Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 15. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 106  —  15. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Péturs H. Blöndals um kostnað við ríkisábyrgð og áfallnar skuldbindingar.

    Í fyrirspurninni er spurt um fjárhæð ríkisábyrgðar og kostnað ríkissjóðs af lánum, sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta tók samkvæmt áformuðum samningum í samræmi við samkomulag íslenskra stjórnvalda annars vegar og breskra, hollenskra stjórnvalda og fulltrúa Evrópusambandsins hins vegar, sbr. svokallaða Brussel-yfirlýsingu, að láni frá breskum og hollenskum yfirvöldum samkvæmt samningum frá 5. júní 2009. Samkvæmt samningum þessum skyldi íslenska ríkið veita ábyrgð á því sem ógreitt yrði af láni þessu 9. júní 2016 þegar kröfuhöfum í þrotabú Landsbanka Íslands hefði verið greitt það fé sem í búinu yrði.
    Ábyrgð ríkissjóðs og árlegur áfallinn kostnaður ríkissjóðs vegna þessarar ábyrgðar reiknaður í íslenskum krónum ræðst auk höfuðstóls lánsins og vaxta af afkomu þrotabús Landsbanka Íslands, m.a. af ávöxtun þeirra eigna sem ganga til úthlutunar úr búinu og af gengi sterlingspunds og evru.
    Í minnisblaði ríkisendurskoðanda, fjársýslustjóra og skrifstofustjóra fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytisins frá 29. október 2009 er gerð grein fyrir því hvernig þeir telja rétt að reikna ábyrgð þessa og kostnað ríkissjóðs af henni og færa í ríkisreikning. Niðurstaða þeirra er í stuttu máli að kostnaðurinn verði færður sem tilfærsla til Tryggingarsjóðsins og á fyrsta ári skuli reikningsfæra höfuðstól lánanna að viðbættum áföllnum vöxtum til ársloka fyrsta árs að frádregnu mati á því sem þá er áætlað að Tryggingarsjóðurinn fái greitt úr þrotabúinu miðað við sama tíma. Eftir það verði þessi sami útreikningur gerður í lok hvers árs og mismunur frá fyrra ári reikningsfærður. Þessi aðferð er lögð til grundvallar eftirfarandi svörum við einstökum liðum í fyrirspurninni.

     1.      Hver var fjárhæð láns frá breskum yfirvöldum í pundum sem ráðherra veitti ríkisábyrgð á með undirskrift sinni 5. júní 2009?
    Fjárhæð sú sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta tók samkvæmt áformuðum samningum að láni frá breskum yfirvöldum var samkvæmt samningum frá 5. júní 2009 2.350 milljónir sterlingspunda. Á þeim tíma var gert ráð fyrir að endurgreiðslur þrotabúsins yrðu 75–95% af forgangskröfum í búið. Miðað við miðtöluna á því bili, 85%, yrði sú fjárhæð sem ábyrgð var tekin á vegna höfuðstóls lánsins 352,5 milljónir sterlingspunda.

     2.      Hver var fjárhæð láns frá hollenskum yfirvöldum í evrum sem ráðherra veitti ríkisábyrgð á með undirskrift sinni 5. júní 2009?
    Fjárhæð sú sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta tók samkvæmt áformuðum samningum að láni frá hollenskum yfirvöldum var samkvæmt samningum frá 5. júní 2009 1.329 milljónir evra. Á þeim tíma var gert ráð fyrir að endurgreiðslur þrotabúsins yrðu 75–95% af forgangskröfum í búið. Miðað við miðtöluna á því bili, 85%, yrði sú fjárhæð sem ábyrgð var tekin á vegna höfuðstóls lánsins 199,4 milljónir evra.

