Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 339. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 583  —  339. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar og lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta félags- og tryggingamálanefndar.


    Meginefni fyrirliggjandi frumvarps felst í því að lengja þann tíma sem atvinnuleitendur geta verið á bótum úr þremur árum í fjögur ár. 2. minni hluti fellst á þessa breytingu á lögunum af illri nauðsyn þar sem ekkert lát virðist vera á atvinnuleysi og ekkert gengur að skapa skilyrði til þess að atvinna verði til. Endurteknar hækkanir skatta á tekjur, fjármagnstekjur og hagnað fyrirtækja, sem og hækkanir á tryggingagjaldi, gera ekki fýsilegt fyrir einstaklinga og fyrirtæki að fjárfesta og skapa þar með atvinnu til framtíðar. Á sama tíma er farið í harkalegan niðurskurð sem leiðir til uppsagna opinberra starfsmanna sem líkur eru á að finni ekki nýtt starf í atvinnuleysinu og bætist því í hóp atvinnuleitanda. Hins vegar er mjög skaðlegt fyrir einstaklinga að vera lengi í stöðu atvinnuleitanda og sýna rannsóknir að einstaklingar í langvarandi atvinnuleysi enda oft sem öryrkjar. Brýna verður fyrir ríkisstjórninni að tryggja aðstæður til þess að atvinna geti skapast.
    Eftir efnahagshrun voru sett ákvæði um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli sem gerðu fyrirtæki með t.d. tíu starfsmönnum sem þurfti að segja upp 10% starfsmanna vegna samdráttar mögulegt að segja hverjum starfsmanni upp 10% í stað þess að segja einum upp að fullu. Þetta hafði mjög marga kosti. Áfallið fyrir starfsmenn varð miklu minna, þeir héldu tengslum við vinnumarkaðinn og voru virkir, fyrirtækið hélt í verkþekkingu og reynslu starfsmanna og gat ráðið þá aftur að fullu þegar staðan batnaði. Því miður hefur þetta kerfi verið holað með því að auka það hlutfall sem fólk má minnst vera atvinnulaust í sparnaðarskyni. Hér er enn verið að auka þetta hlutfall úr 20% í 30%. 1. minni hluti gerir tillögu um að þetta ákvæði gildi einungis fyrir þá sem verða atvinnulausir eftir 1. janúar 2011. 2. minni hluti efast um að þessi breyting spari neitt vegna þess að fyrirtæki mun þá segja fólki upp 30% í stað 20% og kostnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs mun aukast um 50% í því tilfelli. 2. minni hluti er eindregið á móti þessari breytingu af þessum tveimur ástæðum.
    Efnahagsbatinn sem áætlað var að hæfist á þessu ári hefur látið á sér standa. Það stafar fyrst og fremst af vanhugsuðum aðgerðum í skattamálum, aðgerðaleysi við að leysa skuldavanda heimila og fyrirtækja og mótstöðu við uppbyggingu atvinnulífs. Atvinnuleysi, minni ráðstöfunartekjur og kaupmáttarrýrnun er því miður staðreynd. Við þessu verða stjórnvöld að bregðast. Skapa verður framtíðarsýn og blása fólki aftur von í brjóst, en það verður aðeins gert með því að efla atvinnustarfsemina á ný.
    Frá miðju ári 2008 fram á mitt ár 2010 hafa tapast um 22.500 störf á Íslandi. Um 16.200 urðu atvinnulausir og 6.300 manns hurfu af vinnumarkaði. Lauslegir útreikningar sýna að hvert starf kostar ríkissjóð um 3 millj. kr. í bætur og tapaðar skatttekjur á ári. Þá er ekki talið til allt það framleiðslutap og óbein áhrif sem þjóðfélagið verður fyrir. Bein áhrif á ríkissjóð af töpuðum störfum eru því allt að 70 milljarðar kr. á ári.
    Á næstu tveimur til þremur árum þurfa að verða til yfir 22.000 ný störf á Íslandi. Þetta þarf að gerast á sama tíma og óhjákvæmilegt er að fækka störfum hjá hinu opinbera. Verði ráðist í þær atvinnuskapandi aðgerðir sem mælt er fyrir um í þingsályktunartillögu þingmanna Sjálfstæðisflokksins (þskj. 156, 141. mál) er ljóst að draga mun verulega úr atvinnuleysi á Íslandi, ráðstöfunartekjur munu aukast og þeim sem glíma við langtímaatvinnuleysi mun fækka. 2. minni hluti telur ljóst að stjórnvöld og Alþingi eigi að snúa sér að því verkefni að skapa þær aðstæður að fleiri einstaklingar fái vinnu í stað þess að setja litla plástra á svöðusárið sem við blasir.
    Frumvarp þetta hefur verið til umfjöllunar á þremur fundum nefndarinnar. Félags- og tryggingamálaráðuneytið lagði fram viðamiklar breytingartillögur við frumvarpið sem kynntar voru stuttlega í nefndinni og segja má að um gerbreytt frumvarp sé að ræða.
    Í skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (þskj. 1501, 705. mál á 138 löggjafarþingi) var að finna þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkti með 63 samhljóða atkvæðum þann 28. september 2010. Alþingi ályktaði að brýnt væri að starfshættir þingsins yrðu teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk. Í skýrslunni segir m.a.: „Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sett fram gagnrýni á störf og starfshætti Alþingis sem mikilvægt er að bregðast við. Meginniðurstöður þingmannanefndarinnar varðandi Alþingi eru þær að auka þurfi sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, leggja beri meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar.
    Þingmannanefndin telur brýnt að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar, verji og styrki sjálfstæði sitt og marki skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Alþingi á ekki vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.“Málið var afgreitt frá nefndinni viku eftir að hún hélt um það sinn fyrsta fund. Lítill tími gafst því til faglegrar skoðunar, upplýstrar málefnalegrar umræðu og afgreiðslu sem þingmannanefndin lagði áherslu á að tryggja þyrfti þingmönnum færi á að gera. Telur 2. minni hluti ljóst að þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við framlagningu og vinnslu frumvarpsins séu ekki í samræmi við þingsályktunina sem allur þingheimur var sammála um og telur það ámælisvert.

Alþingi, 16. des. 2010.



Pétur H. Blöndal,


frsm.


Unnur Brá Konráðsdóttir.