Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 247. máls.

Þskj. 278  —  247. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um landsdóm, nr. 3/1963,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Dómarar sem hafa byrjað meðferð máls skulu ljúka því þó að kjörtímabil þeirra sé á enda.

2. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Rísi vafi um hvort dómari fullnægi framangreindum skilyrðum tekur forseti landsdóms fullnaðarákvörðun um hvort hann taki sæti í máli.

3. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ef kveða þarf upp úrskurð um rannsóknaraðgerðir eða um atriði varðandi rekstur máls skal forseti dómsins kveðja til tvo aðra úr röðum hinna löglærðu dómara til að standa að því með sér.

4. gr.

    2. mgr. 23. gr. laganna hljóðar svo:
    Nú telur saksóknari brýna þörf slíkra aðgerða, áður en landsdómur kemur saman, og skal ákvörðun um slíka beiðni tekin skv. 2. mgr. 8. gr.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
     a.      4. og 5. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Á eftir orðinu „flytur“ í 8. málsl. 1. mgr. kemur: saksóknari sókn sína og.
     c.      9. málsl. 1. mgr. fellur brott.

6. gr.

    38. gr. laganna hljóðar svo:
    Skýrslur ákærðu og vitna skulu hljóðritaðar. Um bókanir í þingbók fer eftir þeim reglum sem gilda um meðferð sakamála.

7. gr.

    Í stað orðsins „Landsdómur“ í 2. málsl. 1. mgr. 49. gr. laganna kemur: Kjararáð.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu. Byggist það á tillögum sem forseti landsdóms sendi ráðuneytinu með bréfi, dags. 21. október 2010. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum laganna um meðferð máls fyrir landsdómi svo að mál sem þar eru rekin gangi hnökralaust fyrir sig. Þá eru einnig lagðar til breytingar svo að unnt verði að nýta þá tækni sem nú er fyrir hendi við t.d. skýrslutökur fyrir dómi og önnur atriði eins og hver skuli ákveða þóknun dómenda en lög um landsdóm eru að grunni til frá árinu 1963 og hafa tekið litlum breytingum í áranna rás.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 2. gr. laganna er fjallað um fjölda dómara í landsdómi og hvernig þeir eru valdir. Er þar m.a. gert ráð fyrir því að átta dómendur af 15 séu kosnir af Alþingi til sex ára í senn. Alþingi kaus síðast aðalmenn í landsdóm árið 2005. Kjörtímabil þeirra rennur því út á næsta ári. Til þess að ekki verði rof á umboði dómenda meðan mál er þar til meðferðar er nauðsynlegt að taka fram í lögunum að dómarar sem hafa byrjað meðferð máls skuli ljúka því þó að kjörtímabil þeirra sé á enda. Fyrirmynd að ákvæði sem þessu er að finna í 48. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeildur, nr. 80/1938, þar sem fjallað er um dómara í Félagsdómi, en þar segir að dómarar sem hafa byrjað meðferð mála skuli ljúka því þótt kjörtímabil þeirra sé á enda.

Um 2. gr.


    Í 3. gr. laganna er gerð grein fyrir þeim skilyrðum sem þeir sem sitja í landsdómi þurfa að uppfylla. Ekki er hins vegar kveðið á um hver taki ákvörðun um hvort dómari uppfylli þau hæfisskilyrði sem talin eru í 3. gr. leiki á því vafi. Hér er því lagt til að forseti landsdóms taki ákvörðun um hæfi dómara leiki á því vafi og jafnframt kveðið á um að ákvörðun hans sé endanleg.

Um 3. gr.


    Nauðsynlegt þykir að hafa ákvæði um það hvernig með skuli fara þegar kveða skal upp rannsóknarúrskurði eða úrskurði um önnur atriði er varða rekstur máls. Til að einfalda málsmeðferðina er lagt til að forseti dómsins auk tveggja annarra af hinum löglærðu dómurum kveði upp slíka úrskurði.

Um 4. gr.


    Lagt er til að ákvarðanir um þær aðgerðir sem nánar er gerð grein fyrir í 1. mgr. 23. gr. laganna og framkvæma þarf áður en landsdómur kemur saman verði teknar af forseta dómsins ásamt tveimur úr röðum hinna löglærðu dómara á sama hátt og kveðið er á um í 2. mgr. 8. gr. laganna, sbr. 3. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.


    Í 34. gr. laganna er gerð grein fyrir meðferð málsins fyrir dóminum. Eru í frumvarpi þessu lagðar til breytingar svo að málsmeðferðin verði í meira samræmi við aðalmeðferð sakamála samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

Um 6. gr.


    Í 38. gr. laganna er gerð grein fyrir því hvernig staðið skuli að bókun í dómabók. Tekur ákvæðið mið af þeim aðferðum sem viðhafðar voru á þeim tíma sem lögin voru samin. Þykir rétt að gera þá breytingu að unnt sé að nýta þá tækni sem nú er til staðar við upptöku á skýrslum ákærðu og vitna og jafnframt að bókanir í þingbók fari eftir þeim reglum sem í dag gilda um meðferð sakamála.

Um 7. gr.


    Í 49. gr. laganna er m.a. kveðið á um hvernig þóknun til dómenda og dómritara skuli ákveðin. Í frumvarpinu er lagt til að þóknun verði ákveðin af kjararáði í stað þess að landsdómur sjálfur ákveði þóknunina. Verkefni kjararáðs er að ákveða laun og starfskjör m.a. dómara og annarra ríkisstarfsmanna sem svo er háttað um að þau geta ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu og er því eðlilegast að fela þetta verkefni kjararáði.

Um 8. gr.


    Hér er kveðið á um gildistöku laganna og er lagt til að þau taki gildi þegar í stað. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um landsdóm,
nr. 3/1963, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar er varða málsmeðferð og önnur atriði svo unnt verði að nýta þá tækni sem nú er til staðar svo mál sem rekin eru fyrir landsdómi gangi hnökralaust fyrir sig. Lagt er til að dómarar sem byrjað hafa málsmeðferð skuli ljúka því þó að kjörtímabil þeirra sé á enda. Er þetta lagt til svo ekki verði rof á umboði dómenda meðan mál er þar til meðferðar. Þá eru lagðar til breytingar á málsmeðferð fyrir dóminum svo hún verði meira í samræmi við aðalmeðferð sakamála sem og hvernig fara skuli að þegar kveða skal upp rannsóknarúrskurði eða önnur atriði er varða rekstur máls. Lagt er auk þess til að forseti landsdóms taki fullnaðarákvörðun um það hvort dómari taki sæti ríki vafi um hvort hann fullnægi skilyrðum laga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að unnt verði að nýta nútímatækni við töku skýrslna af ákærðu og vitnum og að þóknun dómenda og dómritara skuli ákveðin af kjararáði í stað þess að landsdómur ákveði sjálfur þóknunina.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.