     3.      Hversu há var þessi ríkisábyrgð í krónum á gengi undirskriftardags?
    Hinn 5. júní 2009 var miðgengi sterlingspunds 197,07 kr. og miðgengi evru 173,72 kr. Miðað við það gengi og mat skilanefndar á endurgreiðslum frá 12. október væri fjárhæð skv.1. tölul., sem ríkisábyrgð var á, 69,5 milljarðar kr. og fjárhæð skv. 2. tölul., sem ríkisábyrgð var á, 34,6 milljarðar kr., samtals 104,1 milljarður kr.

     4.      Hvað hefði þessi ríkisábyrgð kostað ríkissjóð í áfallna vexti árið 2009 á árslokagengi þess árs?
    Í árslok 2009 var gengi sterlingspunds 201,8 kr. og gengi evru 179,88 kr. Samkvæmt þáverandi nýjasta mati skilanefndar og slitastjórnar þrotabús Landsbanka Íslands var endurgreiðsluhlutfall upp í forgangskröfur áætlað 88%. Miðað við þessar forsendur hefði ábyrgðarfjárhæðin, þ.e. höfuðstóll lánanna að viðbættum vöxtum til ársloka 2009 en að frádregnum áætluðum endurgreiðslum, verið 125,2 milljarðar kr. Kostnaður ríkissjóðs á árinu 2009 hefði orðið sú fjárhæð að frádreginni upphaflegri ábyrgðarfjárhæð 104,1 milljarði kr., sbr. 3. tölul., eða 21,1 milljarður kr.

     5.      Hvað hefði þessi ríkisábyrgð kostað ríkissjóð í áfallna vexti árið 2010 á gengi 1. september 2010?
    Kostnaður ríkissjóðs á árinu 2010 reiknast með sama hætti. Gengi gjaldmiðla í árslok 2010 er ekki enn þekkt en hér eftir er reiknað síðasta skráða gengi, (8. okt. 2010) 176,78 kr. fyrir sterlingspund og 154,75 kr. fyrir evru. Eins verður miðað við síðasta mat skilanefndar og slitastjórnar þrotabús Landsbanka Íslands á væntanlegri endurgreiðslu til forgangskröfuhafa, 89%, sbr. greinargerð um fjárhagsstöðu þrotabúsins frá 23. ágúst 2010. Miðað við þessar forsendur hefði ábyrgðarfjárhæðin, þ.e. höfuðstóll lánanna að viðbættum vöxtum til ársloka 2010 en að frádregnum áætluðum endurgreiðslum, verið 139,2 milljarðar kr. Kostnaður ríkissjóðs á árinu 2010 hefði orðið sú fjárhæð að frádreginni ábyrgðarfjárhæð í árslok 2009, 125,2 milljarðar kr., sbr. 4. tölul., eða 14,0 milljarðar kr.

     6.      Hvað hefði ríkisábyrgð samkvæmt lögum nr. 96/2009, með áorðnum breytingum samkvæmt lögum nr. 1/2010, kostað ríkissjóð í áfallna vexti hvort áranna 2009 og 2010 með sama hætti?
    Lög nr. 1/2010 hefðu engu breytt um framangreindar fjárhæðir. Þær breytingar á fyrirhuguðum samningum sem þau byggðust á fólu ekki í sér breytingar á þeim efnisatriðum sem hafa áhrif á útreikning vaxta og kostnaðar ríkissjóðs af ríkisábyrgðinni.

     7.      Hvers vegna var ekki minnst á ríkisábyrgð og áfallnar skuldbindingar vegna samninga og viðaukasamninga við bresk og hollensk yfirvöld, sem ráðherra hafði undirritað 19. október 2009, í fjárlögum fyrir árið 2010 og í fjáraukalögum fyrir árið 2009 sem samþykkt voru í árslok 2009?
    Ríkisábyrgð verður ekki veitt nema með samþykki Alþingis og samningarnir öðluðust ekki gildi án slíkrar ábyrgðar. Þar sem það samþykki Alþingis lá ekki fyrir við gerð fjárlaga 2010 og fjáraukalaga fyrir 2009 var engin ríkisábyrgð til staðar og því engar forsendur til að reikningsfæra kostnað af ríkisábyrgð.