Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 609. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1297  —  609. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Ásbjarnar Óttarssonar um fyrirhugaða lokun svæða fyrir dragnótaveiðum.

     1.      Hver voru tilefni þess að ráðherra ákvað að grípa til boðaðrar takmörkunar dragnótaveiða í sjö fjörðum? Hvaða skriflegu gögn liggja fyrir um þau tilefni?
    Stefnumörkun um frekari verndun grunnslóðar fyrir veiðum afkastamikilla fiskiskipa liggur fyrir í verkefnalista ríkisstjórnarinnar. Þar segir: „Vernda grunnslóð. Kannaðir verði möguleikar þess að veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð og inn á fjörðum verði takmarkaðar frá því sem nú er með það að markmiði að treysta grunnslóðina sem veiðislóð fyrir smærri báta og umhverfisvænni veiði.“
    Ráðuneytinu hafa borist óskir frá íbúasamtökum við Önundarfjörð um að dragnótarveiðar verði takmarkaðar í Önundarfirði og undirskriftalistar meðfylgjandi með um 90 nöfnum. Frá Húnaflóa hafa borist áskoranir frá sveitarstjórn Vestur-Húnavatnssýslu, Skagaströnd og Kaldrananeshreppi (Drangsnesi) um takmörkun dragnótaveiða í Húnaflóa.
    Frá Skagafirði hafa borist ályktanir frá sveitarstjórn um lokun vegna veiða með dragnót og undirskriftalistar nokkur hundruð íbúa í sömu veru og einnig ályktanir smábátasjómanna. Frá Seyðisfirði og Borgarfirði eystra hafa borist ályktanir frá sveitarstjórnum og smábátasjómönnum um frekari lokun í utanverðum Seyðisfirði og í Loðmundarfirði.

