Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 677. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1517  —  677. mál.




Svar



samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar um girðingar meðfram vegum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig er háttað reglum um girðingar meðfram vegum, þ.e. um stofnkostnað, hreinsun, viðhald og greiðslur til jarðareigenda? Gilda mismunandi reglur um girðingar við stofnbrautir (hringveginn sem aðrar stofnbrautir) og við aðra vegflokka? Óskað er eftir yfirliti sundurliðuðu eftir umdæmum Vegagerðarinnar vegna mismunandi útfærslu milli svæða.

    Í gildi er reglugerð nr. 325/1995, um girðingar með vegum, sem sett var með stoð í eldri vegalögum, nr. 45/1994, sbr. núgildandi lög nr. 80/2007, en nokkur ákvæði er einnig að finna í lögunum sjálfum er varða þetta atriði. Vegagerðin og ráðuneytið hafa unnið að breytingum á þessari reglugerð en þeirri vinnu er ekki að fullu lokið.

Stofnkostnaður girðinga.
    Skv. 51. gr. laga nr. 80/2007, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 325/1995, skal veghaldari girða báðum megin vegar sem lagður er gegnum tún, ræktarland, engjar eða girt beitiland eða leggja til ristarhlið ásamt grindarhliði telji hann það hentugra. Vegagerðin er veghaldari þjóðvega, sbr. a-lið 1. mgr. 5. gr. laganna. Veghaldara er enn fremur heimilt að girða meðfram vegum sínum, m.a. til að tryggja umferðaröryggi, og að taka þátt í stofnkostnaði girðinga sem reistar eru til að friða svæði og er þá gert að skilyrði að viðkomandi sveitarfélag banni lausagöngu búfjár á hinu friðaða svæði. Eins og sjá má er hugsanlegt að Vegagerðin greiði að fullu eða taki þátt í stofnkostnaði girðinga með þjóðvegum, án tillits til þess í hvaða vegflokk þjóðvegur telst falla hverju sinni, svo fremi sem framangreind skilyrði laganna eru uppfyllt.
    Vegagerðin setur sér sérstakar vinnureglur um greiðslu girðingarkostnaðar með þjóðvegum og eru þær uppfærðar reglulega og bornar undir Bændasamtök Íslands áður en þær taka gildi, sbr. það sem fram kemur hér síðar varðandi kostnað við viðhald girðinga. Í gildi eru vinnureglur frá 3. september 2009, Orðsending nr. 5/2009, um áætlaðan stofnkostnað girðinga og greiðslu viðhaldskostnaðar girðinga með stofn- og tengivegum, sjá fylgiskjal. Eru þar tilgreindar viðmiðunarfjárhæðir fyrir girðingarkostnað sem reiknaðar eru út af Vegagerðinni miðað við upplýsingar um meðalverðlag hverju sinni. Kostnaði er skipt eftir því hvort um er að ræða netgirðingu með gaddavír og járnstaurum, netgirðingu með gaddavír og tréstaurum, rafmagnsgirðingu með plaststaurum eða rafmagnsgirðingu með harðviðarstaurum. Er enn fremur gert ráð fyrir meiri kostnaði ef aðstæður á girðingarstað eru erfiðar.

