Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 74. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 194  —  74. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar um starfsmannahald og aðkeypta þjónustu hjá ráðuneytinu.

     1.      Hvaða breytingar hafa orðið á starfsmannahaldi í ráðuneytinu frá 1. janúar 2009 til 1. október 2010? Óskað er upplýsinga um stöðugildi, starfsheiti, kynjahlutfall, launakjör og heildarlaunagreiðslur.
    Á tímabilinu 1. janúar 2009 til 1. október 2010 hefur heildarstöðugildafjöldi hjá ráðuneytinu staðið nokkuð í stað. Hins vegar hafa embættismenn verið fluttir til og frá ráðuneytinu á grundvelli 36. gr. laga nr. 70/1996 ásamt því að ráðið var í tímabundnar stöður, afleysingar og ótímabundnar stöður sem losnuðu. Á tímabilinu urðu eftirtaldar mannabreytingar: Ráðnir voru tveir starfsmenn á nýja efnahags- og alþjóðafjármálaskrifstofu ráðuneytisins í lok árs 2008 en þeir starfsmenn fluttust síðan til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins í október 2009 vegna breyttrar verkaskiptingar ráðuneyta. Þrír starfsmenn voru ráðnir tímabundið til afleysinga sumarið 2009 og sumarið 2010. Skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu var tímabundið settur ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneytinu í febrúar 2009 og á sama tímabili var skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu tímabundið settur skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu. Á árinu 2009 var ráðuneytisstjóri í félags- og tryggingamálaráðuneytinu fluttur í embætti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu, sem og skrifstofustjóri og ráðherrabílstjóri frá félagsmálaráðuneytinu. Upplýsingafulltrúi lét af störfum í ágúst 2009 en hann var á tímabundnum ráðningarsamningi. Annar upplýsingafulltrúi var ráðinn tímabundið og lét hann af störfum í febrúar árið 2010. Í ársbyrjun 2010 var skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu fluttur til forsætisráðuneytisins og tók við stöðu alþjóðafulltrúa af forvera sínum sem einnig var frá utanríkisráðuneytinu. Tveir skrifstofustjórar létu af störfum og tveir voru skipaðir í kjölfar skipulagsbreytinga hjá ráðuneytinu. Annar þeirra var lögfræðingur ráðuneytisins sem skipaður var skrifstofustjóri á nýrri skrifstofu löggjafarmála. Annar lögfræðingur ráðuneytisins lést á árinu. Um mitt ár 2010 voru ráðnir tveir lögfræðingar á nýja skrifstofu löggjafarmála í ráðuneytinu og í ágúst var ráðinn efnahagsráðgjafi.
    Hjá forsætisráðuneytinu eru nú 26,74 stöðugildi. Um er að ræða einn ráðuneytisstjóra, fjóra skrifstofustjóra, 11 sérfræðinga; þar með talið alþjóðafulltrúa og efnahagsráðgjafa, ritara ráðherra, bifreiðastjóra, umsjónarstarf, tvo stjórnarráðsfulltrúa, tvo móttökuritara og fjóra vaktmenn. Kynjahlutfall starfsmanna er 16 konur og 11 karlar. Launakostnaður með launatengdum gjöldum fyrir tímabilið 1. janúar 2009 til og með september 2010 er samtals 354,2 millj. kr. Laun ráðherra og aðstoðarmanns ráðherra eru greidd af öðrum fjárlagalið.

     2.      Hvernig hefur ráðuneytið útfært sparnaðartillögu ríkisstjórnarinnar í launagjöldum?
    Laun starfsmanna í ráðuneytinu voru lækkuð í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 18. ágúst 2009 um sparnaðaraðgerðir. Lækkunin nam 3–10% og náði til þeirra starfsmanna sem höfðu heildarlaun yfir 400 þús. kr. Kerfislega var lækkunarhlutfall útfært með fækkun eininga og yfirvinnu en grunnlaun héldust óbreytt. Starfsmönnum var hverjum og einum tilkynnt á fundi um lækkunina og afhent bréf með tilkynningu um breytingu, með þriggja mánaða fyrirvara eða samkvæmt ákvæðum kjarasamninga þar um.

     3.      Hvaða sérfræðiþjónusta var keypt á tímabilinu 1. janúar 2009 til 1. október 2010 og í hvaða tilgangi, greint eftir nöfnum verksala og fjárhæðum?
    
Ráðuneytið hefur tekið saman hjálagt yfirlit yfir aðkeypta sérfræðiþjónustu umrætt tímabil. Til samanburðar fylgja jafnframt upplýsingar um heildarkaup á sérfræðiþjónustu á árinu 2008. Yfirlitið nær yfir fjárlagalið aðalskrifstofu ráðuneytisins og ýmissa verkefna á þess vegum. Þess skal getið að forsætisráðuneytið hélt utan um kostnað Stjórnarráðsins, sem nauðsynlegt var að stofna til, í kjölfar bankahrunsins. Var það gert til hagræðis og til að halda yfirsýn yfir kostnað ráðuneytanna fyrst eftir bankahrunið. Ríkisendurskoðun hefur farið yfir alla þá samninga sem gerðir voru í forsætisráðuneytinu á tímabilinu 1. janúar 2008 til 1. apríl 2009.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     4.      Kannaði ráðuneytið hvort unnt væri að leysa þessi sérfræðiverkefni innan ríkiskerfisins áður en þjónustan var keypt, og ef svo er, til hvaða ríkisaðila var leitað í hverju tilfelli fyrir sig?
    Þegar ný úrlausnarefni og verkefni koma upp er ávallt reynt að leysa þau af sérfræðingum og starfsfólki innan Stjórnarráðsins. Er allur meginþorri verkefna og úrlausnarefna sem upp koma innan Stjórnarráðsins leystur með þeim hætti. Ætíð koma þó upp einhver verkefni þar sem talin er þörf á utanaðkomandi sérþekkingu og er þá leitað til sérfræðinga og ráðgjafa á viðkomandi sviðum, m.a. vegna samráðs og til að tryggja aðkomu hlutlausra aðila, sbr. þau tilvik og verkefni sem tilgreind eru hér að framan. Í kjölfar og aðdraganda efnahagshrunsins var m.a. í ákveðnum tilvikum talin þörf á slíkri sérhæfðri og óháðri sérfræðiþjónustu og í nokkrum tilfellum leitað til erlendra aðila, sérfræðinga og ráðgjafa í veigamiklum málum sem m.a. kallaði á alþjóðlega sérfræðiþekkingu og reynslu á viðkomandi sviðum. Í úttekt Ríkisendurskoðunar á samningum ráðuneytisins um kaup á sérfræðiþjónustu og ráðgjöf kemur m.a. eftirfarandi fram: „Að mati Ríkisendurskoðunar hefur forsætisráðuneytið gert fullnægjandi grein fyrir ákvörðunum sínum um hvers vegna það taldi þörf á að leita til ráðgjafa og annarra sérfræðinga og eru ekki gerðar neinar athugasemdir við það mat. Þá er ljóst að ráðuneytið fylgdist vel með framkvæmd samninganna og brást að jafnaði við minnkandi þörf fyrir ráðgjöf með því að minnka eða ljúka að fullu viðskiptum við viðkomandi ráðgjafa.“