Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 87. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 92  —  87. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, lögum um Landsvirkjun, lögum um samvinnufélög og lögum um sameignarfélög (stjórnarformaður, kynjahlutfall í stjórn).

Flm.: Árni Þór Sigurðsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Eygló Harðardóttir,
Álfheiður Ingadóttir, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Jórunn Einarsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Siv Friðleifsdóttir.


I. KAFLI
Breyting á lögum um stofnun sameignarfyrirtækis
um Orkuveitu Reykjavík, nr. 139/2001.

1. gr.

    Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Formaður stjórnar skal ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem stjórn felur honum að vinna fyrir sig. Tryggt skal að í stjórn fyrirtækisins séu kynjahlutföll jöfn.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983.
2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tryggt skal að í stjórn fyrirtækisins sé hlutfall hvors kyns ekki lægra en 40%.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Formaður stjórnar skal ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem stjórn felur honum að vinna fyrir sig.

III. KAFLI
Breyting á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991.
3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í stjórnum samvinnufélaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skal hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Formaður stjórnar skal ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem stjórn felur honum að vinna fyrir sig.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um sameignarfélög, nr. 50/2007.
4. gr.

    Við 1. mgr. 13. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í stjórnum sameignarfélaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skal hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%.

5. gr.

    Við 1. mgr. 15. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Formaður stjórnar skal ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem stjórn felur honum að vinna fyrir sig.

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2011. Þó skulu ákvæði a-liðar 3. gr. og 4. gr. öðlast gildi 1. september 2013.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, lögum nr. 22/ 1991, um samvinnufélög, og lögum nr. 50/2007, um sameignarfélög.
    Efni breytinganna varða annars vegar það að við lögin bætist ákvæði um hlutföll kynjanna í stjórnum Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar og í stjórnum samvinnufélaga og sameignarfélaga. Hins vegar er lagt til að bætt verði við lögin ákvæði þess efnis að formaður stjórnar verði ekki það sem kallað er ,,starfandi stjórnarformaður“.

Kynjahlutföll í stjórnum.
    Í 1. mgr. 3. gr. laga um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur er mælt fyrir um að stjórn þess sé skipuð sex mönnum og er þar nánar tilgreint hverjir kjósi fulltrúa í stjórnina. Með frumvarpi þessu er lagt til að því verði bætt við málsgreinina að það verði tryggt að kynjahlutföll fulltrúa í stjórninni verði jöfn. Með sama hætti er lögð til breyting á lögum um Landsvirkjun sem, eins og Orkuveita Reykjavíkur, er sameignarfyrirtæki. Jafnframt er lögð til viðbót við 1. mgr. 13. gr. laga um sameignarfélög og 1. mgr. 27. gr. laga um samvinnufélög þess efnis að þegar starfsmenn félags eru fleiri en 50 að jafnaði á ársgrundvelli skuli hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur einstaklingum. Þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skuli tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 50%. Ákvæðið á líkt og fram kemur aðeins við um samvinnu- og sameignarfélög þar sem starfsmenn eru að jafnaði fleiri en 50 á ársgrundvelli.

Starfandi stjórnarformenn.
    Lagt er til að við áðurnefnda 1. mgr. 3. gr. laga um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur verði bætt ákvæði þess efnis að stjórnarformaður taki ekki að sér verkefni fyrir fyrirtækið eða félagið önnur en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns. Þó er gerð undantekning að því er varðar tilvik þar sem stjórnin felur stjórnarformanni að vinna einstök verkefni fyrir sig, þ.e. stjórnina. Þá er lagt til að sams konar ákvæði bætist við 2. mgr. 5. gr. laga um Landsvirkjun, 3. mgr. 27. gr. laga um samvinnufélög og 1. mgr. 15. gr. laga um sameignarfélög.
    Sams konar breytingar og hér eru lagðar til voru gerðar á lögum um einkahlutafélög og lögum um hlutafélög með lögum nr. 13/2010 frá 8. mars 2010. Ákvæði frumvarpsins sem varð að þeim lögum og fjallaði um starfandi stjórnarformenn byggðist efnislega á niðurstöðum nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis sem þáverandi viðskiptaráðherra skipaði. Meiri hluti hennar lagði til að stjórnarformanni hlutafélags yrði ekki heimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem falla undir eðlileg störf stjórnarformanns. Þó var lagt til að stjórn félagsins gæti falið formanni að vinna einstök verkefni fyrir stjórnina.
    Frumvarp þetta er lagt fram þar sem rétt þykir að sömu reglur eigi við um sameignarfélög og samvinnufélög sem og Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun sem starfa samkvæmt sérlögum.
    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 2011. Þó skulu ákvæði a-liðar 3. gr. og 4. gr. um kynjakvóta í stjórnum sameignarfélaga og samvinnufélaga öðlast gildi 1. september 2013 sem er í samræmi við breytingar sem voru gerðar með lögum nr. 13/2010.