Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 154. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 564  —  154. mál.




Svar



félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um fækkun starfa.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað hefur störfum fækkað mikið hér á landi árin 2008 og 2009 og það sem af er þessu ári?

    Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands fór fjöldi þeirra sem starfa á innlendum vinnumarkaði mest í 183.800 einstaklinga á þriðja ársfjórðungi 2008 en hefur minnkað síðan. Þannig voru 171.500 einstaklingar starfandi á innlendum vinnumarkaði á þriðja ársfjórðungi 2009 og 170.200 á þriðja ársfjórðungi 2010. Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands hefur virkum þátttakendum á vinnumarkaði því fækkað um 13.600 manns frá því sem mest var á þriðja ársfjórðungi 2008 til þriðja ársfjórðungs 2010.
    Fjölda starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði á árunum 2008, 2009 og það sem af er þessu ári samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands má sjá í eftirfarandi töflu sem og á eftirfarandi mynd:

Fjöldi starfandi eftir ársfjórðungum 2008–2010.
Ár 1. ársfj. 2. ársfj. 3. ársfj. 4. ársfj.
2008 174.000 181.500 183.800 175.000
2009 165.500 167.500 171.500 166.500
2010 163.900 169.500 170.200

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.