Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 657. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1431  —  657. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Birgis Ármannssonar um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra.

     1.      Hvaða réttarreglur, skráðar og óskráðar, gilda að íslenskum rétti um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi?
    Upplýsingaréttur þingmanna er tryggður í 54. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, sbr. 49. gr. þingskapalaga, nr. 55/1991, og ber ráðherra að svara spurningum þingmanna í samræmi við þau lagaákvæði sem um ræðir. Greinarmun þarf hins vegar að gera annars vegar á þessum rétti þingmanna og hins vegar sjálfstæðri upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart Alþingi. Hvorki í stjórnarskránni né þingskapalögum er fjallað almennt um upplýsinga- eða sannleiksskyldu ráðherra. Þá eru ekki ákvæði í lögum um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, sem lúta beint að upplýsinga- eða sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi.
    Í 1. mgr. 36. gr. þingskapalaga er þó fjallað um að lagafrumvörpum skuli fylgja greinargerð um tilgang þess og skýringu á höfuðákvæðum. Er þetta ákvæði þingskapalaga eina ákvæðið, að því er virðist, sem kveður beinlínis á um upplýsingaskyldu af hálfu ráðherra og er þá gerður skýr greinarmunur annars vegar á upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart Alþingi, þ.e. að ráðherra sé skylt að veita upplýsingar án þess að óskað sé eftir þeim, og hins vegar upplýsingarétti þingmanna sem tryggður er í 54. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, sbr. 49. gr. þingskapalaga og 46. gr. sömu laga þar sem kveðið er á um að tiltekinn fjöldi þingmanna geti óskað skýrslu ráðherra um opinbert málefni.
    Meira álitamál er hins vegar hvort sjálfstæð upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra gagnvart Alþingi megi leiða af öðrum óskráðum réttarheimildum, svo sem meginreglum laga eða eðli máls. Er í þessu sambandi vert til nánari upplýsinga að benda á nýlega grein eftir Ásmund Helgason, fyrrverandi aðallögfræðing Alþingis og núverandi héraðsdómara, um upplýsingaskyldu ráðherra við Alþingi sem birtist í 3. hefti Tímarits lögfræðinga árið 2009.

     2.      Hvaða viðurlög eru við brotum á slíkri skyldu?
    Þrátt fyrir að ákvæði laga um ráðherraábyrgð lúti ekki beint að upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart Alþingi kemur fram í a-lið 10. gr. að ráðherra geti talist sekur samkvæmt lögunum ef hann misbeitir stórlega valdi sínu þrátt fyrir að hann fari ekki beinlínis út fyrir embættismörk sín. Um er að ræða flokk embættisbrota sem er bæði mjög víðtækur og matskenndur. Í þennan flokk falla brot ráðherra sem hvorki fela í sér brot á stjórnarskrá né öðrum landslögum. Álitamál er hvort upplýsinga- eða sannleiksskylda ráðherra gagnvart Alþingi falli þar undir. Er í þessu sambandi vert að benda á nýlega grein eftir Andra Árnason hæstaréttarlögmann um ráðherraábyrgð sem einnig birtist í 3. hefti Tímarits lögfræðinga árið 2009.

     3.      Telur ráðherra tilefni til að breyta þessum reglum, skýra þær eða eftir atvikum herða þær?
    Ráðherra telur rétt að vekja athygli á nýsamþykktum breytingum á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, þar sem kveðið er á um að forsætisráðherra staðfesti siðareglur fyrir ráðherra ríkisstjórnar sinnar í kjölfar samráðs á ráðherrafundi. Telur ráðherra það mikilvægt skref fram á við að ráðherrum séu settar siðareglur til að tryggja að þeir starfi af heilindum.
    Þá kemur fram í skýrslu starfshóps forsætisráðherra um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá maí sl. að rétt sé að lögfesta með skýrari hætti frumkvæðisskyldu ráðherra gagnvart málaflokkum og stofnunum sem undir hann heyra og aðrar skyldur, svo sem upplýsinga- og sannleiksskylduna. Hvað upplýsinga- og sannleiksskylduna varðar er einkum um að ræða samskipti við Alþingi. Ráðherra deilir afstöðu starfshópsins um þetta efni og mun beita sér fyrir því að þessi atriði verði tekin til skoðunar m.a. við fyrirhugaða endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands og endurskoðun laga um ráðherraábyrgð, sbr. tillögu til þingsályktunar um heildarendurskoðun á lögum um landsdóm og lögum um ráðherraábyrgð sem ráðherra flutti ásamt fleirum á 131. löggjafarþingi. Einnig kann að mati ráðherra að vera ástæða til breytinga á þingskapalögum í þessu sambandi.