Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 658. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1490  —  658. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta allsherjarnefndar.



    Annar minni hluti allsherjarnefndar ítrekar andstöðu sína við frumvarpið og áréttar að ekki hafa komið fram svör við gagnrýni sem fram kom í áliti undirritaðra milli 1. og 2. umræðu (þskj. 1467). Þá tekur 2. minni hluti eindregið undir þau sjónarmið sem fram koma í sameiginlegu áliti fulltrúa Sjálfstæðisflokks í heilbrigðisnefnd og félags- og tryggingamálanefnd, sbr. fylgiskjal.

Alþingi, 9. sept. 2010.



Birgir Ármannsson,


frsm.


Ólöf Nordal.




Fylgiskjal.



Álit



um frv. til l. um breyt. á l. um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969 (658. mál).

Frá minni hluta félags- og tryggingamálanefndar og heilbrigðisnefndar.



    Alþekkt er að bæta þarf íslenska stjórnsýslu. Ábyrgð og hlutverk einstaka ráðuneyta og stofnana er ekki nægjanlega skýr. Ákvarðanataka er oft óljós og stefnumótun ábótavant svo eitthvað sé nefnt. Margar stofnanir eru of vanmáttugar og það sama á við um sum ráðuneytin. Bankahrunið og eftirmálar þess hafa verðskuldað dregið athygli að þessu vandamál.
    Ekkert í þessu frumvarpi tekur á þeim vandamálum sem uppi eru í íslenskri stjórnsýslu og var þó þörfin brýn og tækifærin mörg. Breytingarnar hafa ekki verið undirbúnar og engin gögn eða vinna hefur farið fram til að undirbyggja málið.
    Ekkert tillit hefur verið tekið til athugasemda rannsóknarnefndar Alþingis og ekki er beðið eftir niðurstöðum og tillögum frá þingmannanefndinni. Þess í stað setti forstætisráðherra vinnuhóp þvert ofan í vinnu þingmannanefndarinnar undir forustu síns trúnaðarmanns og án aðkomu annarra. Það er athyglisvert að stjórnarmeirihlutinn skuli telja eðlilegt að gengið verði fram hjá þinginu með þessum hætti. Stóru orðin um aukið sjálfstæði þingsins og bætt vinnubrögð á vettvangi þess eru í ljósi þessara vinnubragða fyrst og fremst orð.
     Hlutverk hóps forsætisráðherra er að koma með tillögur um úrbætur í stjórnkerfinu. Svo kaldhæðnislega vill til að vinnuhópurinn gagnrýnir sams konar vinnubrögð og viðhöfð eru í þessu máli harðlega og leggur áherslu á mikilvægi vandaðra úttekta sem undanfara meiri háttar opinberrar stefnumótunar.
    Fagstéttir í heilbrigðis- og félagsþjónustu, sjúklingasamtök og þau samtök sem eiga samskipti við félagsmálaráðuneytið fengu ekki aðkomu að þessu máli en norræna velferðarstjórnin hleypti þeim stéttum sem eiga samskipti við önnur ráðuneyti að með álit. Niðurstaðan er að ekki er farið í stofnun atvinnuvegaráðuneytis vegna andstöðu hagsmunaaðila en farið er í að sameina stærstu ráðuneytin félags- og tryggingamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti í eitt ráðuneyti, sem mun hafa um 50% af ríkisútgjöldum, ef frá eru dregin vaxtagjöld ríkissjóðs. Örsmáu ráðuneytin starfa hins vegar áfram óbreytt. Fyrirhugað samráð sem ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu í greinargerð með frumvarpinu að yrði í sumar var svikið.
    Í greinargerð með frumvarpinu, sem er það eina sem liggur fyrir í þessu máli, eru meinlegar staðreyndarvillur sem er enn ein staðfesting á því að ekki hefur verið vandað til verka. Engin gögn eru lögð til grundvallar fyrirætlunum um sameiningu ráðuneyta, stofnana eða tilfærslu verkefna sem boðað er í frumvarpi. Þessi ríkisstjórn hefur komið í veg fyrir sameiningu stofnana og tilfærslu verkefna sem leitt hefði til hagræðingar. Þessi ríkisstjórn hefur á þeim tveimur árum sem hún hefur starfað ekki unnið að undirbúningi að hagræðingu og bættum vinnubrögðum í stjórnkerfinu. Þess í stað eru pólitísk hrossakaup látin ráða ferðinni. Þetta frumvarp er skýrt dæmi um það og stjórnarþingmenn spila með. Settur er fram grófur rammi að breytingunum og framkvæmdarvaldinu falið að fylla upp í hann. Það telur minni hlutinn mjög varasamt og getur ekki stutt þetta mál.

9. sept. 2010.



Guðlaugur Þór Þórðarson,
Pétur H. Blöndal,
Óli Björn Kárason,
Ragnheiður E. Árnadóttir.