Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 224. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 650  —  224. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um skuldaúrræði fyrir einstaklinga.

    Til svars við fyrirspurninni óskaði efnahags- og viðskiptaráðuneytið eftir upplýsingum hjá Samtökum fjármálafyrirtækja. Tölurnar í svarinu sýna stöðuna frá 1. nóvember sl. fyrir viðskiptabanka og sparisjóði í heild. Nýrri tölur liggja ekki fyrir. Samtök fjármálafyrirtækja hafa ekki heimild til þess að birta sundurliðaðar upplýsingar fyrir einstök félög.

     1.      Hve margir einstaklingar hafa fengið lán sín fryst?
    Um 2.440 einstaklingar eru með lán sín í frystingu.

     2.      Hve margir einstaklingar hafa fengið leiðréttingu á höfuðstól lána sinna í bönkum og sparisjóðum og hver er heildarfjárhæð þeirrar skuldalækkunar?
    Um 3.000 einstaklingar hafa fengið leiðréttingu á höfuðstól lána sinna í bönkum og sparisjóðum og nemur heildarfjárhæð skuldalækkunar um 12 milljörðum kr.

     3.      Hve margir einstaklingar hafa fengið afskrifaðar skuldir í bönkum og sparisjóðum eftir svo kallaðri 110% leið og hver er heildarfjárhæð þeirra afskrifta?
    Rúmlega 1.600 einstaklingar hafa fengið afskrifaðar skuldir í bönkum og sparisjóðum eftir svokallaðri 110%-leið sem hefur leitt til afskrifta upp á 8 milljarða kr.

     4.      Hve margir einstaklingar hafa fengið sértæka skuldaaðlögun?
    Um 140 einstaklingar hafa fengið sértæka skuldaaðlögun.