Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 163. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 458  —  163. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um olíuleit á Drekasvæðinu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur verið athugað hvort Íslendingar geti verið í samfloti með Norðmönnum í olíuleit með hljóðbylgjurannsóknum (3D seismic search) sem Norðmenn eru nú að hefja á sínum hluta Drekasvæðisins og ef ekki, hvað er því til fyrirstöðu og hvenær er stefnt að rannsóknum á íslenska hlutanum?

    Íslendingar hafa verið í góðu samstarfi við Norðmenn á öllum sviðum er varðar olíuleit á Drekasvæðinu undanfarin ár, eða frá því að samningur þjóðanna um samnýtingu Jan Mayen-hryggjarins var undirritaður árið 1981. Í kjölfarið samningsins stóðu Íslendingar og Norðmenn sameiginlega að hljóðbylgjumælingum á samningssvæðinu, árin 1985 og 1988. Þau gögn gefa góða yfirsýn yfir jarðfræði svæðisins, og samþykktu bæði löndin að trúnaði yrði aflétt af gögnunum í undanfara fyrsta útboðs sérleyfa á Drekasvæðinu. Gögnin frá 1985 og 1988 voru endurunnin af bresku fyrirtæki árið 2009 sem bætti túlkunarmöguleika þeirra mikið, einkum djúpt í jarðlögunum. Fyrirtækið InSeis, síðar Wavefield Inseis og nú CGGVeritas, stóð að hljóðbylgjumælingum á Drekasvæðinu árin 2001 og 2008, en þessar mælingar voru gerðar með nýrri og betri mælitækjum en fyrri mælingar. Einnig gerði TGS- NOPEC hljóðbylgjumælingar á suðurjaðri útboðssvæðisins árið 2002. Mælingarnar frá 2001, 2002 og 2008 voru gerðar af fyrirtækjum sem fengu leitarleyfi á svæðinu, og eru skilmálar leyfanna m.a. að Orkustofnun fái afhent öll gögn til varðveislu og eigin túlkunar. Gögnin eru bundin trúnaði í tíu ár og því styttist í að opnað verði aðgengi að fyrstu gögnunum. Sambærilegar mælingar á vegum einkafyrirtækja Noregs megin á Jan Mayen-hryggnum eru ekki heimilar eins og staðan er í dag, þar sem Norðmenn hafa ekki opnað svæðið fyrir olíuleit, og því munu norsk stjórnvöld sjálf standa að væntanlegum mælingum á svæðinu þar til að því kemur að svæðið verður opnað.
    Samstarf Íslendinga og Norðmanna hefur haldið áfram eftir nokkurt hlé í kjölfar þess að Ísland hóf undirbúning fyrir útboð rannsóknar- og vinnsluleyfa á Drekasvæðinu. Sameiginleg yfirferð hefur staðið yfir vegna undirbúnings fyrir næsta útboð sem fram fer 1. ágúst - 31. desember 2011, og einnig vegna sameiginlegra rannsókna á svæðinu, en nýverið lauk rannsóknarleiðangri Árna Friðrikssonar á Jan Mayen-svæðinu þar sem safnað var kjarnasýnum úr yfirborði hafsbotnsins, bæði Íslands og Noregs megin við markalínuna. Leiðangurinn stóð yfir frá 17. ágúst til 15. september sl. Neðsti hluti sýnanna var djúpfrystur og sendur til greiningar á ummerkjum um olíu og gas til Noregs, en megnið af kjörnunum verður rannsakað af jarðfræðingum við Háskóla Íslands. Með mælingum á lífrænum efnum í dýpsta hluta kjarnanna er hægt að sýna fram á hvort gas eða önnur kolvetni sem greinast í sýnunum hafi myndast við niðurbrot baktería á lífrænum leifum eða hvort um sé að ræða hitaummynduð kolvetni, ættuð úr móðurbergi dýpra í jarðlögunum. Í seinni hluta leiðangursins var stór hluti af Jan Mayen-hryggnum kortlagður Noregs megin við markalínuna, en sá hluti leiðangursins er einvörðungu fjármagnaður af Norðmönnum á meðan hinn hlutinn var fjármagnaður að hluta til af Norðmönnum og hluta til af Orkustofnun. Leiðangurinn heppnaðist vel og tókst að safna kjörnum frá 30 stöðum á svæðinu auk þess sem kortlagðir voru rúmlega 13 þúsund ferkílómetrar. Náið samstarf verður áfram við Norðmenn um Jan Mayen-svæðið og fullt samráð milli ríkjanna, sérstaklega varðandi öryggis- og umhverfiskröfur borana á íslensku og norsku hafsvæði.
    Kortlagningin sem gerð var í umræddum leiðangri er mikilvægur þáttur í rannsóknum á norska hluta svæðisins og mun skipulagning næstu leiðangra m.a. byggjast á þeim gögnum. Íslendingar eru komnir mun lengra en Norðmenn í undirbúningi olíuleitar á Drekasvæðinu en ólíkt Íslendingum eiga Norðmenn eftir að framkvæma umhverfismat áætlana og hafa Íslendingar boðið fram aðstoð sína við þá vinnu. Norðmenn hafa tilkynnt að þeir munu jafnframt safna nýjum hljóðendurvarpsmælingum á svæðinu en ekki hefur verið ákveðið hvenær þær mælingar munu fara fram.
    Samstarfi við Norðmenn verður haldið áfram og þegar ákvörðun um hljóðbylgjurannsóknir á Jan Mayen-svæðinu liggur fyrir mun iðnaðarráðuneytið kanna hvort hægt verður að taka þátt í því verkefni eins og gert var nú í ágúst.