Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 309. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 375  —  309. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samantekt á stöðu atvinnumála í sveitarfélögum landsins.

Flm.: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.



    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að láta gera samantekt á stöðu atvinnulífs í sveitarfélögum landsins eftir efnahagshrunið. Þar verði lagt mat á stöðu hvers svæðis fyrir sig og styrkleikar og veikleikar sveitarfélaganna kortlagðir. Þessari vinnu verði lokið eigi síðar en 1. mars 2011. Niðurstöður verði síðan notaðar til að efla þau svæði sem verst hafa orðið úti og hafa veikar innri stoðir.

Greinargerð.


    Fyrir liggur að efnahagshrunið hefur haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar víða fyrir atvinnulíf og heimili landsins. Einnig eru mjög mörg sveitarfélög í gríðarlega erfiðri stöðu en miserfiðri þó.
    Til að átta sig á raunverulegri stöðu þessara mála þarf að kortleggja stöðu sveitarfélaga landsins hvað varðar styrkleika og veikleika ásamt því að sérstaða hvers svæðis verði dregin fram. Mikilvægt er að hafa heildarsýn yfir það mismikla tjón sem byggðir landsins hafa orðið fyrir og þau fáu verkefni og það takmarkaða fjármagn verði nýtt sem best til að styrkja þau svæði sem verst standa. Sem betur fer hafa sumar atvinnugreinar sótt í sig veðrið. Má þar nefna sjávarútveginn, einnig hefur ferðaþjónustan notið góðs af lækkun krónunnar, eins má benda á gott gengi í áliðnaði. Þessar greinar hafa í raun haldið okkur á floti og skilað okkur þangað sem við erum þó. Atvinnugreinar sem hafa orðið verst úti eru fjármálageirinn, byggingariðnaður og almenn verktakastarfsemi, eins hafa verslanir í sumum sveitarfélögum orðið illa úti. Mikil hætta er á því að þeir staðir á landsbyggðinni þar sem ríkisstofnanir eru með starfsstöðvar lendi undir hnífnum og þar með verður öll sú vinna sem unnið hefur verið í að færa störf frá ríkinu út á land að engu. Mjög áríðandi er að ríkið flýti aðgerðum og jafnvel endurskoði samgönguáætlun til að stýra aflinu að þeim svæðum sem ekki þola bið.