Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 478. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1416  —  478. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á stórfelldu skattundanskoti.

     1.      Hvert er áætlað umfang afleiðu- og gjaldmiðlasamninga á íslenskum bankamarkaði frá einkavæðingu ríkisbankanna tveggja?
    
Umbeðnar upplýsingar um áætlað umfang afleiðu- og gjaldmiðlasamninga á íslenskum bankamarkaði frá einkavæðingu ríkisbankanna tveggja liggja hvorki fyrir hjá fjármálaráðuneyti né skattrannsóknarstjóra, eða hjá öðrum opinberum aðila eftir því sem næst verður komist. Við vinnu starfshóps á vegum skattyfirvalda sem settur var á fót í októbermánuði 2009 var aftur á móti aflað upplýsinga um afleiðuviðskipti á árunum 2006 til og með 2008 með milligöngu banka og fjármálastofnana, þar á meðal starfsmanna, tengdra aðila og annarra viðskiptamanna þeirra. Þá var jafnframt skoðað hvort haldið hefði verið eftir fjármagnstekjuskatti af hugsanlegum hagnaði viðskiptamanna líkt og lögboðið er. Í ljós hefur komið að bankar og fjármálastofnanir stóðu skattyfirvöldum ekki skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af þeim hagnaði, þó að undanskildum einum banka að því er varðar staðgreiðslu af ákveðinni tegund afleiðuviðskipta. Jafnframt liggur fyrir að margir viðskiptavinir bankanna létu hjá líða að gera skattyfirvöldum grein fyrir umræddum viðskiptum á skattframtölum sínum og virðist hagnaður vegna þessa því að mestu leyti vera óskattlagður. Frekari úrvinnsla gagna stendur yfir hjá embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins um þessar mundir. Á þessu stigi liggur ekki fyrir hvert er umfang skattundanskota vegna þessa í krónum talið en ljóst þykir að um verulegar fjárhæðir sé að ræða.

     2.      Hvert er áætlað umfang kaupréttarsamninga á íslenskum bankamarkaði frá einkavæðingu ríkisbankanna tveggja?
    
Umbeðnar upplýsingar um áætlað umfang kaupréttarsamninga á íslenskum bankamarkaði frá einkavæðingu ríkisbankanna tveggja liggja hvorki fyrir hjá fjármálaráðuneyti né skattrannsóknarstjóra, eða hjá öðrum opinberum aðila eftir því sem næst verður komist. Í þessu sambandi er þó rétt að nefna að staðgreiðslu- eða skattskil vegna kaupréttarsamninga virðast hafa verið í betra lagi en í tilviki afleiðu- og gjaldmiðlasamninga.

     3.      Hvert er áætlað umfang niðurfellingar ábyrgða og afskrifta lána til fyrrum starfsmanna og stjórnenda fjármálafyrirtækja frá einkavæðingu ríkisbankanna tveggja?
    
Umbeðnar upplýsingar um áætlað umfang niðurfellingar ábyrgða og afskrfta lána til fyrrum starfsmanna og stjórnenda fjármálafyrirtækja frá einkavæðingu ríkisbankanna tveggja liggja hvorki fyrir hjá fjármálaráðuneyti né skattrannsóknarstjóra, eða hjá öðrum opinberum aðila eftir því sem næst verður komist.

     4.      Hvaða fjármagn hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins til ráðstöfunar til að sinna rannsóknum á hugsanlegum ógreiddum sköttum vegna afleiðu-, gjaldmiðla- og kaupréttarsamninga, niðurfellinga ábyrgða, greiðslna á einkakostnaði eigenda og stjórnenda og afskrifta lána?
    
Fjármagn til reksturs embættis skattrannsóknarstjóra ríkisins er veitt samkvæmt heimild á fjárlögum. Í októbermánuði síðastliðnum var settur á fót starfshópur undir stjórn skattrannsóknarstjóra ríkisins til að rannsaka hugsanleg brot á skattalögum í tengslum við hrun bankanna og í aðdraganda þess. Var hópurinn skipaður þremur starfsmönnum frá embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins, tveimur frá ríkisskattstjóra, tveimur frá skattstjóranum í Reykjavík og einum frá skattstjóranum á Reykjanesi. Veitt var viðbótarfjármagn vegna þess rekstrarkostnaðar embættisins sem fylgdi óhjákvæmilega verkefninu.
    Í mars sl. samþykkti síðan ríkisstjórnin, að fenginni tillögu frá fjármálaráðherra, að fela stofnunum skattkerfisins að vinna áfram að þessu verkefni af fullum krafti. Ljóst var að það yrði ekki gert án verulegs viðbótarkostnaðar eða sem samsvaraði a.m.k. 20 ársverkum, sem til lengri tíma litið mundi hins vegar skila sér margfalt í auknum skatttekjum. Í ljósi þessarar samþykktar hefur verið ákveðið að fjölga starfsmönnum hjá embætti skattrannsóknarstjóra um a.m.k. þrettán stöðugildi og fær embættið viðbótarfjármagn í samræmi við það. Embætti ríkisskattstjóra mun einnig fá aukið fé til skyldra verkefna.

     5.      Hversu margt starfsfólk hefur skattrannsóknarstjóri til að sinna rannsóknum á hugsanlegum ógreiddum sköttum vegna afleiðu-, gjaldmiðla- og kaupréttarsamninga, niðurfellinga ábyrgða, greiðslna á einkakostnaði eigenda og stjórnenda og afskrifta lána?
    
Starfsmenn embættis skattrannsóknarstjóra ríkisins eru nú 21 talsins. Áætlað er að starfsmönnum fjölgi um allt að þrettán á næstu vikum. Munu 10–15 starfsmenn sinna áframhaldandi vinnu við áðurgreint verkefni og rannsóknum mála vegna ætlaðra skattundanskota í tengslum við hrun bankanna.

     6.      Hefur skattrannsóknarstjóri fengið auknar fjárveitingar eða fjölgað starfsfólki eftir hrun bankanna haustið 2008?
    
Sjá svar við 4. lið fyrirspurnarinnar hér að framan.

     7.      Hversu margir munu starfa við sérstakan starfshóp um skattundanskot í fjármálakerfinu og hversu mikið fjármagn munu þeir hafa til ráðstöfunar?
    
Sjá svar við 5. lið fyrirspurnarinnar hér að framan.

     8.      Hversu mörgum málum hefur verið vísað til skattrannsóknarstjóra frá skila- og slitastjórnum föllnu bankanna frá október 2008?

    Engu máli hefur enn verið vísað til skattrannsóknarstjóra ríkisins frá skila- og slitastjórnum föllnu bankanna frá október 2008.