll sinn í krónum. Til lengri tíma litið var talið að fyrrnefndi hópurinn yrði að hafa möguleika á að fjármagna sig í erlendum myntum en eðlilegast að síðarnefndi hópurinn ætti í meginatriðum að hafa skuldir sínar í krónum. Með tilliti til innlendra vaxta nú og veikrar stöðu krónunnar er þó talið líklegt að skuldbreyting á gengistryggðum lánum síðarnefnda hópsins yfir í krónur gæti tekið nokkuð langan tíma.
    Þó er mikilvægt að hafa í huga að fyrir bankana er ekki hagkvæmt að verja opna gjaldeyrisstöðu sína vegna síðarnefndu lánanna með gengistryggðri skuldsetningu því geta þessara lántakenda til að greiða af lánum sínum er að mestu föst í krónum talið og þannig að mestu óháð gengisbreytingum krónunnar. Við veikingu krónunnar sem reikningslega séð skapar gengishagnað hjá bankanum, verður að auka framlög bankans í afskriftarsjóð vegna þessara lána. Þennan afskriftasjóð má síðan nota til að veita afslátt frá höfuðstól, t.d við breytingu á lánum úr erlendum myntum í krónur. Sú opna gjaldeyrisstaða sem fyrir hendi er á því tímabili sem skuldbreytingin á sér stað er varin með auknu eiginfjárframlagi ríkisins miðað við reglur Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfur til að verja markaðsáhættu.
    Á hinn bóginn var nauðsynlegt að tryggja bönkunum fjármögnun í erlendum myntum til að gera þá færa um að standa undir útlánum til þeirra fyrirtækja sem hafa tekjur í erlendum myntum og er sjávarútvegurinn þar fyrirferðarmestur.
    Hvað varðar verðtryggingarjöfnuð bankanna er málum öðruvísi háttað. Eins og fram kom hér að framan var verðtryggingarjöfnuður bankanna jákvæður í upphafi. Hins vegar hafa bankarnir ekki endilega viðbótartekjur af jákvæðum verðtryggingarjöfnuði ef raunvextir eru háir á sama tíma en þá greiðir bankinn háa vexti af óverðtryggðum innlánsreikningum. Eðlilegt er þó að bankar jafni sveiflur í tekjuflæði sínu með því hafa verðtryggðar eignir og skuldir í jafnvægi. Hið sama gildir þó um verðtryggð útlán og gengistryggð lán til aðila sem hafa eingöngu tekjur í krónum að í sumum tilfellum þarf að auka framlög í afskriftarsjóð ef verðbólga hækkar höfuðstól lánanna umfram greiðslugetu lántakandans.
    Við stefnumörkun um endurreisn bankanna hafa framangreind atriði verið höfð að leiðarljósi og koma fram í nokkrum meginþáttum fjármagnskipunar þeirra:
     *      Skuldabréf útgefin til Landsbankans fyrir yfirteknar eignir umfram skuldir eru gengistryggð til mótvægis við gengistryggð útlán. Glitnir notaði gengistryggt skuldabréf upprunalega útgefið til hans sem greiðslu fyrir hlutabréf þau sem hann leysti til sín og í tilfelli Kaupþings voru yfirteknar eignir minni en yfirteknar skuldir.
     *      Eiginfjárframlag ríkisins er í formi skuldabréfa í íslenskum krónum með breytilegum vöxtum sem gefur bönkunum tekjur í krónum á móti vaxtakostnaði innlána. Eiginfjárframlagið tekur mið af markaðsáhættu vegna gengistryggðra lána til þeirra aðila sem hafa takmarkaðar tekjur í erlendum gjaldeyri.
     *      Ríkissjóður veitir Íslandsbanka og Arion banka víkjandi lán að jafnvirði samtals 54 milljarða kr. Hin víkjandi skuldabréf sem gefin eru út af bönkunum eru gengistryggð en ríkissjóður greiðir fyrir þau með skuldabréfum í krónum og dregur þannig úr gjaldeyrismisvæginu.
     *      Húsnæðislán Glitnis og Kaupþings sem veðsett höfðu verið Seðlabanka Íslands vegna lausafjárfyrirgreiðslu fyrir fall bankanna eru færð til bankanna að nýju en þeir greiða fyrir þau með gengistryggðum og verðtryggðum skuldabréfum og eykur þannig jöfnuð í efnahagsreikningum þeirra.
    Að þessum aðgerðum loknum var búið að minnka gjaldeyrismisvægi bankanna þannig að þeir gátu tryggt fjármögnun gengistryggðra lána til aðila með tekjur í erlendum myntum, en markaðsáhætta vegna annarra gengistryggðra lána var varin með auknu eiginfjárframlagi. Þessi jöfnuður hliðraðist lítillega er Glitnir leysti til sín 95% af hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka. Seðlabanki Íslands og fjármálaráðuneytið hafa því tekið til athugunar hvort þörf sé á frekari skuldastýringaraðgerðum vegna gjaldeyrisjafnaðar bankanna.
    Með hliðsjón að fyrirliggjandi upplýsingum eru fyrirspurnum svarað þannig:
     1.      Verðtryggingarjöfnuður bankanna þriggja í heild var jákvæður í upphafi. Verðtryggingarjöfnuður Arion banka var þó neikvæður þar sem húsnæðislán Kaupþings urðu að mestu eftir í gamla bankanum, en verðtryggð innlán voru yfirtekin. Yfir lengri tíma er ekki líklegt að bankarnir hagnist sérstaklega á verðbólgu. Háir raunvextir geta orðið þess valdandi að bankarnir tapi á verðbólgu, en misvægi í verðtryggingarjöfnuði skapar sveiflur í tekjum bankans.
     2.      Fjármálaráðherra hyggst ekki grípa til sérstakra aðgerða vegna verðtryggingarjafnaðar bankanna en æskilegt er talið að bankarnir stefni að jöfnuði milli verðtryggðra útlána og innlána til að hafa sem mest jafnvægi í rekstri sínum.
     3.      Gjaldeyrisjöfnuður allra bankanna var jákvæður í upphafi, en með aðgerðum í tengslum við endurreisn þeirra eins og áður er lýst hefur nokkurn veginn verið tryggður jöfnuður í gengistryggðum skuldum og gengistryggðum útlánum til aðila með tekjur í erlendum myntum. Ráðgert er að öðrum gengistryggðum lánum verði breytt í lán í krónum á næstu missirum en það fer eftir vaxta- og gengisþróun hversu hratt það gengur. Á þessu tímabili leggja bankarnir á afskriftarreikning eða taka út af honum vegna þessara lána í takt við gengissveiflur krónunnar. Reikningslega verður því gengishagnaður hjá bönkunum við veikingu krónunnar, en meginhlutinn af þeim hagnaði er lagður í afskriftarsjóð þar sem ekki er reiknað með að hann innheimtist.
     4.      Eins og fjármagnsskipan bankanna hefur verið fyrir komið nú er ekki hægt að segja að ríkið hagnist óeðlilega á kostnað almennings af veikari krónu. Auk þess sem gengisþróun að undanförnu er jákvæð og dregur úr því ójafnvægi sem skapaðist með falli krónunnar. Þær aðgerðir sem enn eru til athugunar hjá fjármálaráðuneytinu í samvinnu við Seðlabanka Íslands er hvort þörf sé á frekari skuldastýringaraðgerðum fyrir bankana til að skapa jöfnuð í gengistryggðum skuldum og gengistryggðum útlánum til fyrirtækja með tekjur í erlendum myntum.