     2.      Á hvaða vísindalegu rannsóknum byggir ráðherra það mat sitt að dragnót hafi skaðleg áhrif á veiðisvæði í þeim fjörðum sem áformað er að loka fyrir dragnótaveiðum?
    Víða hefur verið sett takmörkun á veiðar með dragnót á undanförnum árum vegna þess ágreinings sem verið hefur áratugum saman um hvort heimila eigi veiðar innfjarða með dregnum veiðarfærum eins og trolli og eða dragnót við almennar bolfiskveiðar. Þessar ákvarðanir hafa oftast verið byggðar á óskum heimamanna á hverju svæði, studdar þeim rökum að ákveðin svæði séu friðuð fyrir afkastamiklum veiðiskipum og veiðiaðferðum sem afkastað geta tugum tonna afla af bolfiski á innan við sólarhring. Segja má að þessi viðhorf heimamanna um skipan mála til fiskveiða með forgangi íbúa hafi í raun verið mörkuð í elstu lögum Íslendinga. „Rétt er að útilykja aðkomandi fiskimenn frá bátfiski, nema síldveiði sé, á fjörðum og tilteknum fjarðarsvæðum sökum fiskveiða fjarðarbúa“ segir í lögum frá 1888. Forgangsréttur fjarðarbúa til annarrar fiskveiði en síldveiði er fyrir löngu markaður og allt aftur til Jónsbókar. Skýrasta dæmið, nú áratugagamalt, um mörk friðunarsvæða innan fjarða má finna í Breiðafirði þar sem fyrir áratugum voru bannaðar botnfiskveiðar í botnvörpu, dragnót og þorsknet innan línu sem Breiðfirðingar lögðu til á sínum tíma að dregin yrði. Línan var dregin yfir Breiðafjörð vel innan við Skorarfjall, frá Selskeri austan Sigluness á Barðaströnd, í Selsker sunnan fjarðarins og þaðan í Eyrarfjall. Þessi friðun var gerð að tillögu og samdóma áliti Breiðfirðinga og án sérstakra rannsókna á veiðislóð og botngerð Breiðafjarðar. Friðun fjarðarins fyrir þessum veiðum á bolfiski og flatfiski er virðingarvert fordæmi fyrir því sem vel hefur tekist við verndun grunnslóðar fyrir veiðum afkastamikilla skipa. Handfæra- og línuveiðar eru heimilaðar innan línunnar og ekki annað vitað en að mikil sátt sé um það fyrirkomulag. Dragnótaveiðar hafa einnig lengi verið bannaðar á innanverðum Faxaflóa og í Hvalfirði og telst eðlileg takmörkun á veiðum með dragnót. Margir firðir eru lokaðir á mismunandi tímum fyrir veiðum með dragnót, t.d. Eyjafjörður, Ólafsfjörður, Vopnafjörður, Mjóifjörður, Bakkaflói innanverður, Þistilfjörður, Skjálfandi innanverður o.fl. Ekki er vitað til að miklar vísindarannsóknir hafi farið fram á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar áður en lokað var en talið jákvætt að fara að ábendingum heimamanna um takmörk afkastamikilla veiðarfæra í þessum fjörðum og að verndunin stuðli að viðhaldi fiskstofna innan fjarðanna eins og reyndar áratugareynsla er af í Breiðafirði. Ella hefðu menn ekki sæst á svo mikla langtímafriðun fyrir togveiðum og þorskanetaveiðum þar. Auk þess verður að telja eðlilegt að náttúran njóti vafans. Almenna reglan í landhelgislögum er einnig sú að togveiðar séu ekki heimilar innan þriggja sjómílna frá landi en dragnót er undanþegin með sérstökum leyfum um veiðar nær landi mjög víða. Ekki er heldur vitað til að miklar rannsóknir hafi farið fram á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar áður en dragnótaveiðar voru leyfðar með sérstökum reglugerðum eða leyfum. Takmörkun dragnótaveiða innfjarða er stefna núverandi stjórnvalda og byggð á þeim almennu viðhorfum að takmörkun þeirra sé jákvæð, m.a. vegna stýringar milli mismunandi veiðiaðferða og fyrir uppeldis- og hrygningarslóðir innan flóa og fjarða eins og dæmin sanna, m.a. úr Breiðafirði þar sem í mörg ár hefur verið mikil fiskgengd. Athyglisvert efni er t.d.:
    Reglur um svæðaskiptingu vegna dragnótaveiða og veiðileyfi með skilyrðum og mismunandi reglum eftir landshlutum og tímabilum, Fjölrit Hafrannsóknastofnunarinnar nr. 140 2008: Um dragnót og dragnótaveiðar við Ísland, Háskólinn á Akureyri 2005: Veiðiálag dragnótar á Íslandsmiðum – lokaverkefni Atla G. Atlasonar, Fjölrit Hafrannsóknastofnunarinnar nr. 151 2009: Um áhrif dragnótar á lífríki í Skagafirði, Hafrannsóknastofnunin 2001: Sjór og sjávarnytjar í Héraðsflóa, Fjölrit Hafrannsóknastofnunarinnar nr. 85: Skýrsla um strauma, umhverfisþætti og lífríki sjávar í Reyðarfirði, Livsmedelsverket 2008: Delrapport fisk – På väg mot miljöanpassade kostråd, Temanord 2003:51: A desk-study of diverse methods of fishing when considered in perspective of responsible fishing, and the effect on the ecosystem caused by fishing activity. Norska sjávarútvegsráðuneytið: Vernetiltæk for norsk kysttorsk i 2009.

     3.      Hvaða erlendu dæmum fylgir ráðherra um lokunina á forsendum verndunar viðkvæmra hafsvæða?
    Ljóst er að mörg sjónarmið eru uppi um verndun svæða fyrir notkun ýmissa veiðarfæra og ekki á það sama við á öllum veiðisvæðum við Ísland frekar en annars staðar. Hægt er að fullyrða að notkun dreginna veiðarfæra sé víða um heim víkjandi innan flóa og fjarða fyrir kyrrstæðum veiðarfærum. Benda má á fréttatilkynningu frá 19. desember 2008 á vef norska sjávarútvegs- og strandráðuneytisins og m.a. skoða „Vernetiltak for norsk kysttorsk i 2009“. Þar má einnig sjá framsetningu á myndrænu formi með sjókortum og veiðitilhögun. Einnig er þar dregið á kort með línum í lit með viðeigandi skýringartextum að því er varðar stærðir fiskiskipa og takmörkun á notkun dreginna togveiðarfæra auk tilvitnana í skýrslu frá norsku hafrannsóknastofnuninni.

