Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 295. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 677  —  295. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um fjölda Íslendinga og vinnumarkaðinn.

     1.      Hvað voru Íslendingar margir 1. nóvember 2010, hversu margir þeirra voru 67 ára og eldri og hversu margir 18 ára og yngri?
    Hagstofa Íslands birtir tölur um mannfjölda ársfjórðungslega og er hér miðað við mannfjölda í lok þriðja ársfjórðungs 2010 eða 1. október 2010. Þá bjuggu 318.188 á Íslandi samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Þar af voru 97.232 einstaklingar 18 ára og yngri en 36.743 sem voru 67 ára og eldri. Af þessum 318.188 einstaklingum voru Íslendingar 296.688 en erlendir ríkisborgarar voru 21.500.

     2.      Hvað fluttu margir Íslendingar frá landinu frá 1. október 2008 til 1. nóvember 2010?
    Í lok þriðja ársfjórðungs 2010 eða 1. október 2010 höfðu 20.519 einstaklingar flutt frá landinu frá 1. október 2008 samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Árið 2008 fluttu 9.144 frá landinu, þar af 3.294 íslenskir ríkisborgarar. Árið 2009 fluttu 10.612 frá landinu en þar af voru 4.851 íslenskur ríkisborgari. Heildartölur um brottflutta og aðflutta árið 2010, sundurgreindar eftir þjóðerni, verða birtar á vef Hagstofunnar 25. janúar 2011.

     3.      Hvað fluttu margir til landsins á sama tímabili og hversu margir þeirra voru:
                  a.      íslenskir ríkisborgarar,
                  b.      ríkisborgarar ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu,
                  c.      ríkisborgarar ríkja utan svæðisins?
    Á fyrrnefndu tímabili fluttu samtals 12.576 einstaklingar til landsins samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Þar af voru:
    a.     4.987 íslenskir ríkisborgarar,
    b.    6.196 ríkisborgarar einhvers annars aðildarríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins,
    c.     1.393 ríkisborgarar ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins.

     4.      Hvað voru 1. nóvember sl. skráðir margir:
                  a.      opinberir starfsmenn,
                  b.      starfsmenn á almenna vinnumarkaðnum,
                  c.      í námi í framhaldsskóla og háskóla,
                  d.      atvinnulausir,
                  e.      öryrkjar?
    a.    Upplýsingum um fjölda opinberra starfsmanna hjá ríki og sveitarfélögum er ekki safnað miðlægt. Samkvæmt upplýsingum frá starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem birtar voru á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga voru 6. október 2010 samtals 36.640 stöðugildi hjá ríki og sveitarfélögum, þar af voru 17.400 stöðugildi hjá ríki og 19.240 hjá sveitarfélögunum.
    b.    Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands voru 170.200 einstaklingar starfandi á innlendum vinnumarkaði á þriðja ársfjórðungi 2010. Því miður liggja ekki fyrir upplýsingar um hversu margir þeirra starfa á almennum vinnumarkaði.
    c.    Því miður liggja ekki fyrir tölulegar upplýsingar um hversu margir voru skráðir í nám í framhaldsskóla og háskóla 1. nóvember 2010 en Hagstofa Íslands mun 21. janúar 2011 birta tölur um fjölda nemenda í framhaldsskólum og háskólum haustið 2010. Haustið 2009 voru hins vegar 18.655 nemendur skráðir í nám við háskóla hér á landi og 30.480 nemendur skráðir í nám við framhaldsskóla.
    d.    Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar voru að meðaltali 12.363 einstaklingar skráðir án atvinnu í nóvember 2010.
    e.    Samkvæmt upplýsingum hjá Tryggingastofnun ríkisins voru 16.817 einstaklingar metnir með 75% örorku eða meiri.

     5.      Hvað margir Íslendingar stunda vinnu erlendis þó að nánasta fjölskylda þeirra búi hér á landi?
    Því miður liggja ekki fyrir tölulegar upplýsingar um fjölda Íslendinga sem stunda vinnu erlendis þó að nánasta fjölskylda þeirra búi hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru 1. október 2010 hins vegar 1.513 einstaklingar í þeirri stöðu að maki þeirra var með lögheimili erlendis en hvorki liggja fyrir upplýsingar um ríkisfang þeirra né tilgang dvalar maka erlendis.