Viðhaldskostnaður girðinga.
    Skv. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 80/2007, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 325/1995, er meginreglan sú að landeigandi annist hverju sinni viðhald girðinga með vegum í landi sínu. Sveitarfélög skulu síðan hafa eftirlit með viðhaldi girðinga í sínum umdæmum og er heimilt að gera endurbætur á girðingu eða fjarlægja þær á kostnað landeiganda ef viðhaldi telst vera ábótavant eða girðing bersýnilega óþörf en sveitarfélög annast viðhald girðinga sem reistar eru til að friða svæði sem vegur liggur um og girðingar með vegum þar með ónauðsynlegar, sbr. 2. mgr. 52. gr. laganna, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 325/1995.
    Viðhaldskostnaður girðinga með stofnvegum og tengivegum greiðist að jöfnu af veghaldara og landeiganda, sbr. 3. mgr. 52. gr. laga nr. 80/2007, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 325/1995. Viðhaldskostnaður girðinga með öðrum vegum greiðist af landeiganda hverju sinni, sbr. 4. mgr. 52. gr. laganna. Skv. 3. gr. reglugerðarinnar, skal uppgjör vegna kostnaðarþátttöku veghaldara við það miðað að viðhaldskostnaður nemi 4% af stofnkostnaði girðinga. Þó skuli miðað við að viðhaldskostnaður nemi allt að 7% af stofnkostnaði í erfiðu girðingalandi eða vegna snjóþyngsla og skal slíkt metið af fulltrúa Bændasamtaka Íslands og veghaldara. Stofnkostnaður girðinga skal ákveðinn árlega með samkomulagi Bændasamtaka Íslands og Vegagerðarinnar, sbr. það sem fram kemur hér að framan, um vinnureglur Vegagerðarinnar, sbr. gildandi reglur Orðsending nr. 5/2009, um áætlaðan stofnkostnað girðinga og greiðslu viðhaldskostnaðar girðinga með stofn- og tengivegum, sjá fylgiskjal.
    Þegar landeigandi hefur lokið árlegu viðhaldi girðinga með stofnvegum og tengivegum, skal hann tilkynna það til viðkomandi sveitarstjórnar sem sannreynir ásamt veghaldara að viðhald sé fullnægjandi áður en greiðsla á hlut veghaldara er innt af hendi. Vegagerðin getur, í samráði við sveitarfélag og landeiganda, ákveðið að annast og kosta viðhald girðinga með einstökum köflum stofn- og tengivega, enda sé lausaganga búfjár á viðkomandi vegarkafla bönnuð. Ef girðing er eingöngu reist til að halda búfé frá vegsvæði, svo sem á afréttum og öðrum sameiginlegum sumarbeitilöndum búfjár skal veghaldari greiða allan viðhaldskostnaðinn, sbr. 5. og 6. mgr. 52. gr. laganna. Viðkomandi sveitarfélag annast viðhald girðinga sem reistar eru til að friða svæði þar sem lausaganga búfjár er bönnuð, sbr. 7. mgr. 52. gr., sbr. 3. mgr. 51. gr. laga nr. 80/2007.
    Yfirlit yfir girðingarkostnað flokkað eftir svæðisskiptingu Vegagerðarinnar er eftirfarandi:

Suðvestursvæði.
    Engar nýjar girðingar voru settar upp á suðvestursvæði Vegagerðarinnar á árunum 2007– 2009.
    Á árunum 2007–2009 greiddi Vegagerðin 1.517.329 kr. vegna þátttöku í viðhaldskostnaði girðinga meðfram stofn- og tengivegum.

Norðvestursvæði.
    Stofnkostnaður girðinga meðfram stofn- og tengivegum var 17.527.917 kr. árið 2007, 37.874.590 kr. árið 2008 og 37.486.322 kr. árið 2009. Kostnaðarþátttaka Vegagerðarinnar vegna viðhalds girðinga meðfram stofn- og tengivegum á sama svæði var 31.476.731 kr. árið 2007, 41.051.068 kr. árið 2008 og 38.315.679 kr. árið 2009.

Suðursvæði.
    Stofnkostnaður girðinga meðfram þjóðvegum á suðursvæði Vegagerðarinnar var 27.553.559 kr. árið 2007, 35.225.206 kr. árið 2008 og 41.267.503 kr. árið 2009. Kostnaðarþátttaka Vegagerðarinnar vegna viðhalds girðinga meðfram stofn- og tengivegum á sama svæði var 2.532.524 kr. árið 2007, 4.829.106 kr. árið 2008 og 5.880.334 kr. árið 2009.

Norðaustursvæði.
    Stofnkostnaður girðinga meðfram þjóðvegum á norðaustursvæði Vegagerðarinnar var 4.258.498 kr. árið 2007, 17.336.363 kr. árið 2008 og 16.365.625 kr. árið 2009. Kostnaðarþátttaka Vegagerðarinnar vegna viðhalds girðinga meðfram stofn- og tengivegum á sama svæði var 6.623.581 kr. árið 2007, 12.298.838 kr. árið 2008 og 10.192.147 kr. árið 2009.


Fylgiskjal.



Áætlaður stofnkostnaður girðinga 2009.


Efni Vinna Alls
Gerð girðingar kr./km kr./km kr./km
1. Net, gaddavír, járnstaurar með 4 m millibili 648.397 238.488 886.885
2. Net, gaddavír, tréstaurar með 4 m millibili 347.293 238.488 585.781
3. Háspennt rafgirðing, plaststaurar 380.631 100.044 480.675
4. Háspennt rafgirðing, harðviðarstaurar 298.664 100.044 398.708
Fyrrgreindar tölur eru með 24,5% virðisaukaskatti.