     4.      Hver eru nákvæmlega hin meintu neikvæðu áhrif dragnótar á lífríkið?
    Ekki hefur verið fullyrt að dragnótin valdi allstaðar skaða, t.d. á hafsbotninum, en það hefur ekki heldur verið afsannað. Dragnót er orðin mjög kröftugt veiðarfæri og fer yfir stórt svæði í hverju kasti. Þekkt er að veiði í einum firði er oft aðeins góð í stuttan tíma í senn og síðan þarf fjörðurinn hvíld svo aftur megi fá veiði t.d. viku síðar. Veiði annarra skipa, t.d. með línu, fer oft illa saman við dragnótaveiðar á sama svæði. Það eru einmitt þessi miklu afköst eða tímabundna uppþurrkun sem hefur fengið menn til að staldra við. Í skýrslu norska starfshópsins um þorsk á grunnslóð (kysttorskgruppen), en í honum sitja hagsmunaaðilar, frá 2009 kemur eftirfarandi fram: „Hið almenna bann við notkun dragnótar innan fjarðarlína byggist á þeim rökum að um sé að ræða öflugt veiðarfæri sem fyrst og fremst eigi að nota á stóra óstaðbundna stofna, og vegna áhyggja um að erfitt geti reynst að stunda sjálfbærar veiðar með dragnót á staðbundnum stofnum á grunnslóð. Að auki er ljóst að undantekningar frá þessu geta skapað vandamál þegar kemur að eftirliti með því að veiðarnar fari fram samkvæmt settum reglum.“ 1

     5.      Er ráðherra kunnugt um dæmi þess að dragnótaveiðar hafi jákvæð áhrif á lífríkið?
    Ef rannsóknir sem sýna fram á slíkt eru til staðar þá er ráðherra ókunnugt um þær.

     6.      Hefur ráðherra kannað hvort þess séu dæmi erlendis að dragnót leysi af hólmi önnur veiðarfæri á grunnslóð vegna þess hversu lítil áhrif hún hefur á lífríkið?
    Ráðherra er ekki kunnugt um hvort þess séu dæmi erlendis frá að dragnót leysi af hólmi önnur veiðarfæri á grunnslóð vegna þess hversu lítil áhrif hún hefur á lífríkið en telur þó að það kunni að vera einhvers staðar viðleitni í þá veru að leggja af keðjulögð, bjálka- og bómutroll sem skafa botninn harkalega og sem m.a. eru notuð í Norðursjó og víðar við strendur Evrópuríkja. Það er vitað að t.d. við Kanada er svæðisstjórnun þar sem leyfðar eru veiðar á botnlægum tegundum í ákveðinn tíma og þeim svæðum síðan lokað í marga mánuði eða ár áður en veiðar hefjast aftur í takmarkaðan tíma. Svæðunum er ætlað að jafna sig milli veiðitímabila með þessari stjórnun.

     7.      Hver yrðu áhrif fyrirhugaðra aðgerða á atvinnu og lífsafkomu þeirra sem aðgerðirnar beinast gegn?
    Fyrirhugaðar aðgerðir kunna að breyta veiðitíma skipanna en líklegt verður að telja að fiskur sem gengur inn á fjörð leiti út aftur, einkum á haustin þegar strandsjórinn kólnar, og verði veiðanlegur eftir að hafa tekið út aukinn vöxt á beitarslóðum innfjarða. Það er þannig með öllu óvíst að breytingarnar valdi verri afkomu þeirra sem dragnótaveiðar stunda þegar upp er staðið.

     8.      Hefur ráðherra kannað önnur verndunarúrræði en lokun sem væru ekki eins íþyngjandi fyrir bátaflotann?
    Ráðherra telur að þegar upp verði staðið eftir eitt til tvö ár verði þessi aðgerð til góðs og að botnfiskafli í utanverðum fjörðunum muni aukast þegar frá líður og þar með fiskgengd, bæði innan og utan þeirra friðunarlína sem nú eru lagðar til. Ráðherra vill koma á betri sátt um veiðar innan fjarða og flóa milli heimamanna og þeirra sem þangað vilja sækja til fiskveiða á bolfiski og flatfiski. Góð reynsla er fyrir hendi af lokun fjarða fyrir dregnum veiðarfærum. Við þá aðgerð sem hér er til umfjöllunar er tekið mið af þeirri reynslu en jafnframt er beitt meðalhófi hvað stærð svæðanna viðvíkur og þau alls ekki höfð stærri en þörf er á. Línurnar sem dregnar eru í mynni Seyðisfjarðar eru t.d. dregnar þannig að þær skaði sem minnst veiðar á steinbít og skarkola.
Neðanmálsgrein: 1
    1„Det generelle forbudet mot bruk av snurrevad innenfor fjordlinjene er begrunnet med at redskapet er utviklet til et meget effektivt redskap som primært bør nyttes på store vandrende bestander, og ut fra en bekymring for at det kan være vanskelig å gjennomføre et bærekraftig fiske på kystnære lokale bestander med snurrevad. Det er dessuten vist til at unntaksbestemmelser gir store utfordringer med hensyn til kontroll med at fisket foregår i samsvar med de fastsatte vilkår.“