Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 312. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 379  —  312. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um lausn á bráðavanda hjálparstofnana.

Flm.: Vigdís Hauksdóttir, Höskuldur Þórhallsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Ingi Jóhannsson.


    Alþingi ályktar að ríkisstjórnin skuli í samvinnu við sveitarfélögin leysa tafarlaust þann bráðavanda sem hjálparstofnanir standa frammi fyrir.

Greinargerð.


    Mikill vandi steðjar nú að mörgum íslenskum heimilum. Svo virðist sem vandinn verði sífellt stærri og umfangsmeiri. Áætlað er að um 1.200 einstaklingar þurfi að leita til hjálparstofnana í viku hverri til að afla sér daglegra nauðþurfta. Fer þessi hópur stækkandi og þessi staðreynd er ekki samboðin íslensku samfélagi. Ef ekkert verður að gert festast þessar fjölskyldur í fátækragildru til framtíðar.
    Desember er þungur í skauti fyrir marga og nú verður að leggja allt kapp á að vernda þau börn sem um sárt eiga að binda vegna fjárhagsstöðu foreldra sinna. Íslendingar hafa talið sig standa framarlega hvað mannréttindi varðar. Það er niðurlægjandi að þurfa að bíða í biðröðum eftir matarúthlutunum. Framkvæmdarvaldið og sveitarfélög verða að forgangsraða í rekstri sínum. Nú verður að finna mannúðlega leið til að hjálpa þeim sem verst standa í þjóðfélaginu. Þessi réttur er tryggður í 76. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Í 3. mgr. 76. gr. kemur fram að börnum skuli tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Að auki er minnt á þá alþjóðasáttmála sem Ísland er aðili að og snúa að mannréttindum og vegur mannréttindasáttmáli Evrópu þar þyngst.