    Miðað er við að aðstæður á girðingarstað séu fremur góðar. Ekki er talinn með kostnaður við að jafna girðingarstæði, flutningur á efni að girðingarstæði og vinna við undirbúning. Er því heimilt að hækka framangreindar tölur um allt að 15% til þess að mæta kostnaði við þá liði.
    Ath. rafgirðingu skal ekki reisa nema með samþykki landeiganda og ábúanda.

Áætlaður viðhaldskostnaður girðinga.


    Um viðhaldskostnað girðinga með vegum er fjallað í vegalögum, nr. 80/2007, og reglugerð nr. 325/1995.
    52. gr. vegalaga fjallar um framkvæmd viðhalds girðinga og kostnaðarskiptingu og er svohljóðandi:
    „Landeigandi skal annast viðhald girðinga með vegum í landi sínu.
    Sveitarfélag hefur eftirlit með viðhaldi girðinga í sveitarfélaginu og er heimilt að gera endurbætur á girðingu eða fjarlægja á kostnað landeiganda ef viðhaldi er ábótavant eða girðing bersýnilega óþörf.
    Viðhaldskostnaður girðinga með stofnvegum og tengivegum greiðist að jöfnu af veghaldara og landeiganda.
    Viðhaldskostnaður girðinga með öðrum vegum greiðist af landeiganda.
    Vegagerðin getur að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélag og landeiganda ákveðið að annast og kosta viðhald girðinga með einstökum köflum stofn- og tengivega, enda sé lausaganga búfjár á viðkomandi vegarkafla bönnuð.
    Þó skal veghaldari greiða allan viðhaldskostnað ef girðingin er reist eingöngu til þess að fría vegsvæði frá búfé, svo sem á afréttum og öðrum sameiginlegum sumarbeitilöndum búfjár. Viðkomandi sveitarfélag annast viðhald girðinga sem reistar eru skv. 3. mgr. 51. gr. og er heimilt að semja við veghaldara um viðhaldið.“
    1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 325/1995, um girðingar með vegum er svohljóðandi:
    „Viðhaldskostnaður girðinga með stofnvegum og tengivegum greiðist að jöfnu af veghaldara og landeiganda. Við uppgjör vegna kostnaðarþátttöku veghaldara skal við það miðað að viðhaldskostnaður nemi 4% af stofnkostnaði girðinga. Þó skal miða við að viðhaldskostnaður nemi allt að 7% af stofnkostnaði í erfiðu girðingalandi eða vegna snjóþyngsla og skal slíkt metið af fulltrúa Bændasamtaka Íslands og veghaldara. Stofnkostnaður girðinga skal ákveðinn árlega með sérstöku samkomulagi Bændasamtaka Íslands og Vegagerðarinnar. Þegar landeigandi hefur lokið árlegu viðhaldi girðinga með stofnvegum og tengivegum skal hann tilkynna það til sveitarstjórnar sem sannreynir ásamt veghaldara að viðhald sé fullnægjandi áður en greiðsla á hlut veghaldara er innt af hendi, þ.e. 2% eða allt að 3,5% af stofnkostnaði girðinga samkvæmt ákvæðum þessarar málsgreinar.“
    Dæmi um greiðslur til landeiganda fyrir viðhald girðinga með stofnvegum og tengivegum er eftirfarandi.

     Kostnaðarhlutdeild veghaldara við viðhald girðinga
eftir gerðum og aðstæðum kr./km.

Fremur erfiðar Erfiðar Mjög erfiðar Venjulegar
Gerð girðingar/aðstæður 2 % 2,5% 3,0% 3,5%
1. Net, gaddavír, járnstaurar 17.738 22.172 26.607 31.041
2. Net, gaddavír, tréstaurar 11.716 14.645 17.573 20.502
3. Hápennt rafgirðing, plaststaurar 9.614 12.017 14.420 16.824
4. Háspennt rafgirðing, harðviðarstaurar 7.974 9.968 11.961 13.955

    Samkvæmt áliti ríkisskattstjóra eru greiðslur fyrir viðhald girðinga ekki endurgjald fyrir selda vöru eða þjónustu og teljast ekki til virðisaukaskattsskyldrar veltu.
    Orðsendingin gildir frá 1. september 2009.