Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 213. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 373  —  213. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Arndísar Soffíu Sigurðardóttur um íslenska friðargæslu.

     1.      Hversu margir íslenskir friðargæsluliðar starfa nú á erlendri grund?
    Í nóvember 2010 hafa 12 sérfræðingar starfað á vegum íslensku friðargæslunnar erlendis.

     2.      Hvaða verkefnum sinnir íslenska friðargæslan um þessar mundir?
    Íslenska friðargæslan sinnir eftirfarandi verkefnum:

Afganistan.
    Í Afganistan hefur Ísland verið þátttakandi í störfum alþjóðaliðsins (International Security Assistance Force, ISAF) frá 2003, ásamt öðrum aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins (NATO) og fjölda annarra ríkja. Alþjóðaliðið starfar á grundvelli ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1510, sem veitir því umboð til að aðstoða afgönsk yfirvöld við að koma á öryggi í landinu, þannig að uppbyggingar- og mannúðarstarf geti farið fram með eðlilegum hætti. Íslenskir friðargæsluliðar starfa í aðalstöðvum ISAF í Kabúl að þróun og uppbyggingu í landinu, m.a. að jafnréttismálum í þróunardeild alþjóðaliðsins. Einnig starfa þeir að rekstrarmálum í bækistöð alþjóðaliðsins á Kabúlflugvelli og pólitískri stefnumótun á skrifstofu fulltrúa aðalframkvæmdastjóra NATO. Stöður eru eftirfarandi:
          skrifstofustjóri pólitískra mála á skrifstofu sérstaks fulltrúa aðalframkvæmdastjóra NATO,
          aðstoðardeildarstjóri þróunardeildar alþjóðaliðsins (ISAF) í Kabúl,
          jafnréttisfulltrúi í þróunardeild ISAF,
          staðgengill yfirmanns rekstrar- og skipulagsmála, stöð alþjóðaliðsins á Kabúlflugvelli.,
          staðgengill starfsmannastjóra, stöð alþjóðaliðsins á Kabúlflugvelli.

Afríka.
    Íslenska friðargæslan hefur síðustu missiri sent fólk til starfa á átakasvæðum í Afríku, svo sem í Darfúr, Suður-Súdan og Líberíu. Íslenskir lögreglumenn hafa á árinu 2010 starfað við löggæsluverkefni Friðargæsludeildar Sameinuðu þjóðanna (DPKO) í Líberíu. Verkefnið snýst um uppbyggingu og stuðning við staðarlögreglu, en að því starfa um 1.300 lögreglumenn frá hátt í 40 ríkjum. Starfandi eru:
          tveir lögregluþjónar í Líberíu.

Balkanskagi.
    Á Balkanskaga hefur íslenska friðargæslan átt áralangt og gott samstarf við Þróunarsjóð Sameinuðu þjóðanna fyrir konur, UNIFEM. Framan af árinu 2010 störfuðu jafnréttissérfræðingar í Sarajevó og Belgrad að jafnréttisverkefnum, öryggi og átakavörnum innan vébanda UNIFEM. Nú er starfandi:
          jafnréttisfulltrúi hjá UNIFEM í Sarajevó.

Mið-Austurlönd.
    Íslenskir friðargæsluliðar hafa um nokkurt skeið starfað í Mið-Austurlöndum innan vébanda ýmissa fjölþjóðastofnana. Aðallega hefur verið unnið að málum Palestínuaraba á herteknu svæðunum og palestínskra flóttamanna. Íslenskir sérfræðingar hafa starfað að mannúðaraðstoð og félagslegri aðstoð, stjórnun og stefnumótun og upplýsingagjöf. Helstu samstarfsaðilarnir hafa verið Palestínuflóttamannaaðstoðin (UNRWA), Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Samræmingarskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir mannúðaraðstoð (OCHA). Starfandi eru:
          sérfræðingur í mannúðaraðstoð og félagslegri aðstoð hjá UNRWA í Jerúsalem,
          starfsmannastjóri fyrir aðsenda starfsmenn hjá UNRWA í Amman.

Neyðaraðstoð.
    Íslenska friðargæslan hefur lagt til starfsmenn í skammtíma-neyðaraðstoðaverkefni Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, samkvæmt viðbragðssamningi ráðuneytisins og stofnunarinnar. Fyrir hendi er viðbragðslisti fjölmiðlafólks samkvæmt samningnum, sem gerir mögulegt að kalla til starfsmenn með skömmum fyrirvara, þegar neyðarástand skapast. Starfandi eru:
          upplýsingafulltrúi hjá UNICEF í Jemen, m. a. vegna flóttamannavandans,
          upplýsingafulltrúi hjá UNICEF í Pakistan vegna flóðavandans.

     3.      Hversu margir íslenskir friðargæsluliðar bera vopn við störf sín?
    Enginn íslenskur friðargæsluliði ber vopn við störf sín.

     4.      Telur ráðherra efni til að draga frekar úr fjárframlögum til íslenskrar friðargæslu miðað við núverandi efnahagsaðstæður?

    Samtals er 54,8% niðurskurður á fjárframlögum til íslensku friðargæslunnar fyrirhugaður frá yfirstandandi ári samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2011. Mikilvægt er að Íslendingar haldi áfram að leggja af mörkum til alþjóðasamstarfs á sviði friðaruppbyggingar, friðargæslu, neyðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Ekki er æskilegt að skera meira niður til þessara málefna en gert hefur verið á síðustu tveimur árum og fyrirhugað er á árinu 2011.