Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 116. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 338  —  116. mál.




Svar



félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um sérfræðingahóp um vanda lántakenda vegna verðtryggingar.

     1.      Hvað réð skipun hóps sérfræðinga sem Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra, fól 27. október 2008 að skoða hvort og hvaða leiðir væru færar til að bregðast við vanda lántakenda vegna verðtryggingar, en í hópnum voru Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur og formaður Alþýðusambands Íslands, sem var formaður hópsins, Þorkell Helgason stærðfræðingur, Vilborg Helga Júlíusdóttir hagfræðingur, Edda Rós Karlsdóttir hagfræðingur og Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur, auk starfsmanns, sem var Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu?
    Í kjölfar þeirra atburða sem áttu sér stað í byrjun október 2008 skipaði ráðherra starfshóp sem fékk það verkefni að fjalla um möguleg úrræði ríkisvaldsins til þess að auðvelda heimilunum í landinu að bregðast við versnandi ástandi efnahagsmála. Starfshópurinn var skipaður í samráði við formenn þingflokka ríkisstjórnarinnar og í honum sátu Guðbjartur Hannesson og Steinunn Valdís Óskarsdóttir fyrir hönd Samfylkingarinnar, Ólöf Nordal og Ármann Kr. Ólafsson fyrir hönd Sjálfstæðisflokks og Hrannar Björn Arnarson, þáverandi aðstoðarmaður ráðherra, sem jafnframt var formaður hópsins. Í minnisblaði ráðherra til ríkisstjórnar Íslands 21. október 2008 koma fram tillögur hópsins um húsnæðismál einstaklinga. Þar var m.a. lagt til að starfshópur yrði skipaður til að móta tillögur um hvernig bregðast ætti við vanda lántakenda vegna verðtryggingar. Í kjölfar þess var umræddur starfshópur skipaður.

     2.      Hvernig var valið í hópinn?
    Við skipun nefndarmanna var litið til þess að velja þá einstaklinga sem töldust hafa besta menntun og reynslu sem nýst gætu í starfinu.

     3.      Hefur hópurinn lokið störfum og ef svo er, hvenær?
    Hópurinn lauk störfum í nóvember 2008.

     4.      Hefur hópurinn skilað niðurstöðum og ef svo er, hvar er þær að finna og hverjir voru helstu áherslupunktarnir um leiðir til að bæta úr vanda lántakenda vegna verðtryggingar?
    Starfshópurinn skilaði tillögum með minnisblaði til ráðherra 7. nóvember 2008 þar sem lagt var til að úrræði laga nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, yrðu endurvakin og þeim beitt, með nauðsynlegum breytingum til að mæta misgengi á tekjum einstaklinga og greiðslubyrði verðtryggðra fasteignaveðlána. Ráðherra lagði fram frumvarp þess efnis á Alþingi 17. nóvember 2008 og Alþingi samþykkti frumvarpið sem lög nr. 133/ 2008, um breytingu á lögum nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, með síðari breytingum. Minnisblað starfshópsins er fylgiskjal með frumvarpinu sem varð að þeim lögum, þskj. 185 í 159. máli á 136. löggjafarþingi 2008–2009.