Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 344. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 673  —  344. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um skurðaðgerðir.

     1.      Hvað ræður því mati að öruggara sé að gera skurðaðgerðir á einum stað umfram annan?
    Ýmsir þættir hafa áhrif á öryggi skurðaðgerða en mestu ræður færni þess starfsliðs sem að þeim kemur, skurðlækna, svæfingarlækna og hjúkrunarfræðinga. Færnin er að jafnaði í samræmi við þjálfun og reynslu þessara starfsmanna sem endurspeglast í fjölda aðgerða sem þeir framkvæma. Þannig er þekkt samhengi milli fjölda skurðaðgerða og árangurs. Árangur er að jafnaði bestur á þeim stofnunum þar sem flestar aðgerðir af sama tagi fara fram og þar er minnst af fylgikvillum eða óæskilegum aukaverkunum.

     2.      Getur sama skurðaðgerð verið jafnörugg þótt aðgangur að tækjum sé mismunandi ef kunnátta starfsfólks er fyrir hendi?
    Mjög mismunandi er hvaða búnað þarf til skurðaðgerða, allt frá frekar einföldum áhöldum til háþróaðs tæknibúnaðar eftir því hvers konar aðgerð á að framkvæma.
    Ávallt verður að uppfylla lágmarkskröfur um búnað og aðra aðstöðu fyrir hverja aðgerð. Á það til dæmis við um sótthreinsun, vöknunarrými með viðeigandi starfsliði fyrir sjúklinga eftir aðgerðir og í stærri tilfellum gjörgæslu. Því öflugri sem viðkomandi stofnun er, t.d. með styrk margra sérgreina og stoðdeilda eins og myndgreiningar (röntgenmyndir, tölvusneiðmyndir, ómskoðun o.s.frv.) og annarra rannsóknadeilda, þeim mun betri möguleikar eru til að bregðast við óvæntum atvikum sem komið geta upp við skurðaðgerðir eða í kjölfar þeirra. Allt slíkt eykur öryggi sjúklinga. Eins og áður segir helst öryggi í hendur við fjölda skurðaðgerða, þ.e. þar sem fleiri aðgerðir af sama tagi fara fram er öryggi sjúklinga að öllu jöfnu meira.

     3.      Hver er samanburður á kostnaði við algengar aðgerðir, sundurliðað eftir stofnunum þar sem skurðstofur hafa verið nýttar sl. 10 ár?
    Kostnaður við skurðaðgerðir hefur verið greindur hjá LSH en ekki hjá öðrum sjúkrahúsum. Samanburður liggur því ekki fyrir.