Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 223. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 460  —  223. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um hagsmuni á Norðuríshafssvæðinu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hefur ríkisstjórnin áform um að beita sér fyrir auknu samstarfi eða samningi milli Íslands, Kanada, Noregs, Grænlands, Bandaríkjanna og Færeyja um sameiginlega hagsmuni á Norðuríshafssvæðinu, svo sem um náttúruauðlindir, samgöngur, vísindastarf, rannsóknir og menningarmál? Hverjir telur ráðherra að væru helstu sameiginlegu hagsmunir þessara landa ef af slíku samstarfi yrði?

    Já. Ríkisstjórnin hefur unnið ötullega að auknu samstarfi þessara ríkja og annarra norðurslóðaríkja. Málefni norðurslóða eru lykiláherslumál í utanríkisstefnu Íslands eins og fram kom í skýrslu ráðherra um utanríkismál til Alþingis og ræðu ráðherra af sama tilefni 14. maí síðastliðinn. Í samræmi við þær áherslur hefur utanríkisráðherra lagt fram þingsályktunartillögu á yfirstandandi þingi um stefnu Íslands á norðurslóðum sem miðar að því að standa vörð um hagsmuni og efla samstarf við önnur ríki og hagsmunaaðila um málefni svæðisins, þar á meðal öll þau lönd sem nefnd eru sérstaklega í fyrirspurninni. Ítarleg greinargerð fylgir tillögunni sem fer nú til meðferðar þingsins.
    Rík áhersla verður áfram lögð á að efla og styrkja Norðurskautsráðið. Helstu sameiginlegu hagsmunir þessara landa eru til umfjöllunar í ráðinu og öll aðildarríki Norðurskautsráðsins, einnig þau sem fyrirspurnin tekur ekki til, þ.e. Finnland, Rússland og Svíþjóð, telja mikilvægt að styrkja starfsemi ráðsins frá því sem nú er. Innan ráðsins er m.a. fjallað um sameiginleg hagsmunamál sem lúta að vernd náttúru og vistkerfa, nýtingu auðlinda og snerta umhverfi, loftslag og samfélög á svæðinu svo sem viðbrögð við umhverfisógnum, siglingar, leit og björgun, menningarsamstarf, heilbrigðismál og líffræðilegan fjölbreytileika. Fyrirséð er að ríki á norðurslóðum þurfa að eiga náið samráð um þróun og áhrif kolefnavinnslu, siglinga og fiskveiða á norðurslóðum.
    Auk þess að beina kröftum að styrkingu Norðurskautsráðsins er sérstök áhersla Íslands að styrkja og auka samstarf við Færeyjar og Grænland með það fyrir augum að efla hag og pólitískt vægi landanna þriggja. Má þar nefna Høyvíkursamninginn um fríverslun við Færeyjar sem dæmi. Löndin hafa átt farsælt samstarf á sviði viðskipta, ferða- og menningarmála. Hugsanleg olíuvinnsla á Austur-Grænlandi og í tengslum við Drekasvæðið kallar á náið samstarf grænlenskra og íslenskra stjórnvalda um uppbyggingu ýmiss konar þjónustustarfsemi og viðbrögð við mögulegri umhverfisvá. Með sama hætti hefur tvíhliða samstarf og samráð Íslands við Bandaríkin, Kanada og Noreg, sem og önnur ríki Norðurskautsráðsins, í auknum mæli snúið að sameiginlegum hagsmunum á norðurslóðum.
    Utanríkisráðuneytið hefur eflt tvíhliða samstarf og samningagerð við önnur ríki og hagsmunaaðila um málefni sem ekki er fjallað um á vettvangi Norðurskautsráðsins eða snúa að sérhagsmunum ríkja. Hér má t.d. nefna hið svokallaða grannríkjasamstarf Íslands við Danmörku, Noreg og Kanada á sviði öryggis- og varnarmála en það lýtur m.a. að leit og björgun á norðurslóðum. Þá fylgjast íslensk stjórnvöld náið með áhrifum hlýnandi sjávar á göngur fiskistofna og munu freista þess að ná hagkvæmum samningum við önnur ríki um að tryggja Íslendingum sanngjarna hlutdeild í hefðbundnum og nýjum fiskistofnum í ljósi breyttra umhverfisskilyrða. Að lokum má nefna að unnið er að samningi um leit og björgun á norðurskautssvæðinu á vettvangi Norðurskautsráðsins.