Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 626. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1403  —  626. mál.




Svar



dómsmála- og mannréttindaráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

     1.      Hvaða vinnuhópar, ef einhverjir eru, innan ráðuneytisins eða undirstofnana þess fjalla um málefni tengd umsókn um aðild að Evrópusambandinu?
    Innan dómsmálaráðuneytisins og/eða undirstofnana þess eru engir fastskipaðir vinnuhópar sem fjalla um málefni tengd umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Hins vegar hafa fimm starfsmenn ráðuneytisins verið tilnefndir sem fulltrúar þess í jafnmörgum samningahópum samninganefndar Íslands vegna aðildarviðræðna við Evrópusambandið, nánar tiltekið fulltrúar í samningahóp um utanríkisviðskipta-, utanríkis- og öryggismál, um dóms- og innanríkismál, um lagaleg málefni og loks EES-II um félagsmál, þjónustu, fjárfestingar, umhverfismál o.fl. Þessir fulltrúar ráðuneytisins leita samráðs, sérþekkingar og aðstoðar annarra starfsmanna ráðuneytisins og undirstofnana þess eftir atvikum.

     2.      Hversu margir starfsmenn má ætla að vinni að aðildarumsókninni innan ráðuneytisins og undirstofnana þess og hversu hátt hlutfall er það af heildarstarfsmannafjölda?
    Fjöldi starfsmanna hefur komið að vinnu við aðildarumsóknina, bæði innan ráðuneytisins sem og utan þess í undirstofnunum, og má áætla að það séu um 30–35 starfsmenn samtals. Starfsmenn hafa ekki skráð þá tíma sérstaklega sem fara í vinnu vegna aðildarumsóknarinnar, en ljóst er að umtalsverð vinna fór fram af hálfu starfsmanna ráðuneytisins og undirstofnana við gerð svara við spurningum sl. haust og vegna rýnivinnunnar. Má áætla að sú vinna hafi numið á að giska tveimur stöðugildum á ársgrundvelli. Hafa umræddir starfsmenn unnið þessi verkefni til viðbótar við sín venjubundnu verkefna án sérstakrar greiðslu fyrir.

     3.      Hvað er áætlað að ráðuneytið og undirstofnanir þess verji miklu fé, á þessu ári og því næsta, til vinnu vegna aðildarumsóknarinnar?
    Í tengslum við svör við spurningalistum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem bárust íslenskum yfirvöldum í september 2009, leitaði ráðuneytið álits tveggja sérfræðinga utan ráðuneytisins en alls var 400–450 spurningum, af þeim 2.300 sem heildarlistarnir innihéldu, beint til dómsmálaráðuneytisins. Þá var hin svokallaða rýnivinna á löggjöf Evrópusambandsins, þá sérstaklega á sviði dóms- og innanríkismála, afar viðamikil og tímafrek. Að öðru leyti hafa ekki verið bein fjárútlát í tengslum við aðildarumsóknina, nema þá starfshlutfall þeirra starfsmanna sem sinnt hafa vinnunni og um leið þurft að setja sín daglegu verkefni í bið á meðan eða unnið þau utan reglulegs vinnutíma en starfsmenn hafa ekki fengið sérstaklega greitt fyrir þá vinnu.

     4.      Hefur starfsmönnum í ráðuneytinu eða undirstofnunum þess verið fjölgað vegna aðildarumsóknarinnar og ef svo er, hve mörg stöðugildi er um að ræða?
    Starfsmönnum hefur ekki verið fjölgað, hvorki hjá ráðuneytinu né undirstofnunum þess, í tengslum við aðildarumsókn Íslands.

     5.      Hefur ráðuneytið keypt einhverja utanaðkomandi ráðgjöf vegna aðildarumsóknarinnar og ef svo er, af hverjum var sú ráðgjöf keypt og hversu mikill var kostnaðurinn við það?
    Eins og nefnt var hér að framan í svari við 3. tölul. leitaði ráðuneytið álits tveggja sérfræðinga utan ráðuneytisins í tengslum við svör við spurningalistum Evrópusambandsins. Umræddir sérfræðingar voru Björg Thorarensen prófessor og Símon Sigvaldason héraðsdómari. Ekki var greitt sérstaklega fyrir þá vinnu af hálfu ráðuneytisins.

     6.      Liggur fyrir hvaða skipulagsbreytingar á stjórnsýslu þeirri sem undir ráðuneytið heyrir þurfa að vera komnar til framkvæmda áður en til aðildar kemur til að uppfylla kröfur Evrópusambandsins? Óskað er eftir upplýsingum um breytingar sem eru fyrirsjáanlegar þrátt fyrir að heildarumfang þeirra liggi ekki fyrir.
    Ekki er sérstök þörf á skipulagsbreytingum í ráðuneytinu vegna aðildarumsóknarinnar. Skipulagsbreytingar eru ekki fyrirsjáanlegar vegna hennar.