Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 550. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1361  —  550. mál.




Svar



samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um fyrirhugaða starfsemi ECA á Íslandi.

     1.      Hverjir eru eigendur ECA? Hvernig er stjórn félagsins skipuð?
    Fyrirtækið E.C.A. Program Ltd. (ECA) er einkafyrirtæki, stofnað 2007, með aðsetur að 29 Avenue Monterey, L-2163 Lúxemborg. Forsvarsmaður þess er Meville Peter ten Cate CEO.

     2.      Hvers konar starfsemi er fyrirhuguð á vegum ECA á Íslandi?
    Fyrirtækið sérhæfir sig í borgaralegri þjónustu við hermálayfirvöld. Tilgangur þess er að bjóða NATO og ríkjum vinveittum NATO hvers konar aðstoð við herþjálfun. Hluti af áætlun ECA er að kaupa og leigja rússnesk-úkraínskar Sukhoi SU-30 þotur til að gegna hlutverki óvina á þessum æfingum. Umræddar þotur verða skráðar almennri skráningu sem borgaraleg loftför en í þeim verður enginn vopnabúnaður og þær verða útbúnar með vestrænum flugleiðsögubúnaði. Félagið hefur hug á að koma sér upp heimahöfn fyrir vélarnar hér með nauðsynlegri viðhaldsaðstöðu. Þá verður félagið að afla rekstrarleyfis hjá Flugmálastjórn Íslands eins og krafist er fyrir alla atvinnustarfsemi í flugi.

     3.      Hvenær hófust viðræður milli ECA og hins opinbera og að frumkvæði hvers hófust þær?
    Félagið hefur sjálft haft frumkvæði að athugun á möguleikum á staðsetningu hér á landi. Það setti sig í samband við íslenska aðila sl. vor og vetur til að kynna sér aðstæður hér á landi og kanna möguleika á Keflavíkurflugvelli sem heimahöfn fyrir starfsemina. Í framhaldinu hóf ECA þreifingar um aðstöðu á Keflavíkurflugvelli og óskaði jafnframt eftir því við Flugmálastjórn Íslands að stofnunin kannaði möguleika á skráningu og rekstri vélanna hér á landi.

     4.      Hver heldur utan um málið af hálfu hins opinbera og veitir upplýsingar um framvindu þess?
    Eins og áður kom fram hefur félagið sjálft haft frumkvæði að staðsetningu hér og rekur sitt mál sjálft en ekki opinberir aðilar. Þannig hefur það leitað til þeirra opinberra aðila sem varða einstaka þætti leyfisveitinga og aðstöðu. Hvað varðar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og stofnanir þess þá hefur fyrst og fremst reynt á skoðun Flugmálastjórnar Íslands á laga- og tæknilegu umhverfi og Keflavíkurflugvallar ohf. á aðstöðu þar. Skoðun Flugmálastjórnar miðaði að því að kannað forsendur starfseminnar og hvort og að hvaða marki hún félli að reglum á sviði flugmála, þ.e. hvort breyta þurfi lögum eða reglum hér á landi vegna starfseminnar og önnur almenn skilyrði þess að starfsemin yrði leyfð. Rétt er að undirstrika að hérlendar reglur eru speglun á samevrópsku regluverki á sviði flugmála. Aðkoma Keflavíkurflugvallar hefur fyrst og fremst lotið að möguleikum á kaupum, leigu eða uppbyggingu á eigin aðstöðu á flugvellinum
    Ráðuneytið hefur fylgst með vinnu Flugmálastjórnar en auk þess hafa starfsmenn þess hitt fulltrúa ECA í tengslum við þessa vinnu. Í byrjun nóvember 2009 vakti ráðuneytið athygli varnamálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins á áhuga fyrirtækisins á þessum rekstri og óskaði eftir því að kannaður yrði áreiðanleiki fyrirtækisins og hvort um hugsanlega öryggishagsmuni væri að ræða af viðskiptum við fyrirtækið.
    Flugmálastjóri sendi ráðherra bréf dags. 19. febrúar 2010 ásamt skýrslu um málið, Registration and operation of military aircraft on civil register, frá 15. febrúar 2010.
    Taka þarf afstöðu til þess hvort leggja eigi í umfangsmikila reglugerðasmíði til að móta nauðsynlega umgjörð um örugga starfsrækslu þessara loftfara og eftirlit með þeim eða ekki og fá til þess samþykki fjármálaráðuneytisins.

