Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 143. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 158  —  143. mál.




Fyrirspurn



til heilbrigðisráðherra um sparnað ríkisins af boðuðum niðurskurði á heilbrigðisstofnunum samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011.

Frá Gunnari Braga Sveinssyni.



    Hversu mikill er nettósparnaður ríkisins af boðuðum niðurskurði fjárframlaga til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni að teknu tilliti til:
              a.      greiðslu atvinnuleysisbóta til þeirra sem missa atvinnu vegna niðurskurðarins,
              b.      greiðslu biðlaunaréttinda til þeirra sem missa atvinnu vegna niðurskurðarins,
              c.      aukins kostnaðar ríkisins við umsýslu við atvinnuleit og atvinnuleysisbætur vegna aukins atvinnuleysis sem af niðurskurðinum leiðir,
              d.      kostnaðar við tilflutning sjúkrarýma frá heilbrigðisstofnununum til Landspítala eða Sjúkrahússins á Akureyri,
              e.      kostnaðar við tilflutning sérfræðiþjónustu frá heilbrigðisstofnununum til Landspítala eða Sjúkrahússins á Akureyri,
              f.      kostnaðar við tilflutning endurhæfingar frá heilbrigðisstofnununum til Landspítala eða Sjúkrahússins á Akureyri,
              g.      kostnaðar við aukið sjúkraflug, akstur sjúkrabíla með sjúklinga og ferðir sjúklinga með áætlunarflugi og þyrluflugi víðs vegar af landsbyggðinni til Landspítala eða Sjúkrahússins á Akureyri,
              h.      kostnaðar Sjúkratrygginga Íslands vegna aukinna ferða sjúklinga til Landspítala eða Sjúkrahússins á Akureyri sem óhjákvæmilega fylgja niðurskurðinum,
              i.      tekjutaps ríkisins vegna lægri skatttekna sem fylgja uppsögnum heilbrigðisstarfsfólks sem nú starfar á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni,
              j.      kostnaðar sem fylgir hækkunum ýmissa bóta, svo sem barnabóta, vaxtabóta o.s.frv., vegna þeirra sem lenda á atvinnuleysisskrá vegna niðurskurðarins,
              k.      kostnaðar við aukinn snjómokstur sem óhjákvæmilega hlýtur að fylgja þegar halda þarf fjallvegum opnum allan sólarhringinn, allt árið um kring, vegna aukinna sjúkraflutninga landleiðina á milli héraða?
    Svar óskast sundurliðað eftir heilbrigðisstofnunum og kostnaðarliðum þeim sem hér að framan getur. Þá verði birtar sérstaklega tölur um aukinn stofnkostnað við húsnæði Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri vegna nýrra sjúkrarýma sem þar verða til sökum tilflutnings af heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og tölur um aukinn kostnað í rekstri Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri vegna aukinnar sérfræðiþjónustu og nýrra sjúkrarýma sem þar verða til sökum tilflutnings af heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.


Skriflegt svar óskast.