Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 684. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1512  —  684. mál.




Svar



dómsmála- og mannréttindaráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um endurskoðun reglna um forsjá barna, búsetu og umgengni.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hyggst ráðherra leggja fram frumvarp til breytinga á barnalögum um forsjá barna, búsetu þeirra og umgengni í samræmi við tillögur nefndar sem skipuð var til að fara yfir lögin og skilaði ráðherra tillögum í janúar á þessu ári, og ef svo er, hvenær verður það lagt fram?
     2.      Hyggst ráðherra leggja til breytingar á heimildum dómara í forsjármálum í þá veru að þeim verði veitt heimild til að ákveða að foreldrar skuli fara sameiginlega með forsjá barns, þótt annað foreldra sé því andvígt, þ.e. ef dómari telur þær aðstæður fyrir hendi að sameiginleg forsjá geti þjónað hagsmunum barns?


    Endurskoðun reglna barnalaga um forsjá barna, búsetu og umgengni hefur verið til meðferðar innan ráðuneytisins um nokkurt skeið. Nefnd undir forustu Hrefnu Friðriksdóttur, lektors við lagadeild Háskóla Íslands, var í desember 2008 falið að endurskoða fyrrgreindar reglur og gera tillögur að úrbótum væri þeirra þörf að mati nefndarinnar. Nefndin skilaði af sér tillögum í frumvarpsformi til þáverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra í janúar sl.
    Tillögur nefndarinnar voru kynntar á vef ráðuneytisins og bárust í kjölfarið nokkrar athugasemdir og ábendingar sem farið hefur verið yfir af sérfræðingum ráðuneytisins og formanni nefndarinnar.
    Í frumvarpsdrögunum, sem eru ítarleg og vel unnin, eru lagðar til ýmsar veigamiklar breytingar á ákvæðum gildandi barnalaga og um margar þeirra má reikna með að ríki einhugur en um aðrar eru skiptar skoðanir. Þannig eru skiptar skoðanir um það úrræði sem nefnt er í 2. tölul. fyrirspurnarinnar, þ.e. heimild til handa dómara að ákveða, gegn vilja annars foreldris, að foreldrarnir eigi að fara sameiginlega með forsjá barns síns.
    Sameiginleg forsjá felur í sér að foreldrum ber að hafa samráð um málefni barns og taka sameiginlega meiri háttar ákvarðanir um málefni þess. Langalgengast er að foreldrar kjósi að fara saman með forsjá barna sinna í kjölfar skilnaðar og sambúðarslita en spurningarmerki hefur verið sett við hvort rétt sé að veita dómstólum heimild til að fyrirskipa foreldrum að hafa þá samvinnu sem sameiginleg forsjá felur í sér.
    Hagsmunir barnsins eiga ávallt að ráða för þegar dómari ákveður forsjá þess. Þegar dómari hefur heimild til að dæma sameiginlega forsjá verður hann að ganga tryggilega úr skugga um að foreldrarnir hafi raunverulega möguleika á að vinna saman að málefnum barns barninu til hagsbóta. Ýmsir þættir geta haft áhrif á möguleika á slíkri samvinnu. Má þar nefna ef annað foreldri hefur beitt hitt ofbeldi meðan á sambúð eða hjónabandi stóð og jafnvel eftir að því lauk. Í athugasemdum við umrætt frumvarp er skýrt tekið fram að ofbeldi og vanvirðandi háttsemi á heimili barns hafi almennt skaðlegar afleiðingar fyrir andlega og líkamlega heilsu barns og þroska þess í víðum skilningi. Þetta eigi ekki einungis við um ofbeldi sem hefur beinst eða beinist að barninu sjálfu heldur einnig allt ofbeldi milli einstaklinga í nánum samböndum á heimili barnsins, svo sem ofbeldi milli foreldra eða ofbeldi gagnvart systkinum barns. Í þessu samhengi reynir mjög á mat og þekkingu dómara á ofbeldi sem á sér stað innan veggja heimilis.
    Í þessu sambandi má geta þess að eftir lögfestingu heimildar dómara til að dæma sameiginlega forsjá í Svíþjóð 1998 kom í ljós að brögð voru að því að sameiginleg forsjá væri dæmd í málum þar sem ásakanir voru uppi um ofbeldi og augljóst að ekki væru líkur á að foreldrar gætu unnið saman að málefnum barns. Lögin voru endurskoðuð 2006 og ríkari áhersla lögð á að hagsmunir barnsins yrðu að vera í öndvegi við úrlausn mála auk þess sem nauðsynlegt væri að skoða sérhvert mál vandlega.
    Í Danmörku var dómurum veitt heimild til að dæma sameiginlega forsjá með lögum sem tóku gildi 1. október 2007. Danir horfðu m.a. til reynslu Svía á sínum tíma og ákváðu að fara skyldi fram rannsókn á öllum forsjármálum sem færu fyrir dómstóla 2009 og 2010 með það fyrir augum að meta hvernig hin nýju lög reyndust foreldrum og börnum. Niðurstöðu er að vænta fljótlega.
    Í þessum efnum ber að stíga varlega til jarðar og er æskilegt að reynsla Dana verði ljós þegar ákvörðun er tekin um hvort leggja skuli til að dómurum verði veitt heimild til að dæma sameiginlega forsjá hér á landi. Þá ber að líta til þess að í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um ráðgjöf og sáttameðferð sem ætlað er að hjálpa foreldrum að leysa úr ágreiningsmálum með hagsmuni barns að leiðarljósi. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að rannsóknir sýni að sáttameðferð eða sáttamiðlun sé til þess fallin að leysa stærstan hluta ágreiningsmála milli foreldra sem ella þyrfti að leysa með úrskurði eða dómi. Þykir rétt fá nokkra reynslu á hin nýju úrræði áður en lengra er haldið.
    Í frumvarpinu er að finna veigamiklar umbætur í þágu barna og foreldra. Má þar nefna nýjan kafla um réttindi barns sem tekur mið af meginreglum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, skýrari afmörkun á hlutverkum foreldra, breytingar á reglum um forsjá stjúpforeldra, skýrari ákvæði um umgengnisrétt o.fl. Mikilvægt er að þær breytingar nái fram að ganga og því er stefnt að því að leggja frumvarpið fram á komandi þingi í breyttri mynd.