     5.      Hvenær er áformað að rekstur ECA hefjist á Íslandi? Á hvaða stigi er málið nú?
     6.      Er eftir að skera úr um einhver vafaatriði málsins vegna og ef svo er, hver eru þau?
    Með öllu er óljóst hvenær eða hvort starfsemi getur hafist en það ræðst m.a. af afstöðu fyrirtækisins sjálfs og hversu hratt það er tilbúið til rekstrar. Þá hefur ráðuneytið ekki tekið afstöðu til þess hvernig staðið verði að regluumhverfinu og eftirliti og jafnframt hvernig kostnaði vegna þessa verður mætt en hann verður væntanlega umtalsverður.
    Flugmálastjórn Íslands hóf skoðun málsins í nóvember 2009 og lauk henni í febrúar 2010 með skýrslu þar sem gerð er grein fyrir helstu atriðum sem máli skipta til þess að að fyrirtækið fái leyfi frá Flugmálastjórn Íslands til starfseminnar. Niðurstaða stofnunarinnar var að hún útilokar ekki að starfrækja megi loftför fyrirtækisins borgaralega með þeim hætti sem lagt er til, að nokkrum skilyrðum uppfylltum. Þessi skilyrði lúta aðallega að eftirfarandi:
          Fyrir liggi samningar um ábyrgð og eftirlit með lofthæfi og rekstri við þáttöku í heræfingum.
          Gefa þurfi út sérstakar reglur um starfsemina vegna sérhæfingar flugsins þar sem útfæra þarf flugöryggislegar og flugtæknilegar kröfur.
          Huga þurfi að „sérstöðu“ flugvélanna sem borgaralegra þegar flogið er milli ríkja.
          Sérhæfða sérfræðinga þurfi til starfa hjá stofnuninni til að hafa eftirlit með starfseminni og heimildir til að innheimta kostnað sem af þessari starfsemi hlýst.
          Hafa þurfi í huga hugsanleg þróun evrópsks regluverks með tilliti til þessarar starfsemi.
    Flugmálastjórn bendir í erindi sínu á að starfsemin sé áhugaverð og stuðli að því að efla íslensk flugmál og sé til þess fallin að skapa vinnu og tekjur. Síðast en ekki síst þarf, áður en lengra er haldið, að ljúka könnun á því hvort verkefnið hafi fylgi hjá stjórnvöldum, viðkomandi sveitarfélögum og flugvallarrekanda.
    Eftir að hafa kynnt sér aðstæður óskaði ECA, í byrjun október, eftir viðræðum við Keflavíkurflugvöll ohf. um aðstöðu. Komið hefur til álita að leigja aðstöðu í flugskýlum og byggingum sem þegar eru fyrir hendi. Þessar byggingar eru ekki sérstaklega hentugar og hefur áhugi ECA færst frá því að aðlaga eldri byggingar að sínum þörfum yfir í að fá lóðir fyrir nýjar byggingar.

     7.      Hvernig samræmist fyrirhuguð starfsemi ECA gildandi stjórnarsáttmála?
    Eins og fram kemur hér að framan er starfsemi ECA borgaraleg starfsemi og staðsetning hér á landi fyrst og fremst hugsuð til að skapa aðstöðu til skráningar, viðhalds og þjálfunar flugmanna á vélarnar. Ekki er lagt upp með að hér á landi verði skapaður sérstakur vettvangur heræfinga.
    Ríkisstjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir endurreisn efnahagslífsins, verndun starfa og sköpun nýrra, auk nýrra leiða í tekjuöflun ríkisins. Starfsemi eins og sú sem ECA hefur áhuga á hér á landi skapar störf, þ.m.t. sérhæfð hálaunastörf, er verðug viðbót við þá efnahagsstarfsemi sem fyrir er á Íslandi og skapar auk þess tekjur fyrir Keflavíkurflugvöll.