Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 21. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 21  —  21. mál.




Fyrirspurn



til efnahags- og viðskiptaráðherra um skuldastöðu sjávarútvegsins og meðferð sjávarútvegsfyrirtækja hjá lánastofnunum.

Frá Ólínu Þorvarðardóttur.



     1.      Hver er skuldastaða íslenskra útgerðarfyrirtækja hjá bönkunum annars vegar og Byggðastofnun hins vegar?
     2.      Hve mikið hefur verið afskrifað af skuldum útgerðarinnar hjá bönkunum og hjá Byggðastofnun?
     3.      Eru til verklagsreglur í bönkunum og í Byggðastofnun um afskriftir á skuldum sjávarútvegsfyrirtækja og hverjar eru þær?
     4.      Hafa lán sjávarútvegsfyrirtækja verið fryst eftir bankahrunið hjá bönkunum og Byggðastofnun? Hvaða upphæðir er um að ræða og til hve langs tíma?
     5.      Sér ráðherra ástæðu til þess að fram fari opinber rannsókn á viðskiptaaðferðum og skuldafyrirgreiðslu sjávarútvegsfyrirtækja hjá íslenskum lánastofnunum?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.


    Í þriðja sinn er þess nú freistað að kalla eftir upplýsingum hjá hlutaðeigandi stjórnvöldum um viðskiptahætti og skuldameðferð íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hjá lánastofnunum.
    Umbeðnar upplýsingar varða umtalsverðar hagstærðir sem skipta máli í íslensku efnahagslífi og hljóta því að teljast opinberar í skilningi upplýsingalaga. Upplýsingagjöf bankanna um starfsemi þeirra er „mikilvægur þáttur í heilbrigðu fjármálakerfi“ eins og fjármálaráðuneytið hefur áður bent á og eigendastefna ríkisins gerir ráð fyrir.
    Nýlegar fregnir af milljarðaafskriftum til einstakra sjávarútvegsfyrirtækja á sama tíma og íslenskur almenningur berst í bökkum með skuldir sínar gefa ástæðu til þess að kalla nú eftir fyrrgreindum upplýsingum og fá þær fram í dagsljós opinberrar umræðu, m.a. svo að stjórnvöld geti metið möguleika bankakerfisins til almennra afskrifta.