Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 168. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 284  —  168. mál.




Svar



samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Arndísar Soffíu Sigurðardóttur um varnargarða og fyrirhleðslur á áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli.

     1.      Hversu miklum fjármunum hefur ríkið varið til viðhalds og uppbyggingar varnargarða og fyrirhleðslna eftir flóðin af völdum eldgossins í Eyjafjallajökli?
    Áætlaður heildarkostnaður Vegagerðarinnar vegna viðhalds og endurbyggingar varnargarða og fyrirhleðslna við Markarfljót og ár undir Eyjafjöllum, eftir flóðin af völdum eldgossins í Eyjafjallajökli, er um 100 millj. kr. Hluti varnargarðakerfisins við þessar ár er samvinnuverkefni Vegagerðarinnar og Landgræðslu ríkisins og hefur Landgræðslan einnig lagt út fyrir töluverðum kostnaði vegna þessa en Vegagerðin hefur ekki upplýsingar um þær upphæðir.

     2.      Hvaða varnargörðum og fyrirhleðslum er áformað að halda við?
    Öllum varnargörðum og fyrirhleðslum er haldið við eftir þörfum en þeir varnargarðar sem urðu fyrir mestum skemmdum af völdum flóða í kjölfar eldgoss eru varnargarðar við Markarfljót, svo sem við Þórólfsfell, við gömlu Markarfljótsbrúna og Litlu-Dímon, auk garða við nýju Markarfljótsbrúna. Einnig hefur aukinn framburður valdið vandræðum við Krossá í Þórsmörk og er unnið að fyrirhleðslum þar til að sporna við frekara landbroti og skemmdum á vegum. Mikil uppbygging hefur einnig farið fram á varnargörðum við Svaðbælisá, auk þess sem stöðugt er unnið að uppmokstri á efni úr farvegi árinnar.

     3.      Hvaða varnargarða og fyrirhleðslur er áformað að styrkja sérstaklega vegna flóðahættu?
    Ekki hefur verið tekin ákvörðun um frekari styrkingu varnargarða en gerð hefur verið úttekt á þeim varnargörðum við Markarfljót þar sem tæpast stóð að vatn færi yfir garðana og gerð tillaga um hækkun og styrkingu þeirra, telji menn hættu á viðlíka flóði og varð í kjölfar eldgossins. Þessir garðar eru: leiðigarðar við brú á Hringvegi, nýr varnargarður austan Markarfljótsbrúar (við Kverkina), Dofri, Fauskagarður, Hallshólmagarður, Álagarður, Stóru- Dímonargarður, Litlu Dímonargarður neðan Litlu-Dímonar, Bakvörður austan Markarfljótsbrúar og flutningur á Merkurhólagarði.

     4.      Hver er áætlaður heildarkostnaður við verkefnið?
    Áætlaður kostnaður Vegagerðarinnar við þessi verkefni er um 90 millj. kr. en gert er ráð fyrir hlutdeild frá Landgræðslu ríkisins upp á um 20 millj. kr.

     5.      Hvenær er áformað að verkefninu ljúki?
    Nú er um það bil lokið við viðgerðir á skemmdum sem hlutust af völdum flóða en ekki hefur verið tekin ákvörðun um frekari framkvæmdir við styrkingu varnargarða.