Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 24. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 24  —  24. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, með síðari breytingum.

Flm.: Mörður Árnason, Valgerður Bjarnadóttir.



1. gr.

    2.–4. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að hætt sé sérstökum álagsgreiðslum til formanna þingnefnda og þingflokka. Störf alþingismanna yrðu þannig lögð að jöfnu hvað þingfararkaup varðar, hvar og hvernig sem þau eru unnin, í samræmi við meginreglur lýðræðisskipunar.
    Rök að baki þessum greiðslum hafa verið nefnd þau að um sé að ræða þóknun fyrir þingstörf sem sérstakar skyldur fylgi. Formennska í þingnefnd og þingflokki er vissulega ábyrgðarmikið starf og annasamt en ekki verður annað séð en að jafnframt skyldum og ábyrgð felist einnig í slíku starfi einmitt þau áhrif og völd sem flestir alþingismenn sækjast eftir fyrir hönd kjósenda sinna og málstaðar. Að minnsta kosti er ekki líklegt að ásókn minnki í þessi störf þótt álagsgreiðslurnar yrðu afnumdar.
    Heildarkostnaður við þessar álagsgreiðslur til um það bil sextán þingmanna nemur í kringum 15 millj. kr. á ári, og munar um minna fyrir ríkissjóð í harðindum sem nú ganga yfir.
    Þess skal getið að frumvarpið sem varð að lögunum nr. 88/1995 var lagt fram á alþingi 15. júní og afgreitt samdægurs eftir þrjár umræður frá kl. 17.22 til kl. 20.38. Ákvæðin um álagsgreiðslur til formannanna komu inn í 3. gr. samkvæmt breytingartillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, en enginn rökstuðningur fylgdi tillögunni, hvorki í nefndarálitinu né framsöguræðu nefndarformannsins, Vilhjálms Egilssonar, og ekki heldur í ræðum annarra þingmanna.