Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 250. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 670  —  250. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um sölu Landsbankans á fyrirtækjum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Á hvaða verði og kjörum selur Landsbankinn EJS, HugAx, Húsasmiðjuna, Icelandic Group, Plastprent, Skýrr, Teymi og Vodafone? Hvernig skiptist kaupverðið, hvert verður virði hlutafjár og skulda og hvaða skuldir verða yfirteknar? Svar óskast sundurliðað eftir fyrirtækjum.

    Þar sem Bankasýsla ríkisins fer með hlut ríkissjóðs í NBI hf. – Landsbankanum óskaði ráðuneytið eftir því við Bankasýsluna að hún afhenti ráðuneytinu þær upplýsingar sem óskað var eftir. Í svari Bankasýslunnar kom fram að hún byggi ekki yfir framangreindum upplýsingum en stofnunin hefði óskað eftir því við NBI hf. – Landsbankann að umræddar upplýsingar yrðu veittar. Svar við fyrirspurn þessari byggist því á svörum NBI hf. – Landsbankans.
    Gengið hefur verið frá kaupum Framtakssjóðs Íslands (FSÍ) á eignarhaldsfélaginu Vestia af NBI hf. – Landsbankanum með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
    Kaupverð FSÍ er 15,5 milljarðar kr. en NBI hf. – Landsbankinn heldur eftir 19% hlut í Icelandic Group í stað þess að selja félagið að fullu. FSÍ hefur kauprétt á þeim 19% hlut í allt að 12 mánuði.
    Þau félög sem fylgja með í kaupum FSÍ á Vestia eru Icelandic Group, Teymi, Húsasmiðjan og Plastprent.
    Samkvæmt fyrirliggjandi samningi er gert ráð fyrir því að verðmæti alls hlutafjár Icelandic Group hf. sé 13,9 milljarðar kr. en þess ber að geta að kaupverð getur lækkað vegna ákvæða um skaðleysi eða ef tilteknar forsendur varðandi rekstur félagsins bregðast.
    Kaupverð annarra eignarhluta var ekki sundurliðað samkvæmt samningum en umsamið heildarkaupverð þeirra hluta er 4,25 milljarðar kr.
    Með sölu á umræddum fyrirtækjum til FSÍ styrkist efnahagsreikningur NBI hf. – Landsbankans verulega sem lýsir sér í því að eigið fé bankans hækkar og eignir til sölu lækka verulega.
    Fram kemur í svari NBI hf. – Landsbankans að hann telur sér almennt ekki skylt að svara fyrirspurnum alþingismanna um önnur málefni en þau sem teljast opinber. Einnig er í kaupsamningi um umræddar eignir að finna skuldbindingu um að aðilar veiti ekki upplýsingar um efni hans nema lög mæli svo fyrir eða aðilar verði sammála um að veita afmarkaðar upplýsingar um efni hans. Enn fremur ber að geta þess að ekki er unnt að veita upplýsingar um viðskiptamálefni þeirra félaga sem samningurinn tekur til.