Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 33. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 154  —  33. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar um lánveitingar Byggðastofnunar.

     1.      Fá fyrirtæki lán hjá Byggðastofnun án þess að veð sé lagt til tryggingar? Hve mörg slík lán hafa verið veitt á árunum 2006–2009 og til hverra? Hver er heildarupphæð slíkra lána og hversu mörg þeirra eru í vanskilum?
    Það er ófrávíkjanleg krafa að fyrirtæki sem fá lán hjá Byggðastofnun leggi fram veð til tryggingar fyrir lánunum. Engin lán eru því veitt án veðtrygginga. Byggðastofnun veitir langtímalán til fjárfestinga, hagræðingar og fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja á landsbyggðinni. Lánstími getur verið 6–20 ár en algengast er að hann sé 10–15 ár. Veð eru ætíð tekin í þeirri fasteign eða skipi sem lánað er til ásamt tilheyrandi fylgifé. Meginreglan varðandi fasteignir er að veðstaða lánsins verði ekki hærri en 75% af áætluðu söluverði fasteignarinnar. Veðstaða í skipum er að jafnaði ekki hærri en 60% af markaðsverði skips með aflaheimildum. Ekki er lánað til aflaheimildalausra skipa og báta. Þó er heimilt að taka veð í bát eða skipi sem nýtt er til ferðaþjónustu þó að því fylgi ekki aflaheimildir. Veðstaða í slíku skipi skal að jafnaði ekki vera hærri en 60% af áætluðu markaðsverðmæti þess. Reglur þessar eru birtar opinberlega á heimasíðu Byggðastofnunar.

     2.      Skiptir Byggðastofnun við fyrirtæki sem eingöngu eru stofnuð til að fá veðlaus lán hjá stofnuninni, þ.e. svokölluð skúffufyrirtæki? Hver dæmi eru um þetta frá árunum 2006– 2009? Upplýsingar óskast um lánsupphæð, nafn fyrirtækis, eiganda þess og aðsetur.

    Byggðastofnun á ekki í viðskiptum við fyrirtæki sem stofnuð hafa verið til að fá veðlaus lán hjá stofnuninni, sbr. svar við fyrri spurningu. Viðskiptavinur stofnunarinnar gera sér almennt grein fyrir þessu og því er nánast óþekkt að umsækjendur um lán hjá stofnuninni reyni að bjóða fram verðlausar eignir sem veð á móti lánum.
    Vegna umræðu um lánveitingar Byggðastofnunar til rækjuútgerða óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá stofnuninni um þær lánveitingar sérstaklega. Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um einstaka lánasamninga, enda fer Ríkisendurskoðun með eftirlit með lánastarfseminni og fjárhagslegri stöðu Byggðastofnunar, en þar sem eftirfarandi upplýsingar frá stofnuninni varpa ljósi á þróun mála hvað varðar þennan flokk lána þykir ráðuneytinu rétt að láta þær fylgja með. Þau lán sem þá voru í umræðunni voru veitt rækjuverksmiðjum í fullum rekstri, enda í góðu samræmi við eðli og tilgang lánastarfsemi Byggðastofnunar. Um var að ræða fjölmenna og mikilvæga vinnustaði hvern á sínum stað, alls með á þriðja hundrað starfsmenn. Þetta voru sterk félög með mikið eigið fé.
    Á árunum 2005 og 2006 varð algert hrun í greininni. Því ollu margir samverkandi þættir sem allir komu til á sama tíma, svo sem aflabrestur, olíuverðshækkanir, aukin markaðssókn Kanadamanna á okkar markaði o.fl. Þetta leiddi til þess að rekstrargrundvöllur fjölmargra rækjuverksmiðja brast og rækjuverksmiðjum í landinu fækkaði úr 20 í fimm á örstuttum tíma. Þau lán sem nú standa eftir í bókum stofnunarinnar, með veði í skipum viðkomandi útgerða ásamt þeim rækjukvóta sem á þeim er, eru eftirstöðvar þessara lána eftir að gengið hefur verið að öðrum veðum, m.a. verksmiðjunum sjálfum, fasteignum og tækjabúnaði og andvirðið gengið upp í skuldir félaganna og þeim slitið.
    Að þessu gerðu lá sú kvöð eftir á Byggðastofnun að innheimta eftirstöðvarnar enda ber stjórnendum hennar skylda til þess að leitast við að takmarka tjón hennar eftir því sem kostur er. Þar sem veiðar á rækju lögðust nánast alveg af var ljóst að ekki var skynsamlegt fyrir Byggðastofnun að ganga að skipum og kvóta á þeim tímapunkti, enda verðgildi þeirra mjög takmarkað við þær aðstæður. Bæði eigendur fyrirtækjanna og starfsmenn Byggðastofnunar gerðu sér vonir um að veiðar á rækju og aðstæður á mörkuðum mundu batna síðar. Sömdu fyrirtækin og Byggðastofnun því um að eftirstöðvar lánanna, ásamt þeim veðum sem fyrir þeim voru, yrðu færðar í ný félög og mundu eigendur þeirra halda lánunum í skilum. Það hafa þeir fram á þetta ár í stórum dráttum gert og stofnunin fengið hátt í 300 millj. kr. greiddar inn á eftirstöðvar lánanna. Það er því álit Byggðastofnunar að nokkuð vel hafi tekist að gæta hagsmuna hennar að þessu leyti. Það skekkir hins vegar myndina að hér var um að ræða lán í erlendum myntum þannig að nú er verið að fjalla um allt aðra og verri stöðu en var um mitt ár 2008. Af þessu má sjá að umrædd fyrirtæki fengu ekki veðlaus lán hjá stofnuninni, og voru þau ekki stofnuð til þess, heldur er hér um að ræða eftirstöðvar lána sem veitt voru rækjuvinnslum í fullum rekstri á árunum 2000–2005.